29.10.04

Þetta grunaði mig

Fyrir nokkrum árum strengdi ég þess heit að drekka meira af góðu rauðvíni en verið hafði. Ég sá ekki eftir því. Síðasta eitt og hálft árið hef ég hins vegar dregið verulega úr áfengisneyslu, en þá sjaldan ég tek glas er það þó einatt rauðvínið, sem fyrir valinu verður. Það sakar ekki heldur að úrval ódýrra en algerlega drykkjarhæfra rauðvína hefur aukist mjög upp á síðkastið. Nú orðið er ég hrifnastur af áströlskum vínum, sérstaklega frá Wolf Blass, en einnig ber veigar frá Chile og Suður-Afríku fyrir varir mínar.

En auðvitað á maður að drekka meira af heilsubótardrykknum rauðvíni. Það er hollt fyrir hjarta og æðakerfi hóflega drukkið og víst getur það glatt mannsins hjarta. Síðan berast manni tíðindi af enn öðrum vígstöðvum. Ég get ekki sagt að þau komi mér öldungis á óvart.

28.10.04

Tjáningarfrelsið, bloggar og fjölmiðlar

Menn hafa nokkuð rætt um það framtak Björns Tómasar Sigurðssonar að setja lista yfir meinta eiturlyfjasala inn á netið og sýnist sitt hverjum. Sumum finnst að með þessu sé hann að taka lögin í sínar eigin hendur, aðrir að birting þessi skarist við lög um persónuvernd og enn aðrir hér sé einfaldlega um brot á einhverri eða ýmsum greinum XXV. kafla hegningarlaganna. Svo virðist Björn sjálfur hafa talið að með því að nota erlent lén og vefþjón á erlendri grundu væri hann utan íslenskrar lögsögu, sem er ekki raunin (en sú dagskrá öll er efni í aðra umræðu).

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins þriðjudaginn 19. október var um þetta fjallað og meðal gesta var lögmaðurinn Hlynur Halldórsson, sem hefur tölvu-, upplýsinga- og fjarskiptalög að sérgrein. Hann taldi ótvírætt að skrá þessi væri brot á persónuverndarlögum og við yfirlestur þeirra er ég ekki frá því að hann kunni strangt til tekið að hafa rétt fyrir sér. En það sýnir kannski fremur en annað hvað persónuverndarlögin eru meingölluð og ég leyfi mér að efast um að þau standist mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eða sáttmála þá sem Íslendingar hafa undirgengist.

Raunar er það þannig að við samningu laganna gerðu menn sér grein fyrir þessu og því er tekið fram í 5. grein að „þegar persónuupplýsingar [séu] einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi“ gildi aðeins sum ákvæði laganna. Hlynur virtist hins vegar ekki telja að bloggsíða Björns væri þess eðlis. Ég tel að það sé fráleitt að tjáningarfrelsið skuli aðeins varið fyrir persónuverndarlögunum ef í húfi eru ofangreind skilyrði og þá því aðeins að efnið sé unnið með sanngjörnum og málefnalegum hætti. Ef það væri nákvæmlega þannig er hætt við að stór hluti nauðsynlegrar, og lýðræðislegrar pólitískrar umræðu bryti í bága við lögin. Mætti ég — ef marka má lögin og þessa túlkun þeirra — birta lista yfir þingmenn ásamt tölfræði um hvernig þeir hafa hagað atkvæðum sínum í tilteknum málum? Skrá yfir rithöfunda ásamt opinberum styrkjum til þeirra og sölutölur? Bestu fótboltamenn landsins að mínu viti, nú eða þá verstu? Sjálfsagt ekki, því listi Björns er aðeins skrá yfir fólk — án nákvæmrar auðkenningar — sem hann telur að stundi ólöglegt eða siðlaust athæfi. Í birtingunni kunna sjálfsagt að felast saknæmar aðdróttanir, en ég fæ á engan hátt séð að hún brjóti í bága við Persónuverndarlög. Hugsanlega mætti segja sem svo að val manna á starfi varði engan annan og ætti að njóta friðhelgi einkalífs, en ávirðingar um brot manna á samfélagssáttmálanum — lögunum — varða ekki þá eina. Lögbrot af því taginu varða almannahagsmuni eins og best sést á því að ákæruvaldinu er gert að sækja slík mál í nafni þjóðarinnar.

En látum það vera að sinni og hugum aftur að Persónuverndarlögunum og hvernig þau kunna að skarast við tjáningarfrelsið. Hvernig má það vera að stjórnarskrárbundið tjáningarfrelsi skal víkja nema þegar það er gert „í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi“? Lögin skulu sumsé gilda nema menn séu blaða- eða listamenn. Hvað með stjórnarskrárgreinina þar sem segir:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Ég á bágt með að trúa því, að það hafi verið ætlan löggjafans að takmarka tjáningarfrelsið nema fyrir tilteknar stéttir, en það kynni nú samt að vera niðurstaðan. Að undanförnu hafa þær raddir gerst háværari, sem segja að blaða- og fréttamennska þurfi að öðlast sérstaka lögvernd sem starfsgrein. Mér finnst það reyndar í meira lagi idíótísk hugmynd, en það er efni í aðrar athugasemdir. En ef menn fara út í eitthvað slíkt, þarf þá ekki að gera einhverjar kröfur til þess að menn komist inn í stéttina? Og er þá langt í að menn þurfi að sækja um leyfi hjá hinu opinbera eða einhvers apparats til þess að njóta sæmilegs tjáningarfrelsis? Ég óttast það.

En síðan má auðvitað halda hinu fram, sem mér sýnist fæstir hafa leitt hugann að, en ég heyrði ekki betur en að Hlynur féllist ekki á: Bloggar eru fjölmiðlar. Vefir eru fjölmiðlar. Vestanhafs hefur átt sér lærð umræða um blogga og hefðbundna fjölmiðla. Hinir hefðbundnu fjölmiðlar hafa haft fremur litið álit á bloggum og ámóta fjölmiðlum og bent á að þeir fylgi engum siðareglum, hafi enga hefð að byggja á, hlutleysi sé sjaldnast gætt og áreiðanleikinn sé afar lítill. Sú gagnrýni á vissulega við um marga blogga, en alls ekki alla og síst hina vinsælustu. Og það er kannski einmitt þess vegna, sem þeir eru vinsælir. En þessi gagnrýni hittir hina hefðbundnu fjölmiðla ekki síður fyrir. Virðulegir fjölmiðlar eins og New York Times hafa orðið uppvisir að ritstuldi og fréttafölsunum, hlutleysi hefðbundinna fjölmiðla er bara svona og svona (eins og menn hafa séð í kosningabaráttunni) og áreiðanleiki blogga rétt eins og annara fjölmiðla er áunninn og það þarf ekki mikið til þess að glata honum.

Bloggar hafa hins vegar margt umfram hefðbundna fjölmiðla. Blaðamenn við hefðbundna fjölmiðla verða að vera dílettantar: þeir þurfa að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar, en á sama tíma eru þeir sjaldnast sérfræðingar í neinu. Og þannig þarf það að vera. En það vill svo til að allir bloggarar eru sérfræðingar í einhverju. Megnið af því er frekar fánýtt flesta daga, smáfróðleikur um Simpsons, merkjafræði eða kúluritvélar. En svo fellur Dan Rather hjá CBS fyrir fölsunum af því hann vill trúa þeim og hvað þá? Hefðbundnu fjölmiðlarnir voru 4-7 daga að komast til botns í málinu og engin lengur en CBS. Á hinn bóginn voru bloggarar og þátttakendur vefspjalla aðeins nokkrar klukkustundir að sjá í gegnum falsanirnar og færa rök fyrir ályktun sinni. Allt í einu varð kúluritvélanördinn annað og meira en náungi með sérkennilegt áhugamál.

Enn sem komið er hafa bloggar ekki velt upp mikið af nýjum fréttum (Mónikuskúbb Matt Drudge er helsta undantekningin), en á hinn bóginn eiga þeir glæsilegan feril við að koma auga á villur, rangfærslur og rugl í hefðbundnu fjölmiðlunum. Það er sagt að fjölmiðlar séu varðmenn lýðræðisins og með bloggunum er þá a.m.k. fundið svar við spurningunni „qui custodiet ipsos custodes?“

En fjölmiðlar þurfa ekki að skúbba stórtíðindum daglega til þess að réttlæta tilveru sína. Víkurfréttir eiga engu minna tilkall til þess að heita fjölmiðill en Morgunblaðið. Eða fréttabréf Myntsafnarafélagsins ef því er að skipta.

Tjáningarfrelsið er varið í stjórnarskrám og mannréttindasáttmálum til þess að veita vondum, röngum og óvinsælum skoðunum skjól. Af því að það eru þær sem þurfa á vernd að halda. Það er nefnilega einskis virði að láta tjáningarfrelsið aðeins ná til góðra, réttra og vinsælla skoðana. Og alveg eins og við eigum að standa dyggan vörð um það að koma megi hvers kyns skoðunum á framfæri, eigum við ekki að fara að flokka þær eftir því hver flytur þær: löggiltur fjölmiðill eða netverji á náttfötunum.

27.10.04

Fréttaflutningur af könnunum

Núna er kosningabaráttan í Bandaríkjunum á síðustu metrunum og allt á suðupunkti. Það stefnir í afar tvísýnar kosningar og sumir óttast sams konar vandræðastöðu og 2000 þegar talið verður upp úr kössunum. Við skulum vona ekki. Ég verð hins vegar að lýsa yfir vonbrigðum með umfjöllun flestra fjölmiðla hér heima (og margra erlendis raunar líka) um kosningabaráttuna. Dag eftir dag þarf maður að lesa eða hlusta á eitthvert raus um skoðanakannanir í Bandaríkjum þar sem George W. Bush er sagður halda naumu forskoti sínu eða að John F. Kerry sé að sækja í sig veðrið og að nú sé allt að breytast. Þetta er tómt bull.

Kosningafyrirkomulagið vestra gerir það nefnilega að verkum að kannanir á landsvísu hafa afar lítið að segja, sérstaklega þegar jafnmjótt er á mununum. Afar lítil hreyfing á fylgi einstakra ríkja getur á hinn bóginn gert gæfumuninn, þar sem sigurvegari hvers ríkis hirðir (í flestum tilvikum) alla kjörmenn þess. Þær kannanir, sem nú skipta máli, eru kannanir í ríkjum á borð við Flórídu, Iowa, Nevada, New Hampshire, Ohio og Wisconsin. Ég mæli eindregið með vefjunum Real Clear Politics og Electoral Vote í þessu viðfangi, en þar er haldið utan um kannanir um gervöll Bandaríkin, þær teknar sama og einnig er hægt að sækja gögnin í Excel-skjölum ef menn vilja hræra í þeim sjálfir.

Fyrir utan þetta grundvallaratriði finnst mér oft gæta óskhyggju hjá sumum fjölmiðlum þegar rýnt er í kannanir, sem gefur til kynna að meint hlutleysi risti grynnra en þeir vilja vera láta. Þetta kann að stýrast af því að fjölmiðlamenn hvarvetna á Vesturlöndum eru mun vinstrisinnaðri en almenningur, en einnig er rétt að hafa í huga að evrópskir fréttaritarar í Bandaríkjunum eru langflestir staðsettir í New York eða Washington DC, en þær borgir endurspegla engan veginn bandarísk stjórnmálaviðhorf almennt. Oftar finnst mér þó aðalgallinn á fréttaflutningi þessum vera sá að menn virðast einfaldlega ekki kunna að lesa í kannanir.
  • Þegar tveir keppa að sama embætti og annar gegnir því fyrir er fráleitt að gera ráð fyrir að óákveðnir skiptist líkt og gerist meðal hinna, sem hafa tekið afstöðu. Ef mönnum hefur ekki dugað fjögurra ára forsetatíð til þess að gera upp hug sinn til George W. Bush er næsta víst að atkvæði þeirra falli öðrum í skaut... ef þeir á annað borð kjósa. Að því leyti er stuðningur við Kerry örugglega vanætlaður.
  • Kannanirnar byggjast flestar á úrtaki „líklegra kjósenda“. Samsetning slíkra úrtaka er á hinn bóginn afar erfið og sjálfsagt aldrei erfiðari en nú þegar nýskráning kjósenda er sú langmesta í sögunni. Mismunandi aðferðir við úrtaksgerðina skýra að miklu leyti verulegan mun á einstökum könnunum, sem gerðar eru samtímis á sömu svæðum.
  • Fólk segir ekki alltaf satt eða allt af létta í könnunum. Þetta sjá menn t.d. reglulega þegar fólk er spurt hvað það hafi kosið í síðustu kosningum og niðurstöðurnar benda ávallt og undantekningarlaust til þess að sigurvegarar kosninganna hafi sigrað með miklu meiri mun en raunin var. Á sama hátt hneigist margt fólk til þess að svara ekki eða segjast vera óákveðið ef það telur sig vera í minnihluta eða eiga undir högg að sækja á einhvern hátt. Þýski stjórnmálafræðingurinn dr. Elisabeth Noelle-Neumann reifaði þessa kenningu sína í bókinni Spiral of Silence. Til þess að sneiða hjá þessari hneigð mætti t.d. spyrja fólk um það hvor frambjóðandinn muni hafa sigur, burtséð frá eigin skoðunum, en rannsóknir dr. Noelle-Neumann benda til mikillar fylgni milli slíkra „spádóma“ og endanlegrar niðurstöðu.
Það er svo rétt að hafa í huga að þessar athugasemdir má vel heimfæra á íslenskar aðstæður. Í sömu röð:
  • Skoðanakannanir á landsvísu hafa takmarkað spágildi eftir því sem kjördæmakerfið er flóknara, ekki síst þegar mikill munur er á vægi atkvæða. Þetta sáu menn vel í þarsíðustu þingkosningum þegar frjálslyndir komust varla á blað í landskönnunum en afstaða Vestfirðinga var á allt annan veg en landsmanna í heild.
  • Þó að hér sé ekki tveggja flokka kerfi má alveg beita sömu reglu á ríkisstjórnir þegar kemur að óákveðnum. Þeir sem segjast óákveðnir í afstöðu sinni til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir allan þennan tíma eru sjálfsagt aðeins óákveðnir í því hvern stjórnarandstöðuflokkinn þeir hyggist kjósa. Þessara áhrifa gætir sjálfsagt meira gagnvart forystuflokki ríkisstjórnar en öðrum.
  • Hér á landi tíðkast nær einvörðungu að nota slembiúrtak, sem oftast gefur nokkuð góða mynd af afstöðu til stjórnmálaflokka, m.a. vegna mikillar kosningaþátttöku. Hið sama þarf hins vegar ekki að vera upp á teningnum þegar könnuð er afstaða til einstakra mála nema menn hafi fyrir því að framreikna niðurstöðurnar að teknu tilliti til kyns, búsetu, menntunar og fleira. Þetta hefur verið gert í einhverjum mæli af stjórnmálaflokkunum, en mér vitanlega hafa skoðanakannanafyrirtækin alveg látið það eiga sig.
  • Kenning dr. Noelle-Neumann birtist sjálfsagt skýrast hér á landi þegar litið er á frammistöðu Framsóknarflokks í kosningum, sem jafnan er langt umfram það sem ætla mátti af skoðanakönnunum.
Kannski er það bara leti fremur en fávísi sem ræður því að á okkur dynja þessar fréttleysur, sem engu skipta. Hið skrýtna er að þetta eru nákvæmlega sömu vinnubrögðin og fyrir kosningarnar 2000, en þá réðust úrslitin á örlitlum atkvæðamun í einu ríki. Lærðu menn ekkert af því?

21.10.04

Englarnir til bjargar DV

Mér sýndist á öllu að DV væri að syngja sitt síðasta í upphafi vikunnar. Það var komið niður í 32 síður og þegar heilsíðauglýsing frá Snælandsvideói birtist á annarri auglýsingasíðu er næsta víst að endalokin eru skammt undan. Þá bregður svo við að þrír vinir Bjargar Sivjar Juhlin Friðleifsdóttur gera strandhögg á ritstjórnarskrifstofum DV, leita án árangurs að ritstjórunum, brjóta og bramla, taka fréttastjórann Reyni Traustason kverkataki og reyna loks að aka niður einn af blaðamönnum blaðsins. Þetta gefur ótvírætt til kynna að umfjöllun blaðsins um handrukkara og skyldan skríl að undanförnu hafi verið í senn réttmæt og átt við rök að styðjast. En mestu skiptir sjálfsagt fyrir DV að þessir óvinir blaðsins hafa lengt í hengingaról þess með þessum dólgshætti. Kemur vel á vonda.

En burtséð frá því er þetta auðvitað óþolandi, að einhverjir gangsterar gangi um bæinn með ofbeldi og hótunum til þess að ná sínu fram. Að fjölmiðlar búi við slíkar ógnir gerir málið enn alvarlegra.

Svo hjó ég eftir einu í viðbót. Í DV í dag kemur fram að lögregluþjónn nokkur hafi fengið hótanir um að börnum hans yrði unnið mein af misyndismönnum, en hann ekki þorað að kæra. Það var og. Það er vitaskuld grafalvarlegt mál ef fulltrúum valdstjórnarinnar er hótað með þeim hætti, en hitt finnst mér þó enn alvarlegra að lögregluþjónninn skuli ekki þora að kæra. Það vekur ekki traust á lögreglunni eða hvatningu yfirmanna þeirra til almennings um að kæra dóna af þessu tagi. Þessi maður getur ekki verið lögregluþjónn ef hann kýs að láta menn komast upp með slíka hegðan. Hann ætti að sjá sóma sinn í að segja upp, en ef hann gerir það ekki verður lögreglustjóri að segja honum upp. Það er ekki hægt að líða það að menn, sem þola órétt glæpamanna, sé treyst til þess að halda uppi lögum og reglu í þjónustu almennings.

19.10.04

Ómerkilegt merki

Ég rak augun í það fyrir skemmstu að Reykjavíkurborg tilkynnti að nýjar reglur hefðu verið settar um merki borgarinnar og meðferð þess. Mér fannst það forvitnilegt vegna þess að ég vissi ekki betur en að Gísli B. Björnsson hefði fyrir allnokkru samið slíkar leiðbeiningar, sem algerlega hefðu staðist tímas tönn, enda er hann einn ágætasti merkjasmiður þjóðarinnar með næman skilning á letri. En ég ákvað að athuga hin nýju fyrirmæli borgarinnar og sá í fyrstu engar breytingar aðrar en þær að búið var skipta um letur með merkinu úr Bodoni yfir í Akzidenz Grotesk.

Nú er Akzidenz Grotesk sæmileg steinskrift, en ekkert umfram það, hvað þá að ástæða sé til þess að leggja út í merkisbreytingu eins stærsta fyrirtækis landsins fyrir slík býti, því Bodoni er algerlega klassískt og tímalaust letur. Þar fyrir utan er þetta lélegt val því Akzidenz Grotesk er fremur klossað letur og hefur þann alvarlega ágalla að íslensku sértáknin Þ og ð eru ekki nógu vel teiknuð. Þ er alltof klunnalegt og ð beinlínis rangt. Svo er það auðvitað ekki traustvekjandi að letursérfræðingar borgarinnar virðast ekki hafa á hreinu hvernig nýja letrið er stafsett og samþykkt borgarráðs um þessar breytingar inniheldur ranga stafsetningu á því.

Einn starfsmaður Ráðhússins sagði mér að menn hefðu viljað nútímalegra letur, eitthvað sem ætti að endurspegla nútímalega stjórnarhætti betur og allt það. Jájá, en þeir hefðu þá e.t.v. átt að nota nútímasteinskrift á borð við Myriad. Akzidenz Grotesk var kynnt til sögunnar árið 1896. Hið fyndna er svo að „gamla“ Bodoni letrið er talsvert yngra, því það var gert árið 1926 þó svo það byggðist á eldra letri eftir Giambattista Bodoni frá 1767.

Síðan rekur maður augun í það að búið er að teikna nýja útfærslu af sjálfu skjaldarmerkinu, sem nota má jafnt hinu gamla, og hún er einmitt notuð á forsíðu leiðbeininga borgarinnar um merkið. Þessi útfærsla gerir skjaldarmerkið að engu, því sjálfur skjöldurinn er látinn fjúka út í veður og vind, en öndvegissúlurnar og öldurnar látnar mara innan fernings. Ætli erfingjar Halldórs Péturssonar, sem teiknaði gamla merkið árið 1957, hafi verið hafðir með í ráðum? Ég dreg í efa að Pétur Halldórsson, sonur hans (og ekki síðri teiknari), hafi tekið svona lagað í mál ef undir hann væri borið.

Mér finnst þetta skemmdarverk á skjaldarmerki okkar Reykvíkinga og sæmdarréttur höfundarins hafður að engu. En það er eins og borgaryfirvöldum sé slétt sama um söguna. Halldórs er ekki einu sinni getið í þessum bæklingnum um hið „nýja og endurbætta“ merki. Við þetta má svo bæta að Halldóri var málið skylt, því faðir hans hafði verið borgarstjóri. Sjálfur var hann mikill Reykvíkingur, fæddur og uppalinn við Túngötuna (á horni Unnarstígs) og enginn hefur fest Reykjavík og Reykvíkinga betur á blað en einmitt hann. Jú, Tómas Guðmundsson auðvitað, en þá er það líka upptalið.

En jafnvel þó svo þetta hefði allt verið vel gert: betra letur valið og gamla merkið látið óspjallað, þá spyr maður sig samt sem áður til hvers í ósköpunum var verið að þessu. Borgarstjóri R-listans, Þórólfur Árnason, velkist ekki í vafa í inngangi margnefnds bæklings:
...ýmislegt nýtt er þar einnig að finna. Má þar nefna nýtt letur sem þykir virðulegt en um leið glæsilegt auk þess sem það endurspeglar nútímaleg vinnubrögð borgarinnar.
Þetta finnast mér afar fáfengileg rök og maður spyr enn: Hver var þörfin? Og hafa borgaryfirvöld ekki einhverju þarfara að sinna?

Nú hefur hönnunarvinnan, gerð fyrirmæla um meðferð merkisins, útgáfa bæklingsins og annað slíkt vafalaust kostað skildinginn sinn, en vinnan var í höndum auglýsingastofunnar Hér og nú. En síðan á eftir að bætast við gríðarlegur kostnaður við hönnun og prentun alls kyns prentgripa, eyðublaða, nafnspjalda, bréfsefnis, kynningarefnis, merkinga innanhúss og utan, skiltagerð og þar fram eftir götum. Til hvers? Svona bruðl í þarfleysu, sem þar að auki er lítil, léleg og rándýr, er ekki til þess fallin að bæta ímynd borgarinnar. En kannski er vandi Reykjavíkurborgar R-listans slíkur að hið eina, sem þessum herrum dettur í hug, er að reyna að flikka upp á umbúðirnar? Það tókst jafnvel og annað hjá þessu liði.

17.10.04

Kannanir Kananna

Hið ágæta breska tímarit The Economist fjallar um bandarísku kosningarnar frá eilítið öðru sjónarhorni en maður hefur séð annars staðar. Í Lexington-grein síðasta tölublaðs er bent á hversu ólík vígstaða demókrata og repúblikana sé. Kerry sé frambjóðandi flokks í hnignun (og þá er átt við flokksskipulagið fremur en stefnumál) á meðan Bush hafi lagt á það mikið kapp — og haft árangur sem erfiði. En stefnan þvælist líka fyrir Kerry að sögn blaðsins, því hún liggur ekkert fyrir þó hann kveðist hafa plön um alla skapaða hluti.
These differences in momentum and organisation make a bigger point: the Republicans have more to gain from a victory in November. Because the election is largely a referendum on Mr Bush, he can claim, if he wins, a clear mandate for his policies—particularly cutting taxes at home and smiting terrorists abroad. If Mr Kerry wins, the only mandate he will have will be for not being George Bush.
Skynji kjósendur þetta í einhverjum mæli er Kerry í miklum vanda. Vangaveltur mínar um að meintir sigrar Kerrys í kappræðum myndu lítt skila sér í könnunum (og þá líklega í kjörkassa) virðast hafa ræst ef marka má kannanir Gallup fyrir CNN.
Sumir hafa bent á að innbyggð skekkja kunni að vera í úrtaki Gallup þannig að halli á demókrata. Ég þekki ekki hvernig liggur í því, en bendi mönnum á að athuga RealClearPolitics en þar er alls kyns könnunum haldið til haga. Þegar litið er á þróunina undanfarna mánuði á línuritinu að neðan tekur maður fyrst eftir því hvað sveiflurnar eru miklar og maður á bágt með að trúa því að skoðanir almennings hafi sveiflast svo ört í vor og snemmsumars. Þarna eru hins vegar fyrst og fremst á ferðinni sveiflur milli úrtaka og rétt að hafa í huga að þær eru innan vikmarkanna ±4%. Í ágústbyrjun var flokksþing demókrata og þá jókst fylgi Kerrys verulega, en það gerði fylgi Bush líka og demókratar græddu miklu minna á þinginu en þeir stefndu að.

En hvað gerðist í september? Á maður að trúa því að repúblikanar hafi staðið sig svona miklu betur á sínu flokksþingi? Og síðan klúðrað því í lok mánaðarins? Svona veigamikil breyting á að vekja grunsemdir hjá manni og kannski ekki síður þegar litið er til þess að samhengi er milli niðurstaða í lok ágúst og byrjun október ef litið er framhjá september. Hugsanleg skýring á þessu er að kjósendur vestra þurfa að skrá sig og flestir skrá sig sem stuðningsmann annars hvors stóru flokkanna. Þegar verið er að smíða úrtök „líklegra kjósenda“ þurfa könnuðurnir því að reyna að finna „rétt“ hlutföll repúblikana og demókrata í bland við óháða. Það getur ráðið miklu um niðurstöðurnar eitt og sér, en einnig ýkt lítilvægar sveiflur verulega. Mig grunar að menn hafi undrast hvað flokksþingskippurinn hjá Kerry hafi verið lítill og stuttur og freistast til þess að eiga við úrtökin til þess að endurspegla kippinn eftir repúblikanaþingið betur. Það gekk hins vegar allt of vel með þeim afleiðingum að niðurstöðurnar voru bara grunsamlegar. Svo þeir hafa núllstillt aftur.

En ef menn líta framhjá þessum skrýtna september, reyna að útiloka „suðið“, taka tillit til vikmarka og reyna svo að draga sem einfaldasta línu fyrir hvorn frambjóðanda má vissulega greina ákveðna þróun, sem gefur til kynna að fylgi þeirra félaga hafi verið jafnt í mars, Kerry svo siglt fram úr Bush en komist á sléttu, sem hann hefur haldið sig á og jafnvel dalað eilítið. Bush hafi hins vegar sótt í sig veðrið eftir verulega lægð í maí og farið aftur fram úr Kerry þegar áhrifa flokksþings demókrata hætti að gæta.



Á hinn bóginn er rétt að ítreka að slíkar kannanir eiga ekki endilega við í einstökum ríkjum og vegna kjörmannakerfisins kunna afar litlar sveiflur í ríkjum á borð við Wisconsin, Iowa og Flórídu að ráða baggamuninn. Sá meðbyr, sem Kerry þó fékk í kappræðunum, er nú þorrinn. Á næstu tæpum tveimur vikum munu kosningamaskínurnar ráða úrslitunum og fáir efast um að þar séu repúblikanar með mun betra lið.

14.10.04

Bush sigrar

Bandarískir fjölmiðlar láta ekki að sér hæða og hafa þegar gert kannanir eftir kappræðurnar. Samkvæmt þeim hefur Kerry vinninginn í kappræðunum, en áhrifin á það hvað menn hyggjast kjósa virðast hverfandi sem fyrr.

En ég ætla samt að lýsa því yfir að Bush muni sigra þetta. Það byggi ég á tvennu:

Í fyrsta lagi eiga flestar kannanir að endurspegla hug bandarísku þjóðarinnar allrar. Það kemur málinu hins vegar sáralítið við vegna kjördæmakerfisins. Ef menn skoða kannanir, sem gerðar eru í einstökum ríkjum, bendir allt til þess að Bush sigri þetta næsta auðveldlega. Síðustu tölur hjá Electoral Vote benda til þess að Bush fái 291 kjörmann, en Kerry 228.

Í öðru lagi eru upplýsingakerfi, sem byggja á veðbankahugmyndum, á einu máli um að Bush hafi þetta. Þegar þetta er ritað eru hlutföllin hjá Tradesports 54,3% fyrir Bush og 45,0% fyrir Kerry. Ég hneigist eindregið til þess að taka meira mark á slíkum upplýsingakerfum en skoðanakönnunum þegar horft er meira en 2-3 daga fram í tímann.

Kappræðurnar 0-0

Ég veit ekki hvort að síðustu kappræðurnar skipta nokkru máli. Manni skilst að John Kerry hafi unnið þær tvær fyrri, en samt hefur honum afar lítið gengið að saxa á forskot George Bush. Og nú eru þrjár vikur eftir.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að kappræðurnar hafa hjálpað Kerry verulega, fyrst og fremst með því að sannfæra bandarískan almenning um að hann sé nægilega forsetalegur. En honum hefur aldrei tekist að slá í gegn í kappræðunum. Forsetanum raunar tæpast heldur ef frá eru talin alþýðleg tilsvör og skopskyn. En Bush hefur aldrei haft orð á sér fyrir að vera neinn ræðusnillingur, þannig að væntingarnar voru takmarkaðar líka og ljóst að stuðningsmenn hans og kjósendur hrífast af einhverjum öðrum eiginleikum hans. Kerry er á hinn bóginn mun fágaðri ræðumaður en varla neinn Demosþenes heldur.

Munurinn er sá að Bush þurfti bara að komast hjá niðurlægingu í kappæðunum en Kerry þurfti að sýna algera yfirburði og finna eitthvert töframóment. Bush tókst ætlunarverk sitt og gott betur, hann var alveg fyllilega frambærilegur og miklu betri í að ná persónulegu sambandi við áhorfendur. Kerry tókst á hinn bóginn ekki að gera nein kraftaverk og hætti meira til þess að fara með rulluna likt og honum sjálfum væri farið að leiðast klisjurnar.

Þess vegna fellst ég ekki á að Kerry hafi „unnið“ kappræðurnar 3-0 líkt og spunameistarar demókrata vilja halda fram. Mér finnst nær að setja það fram með þeim hætti að áskorandanum hafi aldrei tekist að koma rothöggi á þungavigtarmeistarann og stigin hafi fallið hnífjafnt. Staðan er því 0-0 og það þýðir að meistarinn heldur beltinu.

Flatneskjulegar líkingar sem þessar duga þó skammt. Sem fyrr segir eru þrjár vikur eftir og allt getur gerst. Tilfinning mín er þó sú að eitthvað óvænt þurfi að gerast til þess að Bush haldi ekki naumum meirihluta sínum. Flest óvænt atvik utan kosningabaráttunar eru hins vegar fremur til þess fallin að auka forskot forsetans. Og ef maður ber saman kosningastjórnir kandídatanna sýnist manni að Bush hafi mun flinkari menn í vinnu hjá sér. Það sakar ekki heldur að Rudy Giuliani hefur beitt sér æ meira í kosningabaráttunni undanfarnar vikur og menn ættu ekki að vanmeta persónulegar vinsældir hans.

Hvað getur þá breytt stöðunni Kerry í vil? Að mínu viti er þrennt helst að nefna:
  • Þorri nýskráðra kjósenda reynist halla sér að Kerry
  • Spillingarhneyksli
  • Stórfengleg hryðjuverk
Af þessu finnst mér hið fyrsta sennilegast. Spillingarhneyksli er afar ósennilegt (nóg hafa menn snuðrað í kringum Halliburton og allt það) enda væri það sjálfsagt alltof seint fram komið úr þessu. Stórfengleg hryðjuverk vonar maður vitaskuld að verði ekki framin, en þau geta átt sér stað. Þá er spurningin hvað gerist. Annars vegar geta menn hugsað sem svo, að allar þessar ráðstafanir Bush hafi komið fyrir ekki, en það getur eins farið á hinn veginn, að menn verði enn ákveðnari að halda settri stefnu. Ég hef frekar trú á því. Bandarískur þjóðarkarakter er lítt fyrir að láta ógna sér til einhvers.

Sjáum til. Þetta verða örugglega ekki síðustu athugasemdirnar um kosningarnar vestra.

13.10.04

Þjóðin talar?

Ég sé það á fréttavef Morgunblaðsins að Þjóðarhreyfingin — hvorki meira né minna — hafi sent frá sér ályktun, þar sem þess er krafist í nafni þjóðarinnar að Ísland verði tekið af lista hinna staðföstu þjóða, sem stóðu með Bandaríkjunum að því að koma Saddam Hussein frá völdum, og að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson segi af sér í þokkabót. Undir þessa ályktun skrifa svo þeir Hans Kristján Árnason og Ólafur Hannibalsson, sem eru vitaskuld ekki nema lítill hluti þjóðarinnar. Ég veit ekki um aðra landa mína, en ég kæri mig ekki um að þessir karlar tali í mínu nafni eða þjóðarinnar. Nú eru þeir Hosi og Óli Hann gamansamir menn, en gátu þeir virkilega ekki valið sér betri tíma en þegar verið er að upplýsa um fund fjöldagrafa í Írak?

Taugatitringur vestanhafs

Maður sér í fréttum fyrir vestan að einhverjar sjónvarpsstöðvar hafi í hyggju að sýna heimildarmyndina Stolen Honor viku fyrir forsetakosningarnar 2. nóvember, en í henni lýsa gamlir vopnabræður John Kerrys því hvernig hann hafi orðið stríðshetja á vafasaman hátt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið og nánast gerst sekur um föðurlandssvik með því að funda með Viet Cong á sama tíma og Bandaríkin áttu í stríði við þá, en þá var Kerry enn í Bandaríkjaher. Þetta eru mikið sömu mennirnir og komu fram í Swiftboat Vets auglýsingunum, sem styggðu kosningastjórn Kerrys hvað mest á dögunum. Demókratar eru svo taugaveiklaðir vegna þessara áformuðu sýninga, að þeir eru að reyna að koma í veg fyrir þær með kæru til bandaríska kosningaeftirlitsins FEC. Sumar helstu málpípur þeirra eru alveg brjálaðar út af þessu og finnst þetta jaðra við kosningasvindl. Það, sem mér finnst samt skrýtnast, er að þetta er meira og minna sama liðið og var ánægðast með framlag loddarans Michaels Moore til kosningabaráttunnar.

ÍslEnska í Mogga

Fannst skrýtið að sjá skýringarlausa auglýsingu á ensku í Morgunblaðinu í morgun. Á blaðsíðu 19 má finna fullkomlega óskiljanlega auglýsingu á lögmannaensku, en eftir því sem ég kemst næst fjallar hún um framsal á tryggingasamningum eða eitthvað ámóta. Fram að þessu hafa auglýsingar í Mogganum ávallt verið á íslensku, þó vitaskuld hafi þar stundum birst auglýsingar á tveimur eða þremur tungum, en íslenskan hefur ávallt verið þar á meðal. Sjálfur gerði ég eitt sin auglýsingu þar sem fyrirsögnin var á kínversku!

Sumum finnst þetta kannski tittlingaskítur hjá mér, þetta gildi einu. En hvað fyndist mönnum ef Vífilfell auglýsti bara „Enjoy Coca-Cola“? Ég hugsa að margan hnykkti við.

Svo fannst mér ekki bæta úr skák að sjá í myndatexta á baksíðu að kúabóndinn söngelski, Árni Brynjólfsson, hefði komið sér upp „róbóta“. Ég hélt að Nýjasta tækni og vísindi hefði algerlega fest orðið „þjarkur“ í málinu yfir þessi þing.

10.10.04

Pólitísk slagsíða í Fréttablaðinu?

Við hjónin brugðum okkur á Ölstofuna í gær og gengum þar í flasið á mikill fjölmiðlahersingu, sem þangað kom úr þritugsafmæli Svanhildar Hólm Valsdóttur. Þar á meðal voru nokkrir blaðamenn DV og við Kristján Guy Burgess fréttastjóri tókum tal saman. Ég var eitthvað að hnýta í það, sem mér finnst miður fara hjá DV, en Kristján varðist fimlega og færði ágæt rök fyrir stefnu blaðsins þó ég hafi nú ekki fallist á þau öll. En þetta er nú líka mikið spurning um smekk.

En síðan sneri hann umræðuefninu að öðru og spurði hvernig lægi í gagnrýni minni á Baugsmiðlana, hvort ég teldi í alvöru að Jón Ásgeir Jóhannesson væri að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum til þess að beita þeim pólitískt og þar fram eftir götum. Ég ítrekaði það, sem ég hef sagt hvað eftir annað í ræðu og riti, að ég teldi ekkert — alls ekkert — að því að fjölmiðlar væru pólitískir og væri raunar þeirrar skoðunar að miðlar ættu að vera pólitískir. Og ef menn væru að gerast fjölmiðlafurstar af hégóma væri voða lítið út á það að setja. Hitt fyndist mér miklu alvarlegra að miðlum sé beitt fyrir viðskiptavagn eigandans eða persónulega málsvörn þeirra. Tala nú ekki um þegar þræðirnir eru faldir eins og var framan af hjá Fréttablaðinu og enn þann dag í dag nefnir blaðið það ekki einu orði þegar fjallað er um fyrirtæki í eignavenslum við það sjálft.

Þessi viðræða okkar Kristjáns var í mesta bróðerni, en ég fór að velta því fyrir mér í framhaldinu hvort það væri e.t.v. einhver pólitísk slagsíða á Fréttablaðinu umfram það, sem eðlilegt má teljast. Sjálfsagt er auðvelt að finna dæmi þess að svona sé tekið á stjórninni og hinsegin á stjórnarandstöðunni í Fréttablaðinu. Og kannski skilin milli skoðana og frétta (eða fréttamats) séu ekki alltaf nógu skörp þar á bænum. En gerir það svo mikið til? Þegar skoðanir eru annars vegar held ég ekki. Ég og aðrir lesendur hljótum að geta séð í gegnum það. En það er verra þegar raunveruleikinn er endurspeglaður einhvernveginn allt öðru vísi en hann er og lesendum svo eftirlátið að draga ályktanir, sem eru einmitt að höfði blaðsins. Þegar fjölmiðlalögin voru til umfjöllunar — jafnmikilvægt mál og þau voru — var slátturinn á Fréttablaðinu t.d. þannig að lesendur þess áttu erfitt með að draga aðra ályktun en að annað væri varla í fréttum og nánast heimsslit í nánd.

En síðan þegar ég opna Fréttablaðið í morgun sé ég frétt, sem mér finnst gefa til kynna hvernig pólitískar skoðanir lita fréttamat og eiga hugsanlega að „hjálpa“ lesendum við að hanna heimsmyndina að hætti blaðsins. Það voru nefnilega kosningar í Ástralíu þar sem helsta kosningamálið var stríðið í Írak. Skemmst er frá að segja að John Howard vann stórsigur í þessu tíunda stærsta lýðræðisríki hins vestræna heims. Fréttablaðinu þótti það lítil frétt, eindálkur á síðu tvö. Það er kannski ekki mikið út á það að setja, svona út af fyrir sig, en þegar það er skoðað í samhengi er raunin önnur.

Muna menn hvernig kosningaúrslitum á Spáni voru gerð skil í Fréttablaðinu í vor? Það var bara aðalfréttin þann dag. Miklu stærri frétt en sigur Pútíns í forsetakosningum í Rússlandi sama dag. En í gær voru úrslitin í Ástralíu jafnspennandi og að sjö Danir hafi villst á gönguferð í þoku í Bláfjöllum. Nánast ekki-frétt. Þannig að kannski er ástæða til þess að skoða fréttaflutning Fréttablaðsins betur með tilliti til pólitíkur.

9.10.04

Nýtt og betra dót

Ég er farinn að finna fyrir því að tölvan mín er komin til ára sinna. Ég er með 500MHz G4 vél og hún er að verða fimm ára gömul. Á sínum tíma var þetta fínasta vélin frá Apple og hún dugar svo sem enn í flesta venjulega vinnslu. En ég finn hvernig hún er að sligast í sumum verkefnum og er farinn að haga vinnunni eftir því hvað ég nenni að leggja á greyið. Þannig á það auðvitað ekki að vera, verkfærin eiga að vera sniðin að verkunum en ekki öfugt.

Þannig að ég er farinn að horfa í kringum mig eftir nýrri vél (og farinn að hugsa um hvernig ég get notað þá gömlu til annarra þarfa). Þetta er erfitt val.

Helst af öllu vildi ég vökvakælda G5 PowerBook frá Apple, en gallinn er sá að hún er því miður ekki ennþá til. Og ég veit ekki hvort ég hef tíma til þess að bíða þangað til næsta sumars þegar von er á slíkri græju. Hún myndi henta mér fullkomlega, ég væri þá með færanlega tölvu sem ég gæti notað jöfnum höndum í vinnunni, heima eða hvar annars staðar sem mér hentaði. Það er líka hluti vandans, að mig vantar vél heima, en ef mér tekst ekki að finna lausn á því innan tíðar á konan eftir að setja upp Wintel-kassa, sem hún á einhversstaðar í fórum sínum.

Hugsanlega leysi ég vandann í bili með því að koma mér upp nýja iMakkanum heima. Þetta er sjálfsagt snotrasta tölva heims, en kramið er ekkert til þess að skammast sín fyrir. Það er sæmilega sprækur G5 örgjörvi í henni og annað það helsta, sem nútímatölvu má prýða. Aðalkosturinn er þó hversu lítið fer fyrir henni, hún er lítið meira en skjárinn. Það er hægt að hafa hana á borði, en svo má líka hengja hana upp á vegg. Þá er tilvalið að hafa blátannar-lyklaborð og mús við hana og þá er rafmagnssnúran eina snúran í spilinu (netið fer vitaskuld um Airport), Ef ég ætti pening myndi ég sjálfsagt kaupa 2-3 slíkar, eina í eldhúsið, aðra í svefnherbergið og eina inn til stelpnanna. En því ríkidæmi er nú ekki að heilsa að sinni, allir aurar fara í dyrakarma, málningu og þess háttar.

Það breytir ekki því að mig er sárlega farið að skorta nýrri og betri vél í vinnuna. Þá kemur ekkert til greina nema tveggja örgjörva G5 á harðaspretti. Hún þarf líka að vera með alvöru skjákorti. Ég á raunar mjög fínan skjá, sem mun endast vel enn um sinn, en stundum sakna ég þess að hafa ekki tvo skjái eins og ég vandist við á Mogganum í den. Kannski maður bæti úr því. En það er fleira, sem þarf að huga að. Diskapláss er eitt, manni dugir lítið minna en 200Gb diskur, en svo eru öryggisafritin annar handleggur. Ég hef trassað þau alltof mikið og tek ekki regluleg afrit nema af hinu allra nauðsynlegasta. Ef vel ætti að vera þyrfti maður að spegla diskinn og taka mánaðarleg heildarafrit auk daglegra viðaukaafrita. Sjáum til.

Þarf maður meira dót? Tja, fartölvuvöntun mín er enn óleyst. Ég get ekki heldur neitað því að mig langar ægilega mikið í iPod. Eins þarf ég að fara að huga að nýjum síma og sá þarf að geta talað við tölvuna mína. Þar koma SonyEricsson símarnir sterkir inn. P910i er góður sími þó hann sé eilítið klunnalegur. Bróðir minn á einn slíkan og ég hef prófað hann og líkaði vel við flest. Notandaskilin eru þó fullmikið í stíl við ytra útlit.

Rónar í Reykjavík

Ég var að ganga eftir Austurstræti nú á laugardagseftirmiðdegi og eins og vanalega var varla sála á ferli í bænum. Sýndist samt vera sæmilegt að gera á kaffihúsunum. En síðan gekk ég framhjá Kaffi Austurstræti og þar fyrir utan var þröng af ógæfufólki að rífast heiftúðlega um einhverja óskiljanlega hluti, sem engir nema rónar rífast um. Aldursbilið var breitt, en kynslóðabilið algerlega brúað af áfengissýki og slæmum tönnum.

Svona er þetta oftar en ekki í kringum þessa búllu. Á fallegum sumardögum var ástandið Vallarstrætismegin og út á Austurvöll alveg óþolandi þar sem þessir þrælar Bakkusar veltust um í áflogum og rugli. Hvernig var það, var það ekki ein helsta uppgefna ástæðan fyrir því að Reykjavíkurborg lagði nektarbúllurnar í einelti um árið, að þær sköðuðu ímynd miðbæjarins? Ég fæ ekki séð að ástandið — nú eða ímyndin — hafi neitt skánað. Síður en svo. En hin sorglega staðreynd er sú að borgaryfirvöld hafa afar takmarkaðan áhuga á miðbænum og virðast raunar gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að gera miðbæinn að auðn. Ég ætti kannski að stinga því að Björgólfi að kaupa Austurstræti 6 og gera eitthvað skemmtilegt úr því.

8.10.04

Gramsað í iTunes búðinni

Var að heyra gamla 10cc slagarann Good Morning Judge í útvarpinu. Mér fannst 10cc alltaf fremur léttvægt band, tyggjórokkarar eða eitthvað svoleiðis. En lagið minnti mig á eitthvað... og svo mundi ég: Þetta er sama riffið og Rainbow, hljómsveit Ritchie Blackmores (Deep Purple), gerði svo afskaplega góð skil 2-3 árum áður í laginu Light in the Black. iTunes búðin hjá Apple er alger snilld. Hvenær fáum við að versla í henni?

Um blogg og vef

Ég veit að sumir stórbloggarar hafa kvartað undan því að Blogger sé ekki nógu stöðug græja og kikni stundum undan álagi. Ég hef ekki orðið var við það og kannski hefur ástandið lagast eftir að Google tók Blogger undir sinn náðarfaðm. En ég hef líka aðeins kíkt á græjur eins og Movable Type og það má vera að ég fari þá leið ef bloggurinn verður umfangsmikill.

Ég hef nefnilega tekið eftir því að mér hættir til að vera nokkuð langorður, svona miðað við blogga almennt. Og hvað á ég að gera ef ég vil beinlínis skrifa greinar? Þá er bloggformið þanið til hins ýtrasta. Mér líst raunar ágætlega á tæki eins og Plone og sjálfsagt þarf ég að koma mér upp almennilegum vef með því eða ámóta tækni. Ég á mikið af gömlum skrifum, sem mér finnst rétt að láta liggja á netinu, en síðan er urmull af öðru dóti sem eftir mann liggur: letur, skopmyndir og annað. En ef ég fer út í slíkt þá þarf ég eiginlega að koma mér upp sérvél í það. Sjáum til...

P.S. Ég hefði átt að skrifa meira um vandræðaleysi Blogger. Uppfærslan á þessum pósti hékk í hálftíma. 8(

Aðeins að fínstilla fókusinn...

Jamm, ljósmyndatækninni fleygir fram sem aldrei fyrr. Það virðast allir vera með stafrænar myndavélar (nema ég), litvinnsla er orðin á allra færi og okkur berast nákvæmar gervihnattamyndir af bakgörðum okkar og sólkerfum í marga milljóna ljósára fjarlægð. Svo maður á kannski ekki að vera hissa.

En mér finnst þetta samt svo falleg mynd að ég birti hana samt. Þetta er sumsé mynd af frumeindum. Kísilfrumeindapörum (Si) nánar tiltekið og upplausnin er 0,6Å. Ekki slæmt. Hún var tekin af vísindamönnum í Oak Ridge Tennessee. Rétt er að taka fram að kísilfrumeindir eru ekki rauðar. Rafeindasmásjármyndin er svarthvít, en boffinarnir í Oak Ridge bættu rauðu slikjunni við til skrauts.

Það hafa áður verið teknar myndir af frumeindum en aldrei jafnskarpar og þessi. Þær verða tæpast miklu skarpari, enda frumeindir ekki beint afmarkaðir hlutir. Nifteindirnar og róteindirnar kunna að vera það í teoríunni en rafeindirnar mynda óljósan skýjahjúp umhverfis þær. Sjálfar eindirnar eru síðan agnarsmáar miðað við frumeindina alla, þannig að þó kjarninn (99.99% af massa frumeindarinnar) væri á stærð við meðalbaun á Lækjartorgi væru rafeindirnar á sveimi yfir Tjörninni og höfninni. Þær eru svo smáar að þær hafa nánast engan massa, aðeins hleðslu.

Google leitar í bókum

Ég er ekki frá því að Google sé besta græjan, sem vefurinn hefur fært okkur. Það segir sína sögu að hin nýja enska sögn hefur verið tekin upp í íslensku líka: menn gúggla hitt og þetta. Og ef eitthvað finnst ekki með Google er það tæpast þess virði að vita.

Forsvarsmenn Google kynntu það á bókamessunni í Frankfurt að innan skamms verði líka hægt að leita í bókum á vefnum og mun þjónustan heita Google Print. Þeir hyggjast skima inn hundruð þúsunda bóka í samstarfi við bókaútgefendur, tölvutaka textann og gefa almenningi kost á að leita í bókunum. Svo verður unnt að sjá viðkomandi síðu og eitthvað fyrir framan og aftan. Til hægðarauka verða svo slóðir til netbókabúða eins og Amazon þannig að menn geti fest kaup á þeim. Google ætlar ekki að gerast bóksali. Það, sem kynni þó að setja strik í reikninginn, er að einnig er mögulegt að smella á útgefandann og kaupa beint af honum. Sjáum til hvaða áhrif það hefur. Nú er það svo að það hefur um nokkurt skeið verið unnt að leita í innihaldi bóka á Amazon, en úrvalið hefur verið fremur takmarkað til þessa. Google á eftir breyta því. Fyrir fróðleiksfúsa netverja verður það alger himnasending.

Leyniformúlan

Ég þykist vera nokkuð lunkinn í eldhúsinu og sé raunar að mestu um eldamennskuna á heimilinu. Þessa leikni þakka ég móður minni Áslaugu Ragnars, sem meðal annars hefur sér til frægðar unnið að skrifa hina góðkunnu matreiðslubók Maturinn hennar mömmu (í eintakið mitt skrifaði hún að bókin hefði verið skrifuð fyrir mig!), og síðan hinum góðkunna athafnamanni og menningarvita Ásgeiri Þór Davíðssyni, en hann ól mig upp í messum Landhelgisgæslunnar á unglingsárum og kenndi mér öll helstu trixin.

En ég ætlaði nú ekki að mæra mig eða leiðbeinendur mína í matargerðarlist, heldur fremur að benda fólki á alveg dýrðlega sósu, sem mér finnst ómissandi í hvert eldhús. Þetta er ostrusósan frá Blue Dragon. Hana má svo sem nota eintóma út á hrísgrjón líkt og sojasósu, en mér finnst hún miklu heilladrýgri í almenna sósugerð. Þó ostrusósan sé kantónsk að uppruna er algerlega ástæðulaust að nota hana aðeins í austurlenska matargerð. Ég nota slettu af henni í venjulega brúnsósu, pottrétti og hvaðeina. Það þarf ekki mikið af henni til þess að gefa þetta aukalega „je ne sais quoi", sem hæglega skilur milli feigs og ófeigs í eldamennskunni. Og hún er ekki mjög bragðsterk heldur, þannig að það þarf ekki að óttast að hún yfirgnævi uppistöðuna.

Ísland utan Evrópu í Spectator

Í nýjasta tölublaði The Spectator, sem að mínu viti er best skrifaða tímarit í heimi, er að finna grein eftir Evrópuþingmanninn Daniel Hannan, sem var í heimsókn hér á landi fyrir nokkrum vikum og Egill Helgason ræddi m.a. við í þætti sínum, Silfri Egils.

Greinin ber fyrirsögnina Blue-eyed sheiks eða „Bláeygir sheikar“ svo maður þýði þetta lauslega. Hann fjallar um ríkidæmi Íslendinga og stærð í alþjóðasamfélaginu, sem sé úr öllu samhengi við fjölda landsmanna og náttúruauðævi. Hann rekur íslenska efnahagsundrið til þrennra hluta: inngöngu landsins í Evrópska efnahagssvæðið, frjálslyndrar efnahagsstefnu í kjölfarið og staðfestu Íslands utan Evrópusambandsins. Hann lýkur grein sinni svo:
Iceland’s most famous novelist, Halldór Laxness, won the Nobel Prize with a book called Independent People. That phrase — Sjalfstætt Folk — has a resonance on the island that is difficult for foreigners to grasp. Icelanders believe that self-government is the natural condition for a sturdy, free-standing citizenry. They understand that there is a connection between living in an independent state and living independently from the state. They have no more desire to submit to international than to national regulation. That attitude has made them the happiest, freest and wealthiest people on earth. Long may they remain so.

7.10.04

Gereyðingarvopnin

Enn og aftur gera menn mikið úr því að búið sé að „sanna“ að Saddam Hussein hafi engin gereyðingarvopn átt og innrásin í Írak því á sandi byggð. Látum vera að meint gereyðingarvopn voru aldrei nema ein ástæða af mörgum fyrir inngripunum. Og látum líka vera að enginn, alls enginn, getur litið fram hjá því að Saddam réði yfir skelfilegum vopnum af því taginu og beitti þeim gegn Írönum, Kúrdum og eigin borgurum. Hvað af þeim varð er svo önnur saga, en margnefndur Saddam vildi af einhverjum ástæðum ekki leyfa neinum að fylgjast með því hvað af þeim yrði, sem aftur varð eitt af kornunum, er fylltu mælinn.

Þegar David Kay lét af störfum vortu tekin viðtöl við hann þar sem hann efaðist um að gereyðingarvopn myndu nokkru sinni finnast í Írak. Mál hans var einstaklega afflutt af andstæðingum innrásarinnar og vinum Saddams. Allir litu t.d. fram hjá því að hann taldi sérstakt áhyggjuefni að einhver vopn hefðu komist úr landi og nefndi Sýrland sérstaklega til sögunnar. Hann ítrekaði að ástæðurnar til hernaðar gegn Saddam hafi verið nægar þó sjaldan væri til þess vitnað og sagði svo:
„I must say, I actually think what we learned during the inspections made Iraq a more dangerous place potentially than in fact we thought it was even before the war.“
Allt verður þetta svo enn athyglisverðara þessa dagana, þegar meira og meira kemur í ljós um spillinguna hjá Sameinuðu þjóðunum, hvernig Saddam notfærði sér hið blinda auga SÞ, hvernig Írakar reiddu sig á Frakka, mútuðu mönnum hægri vinstri og þar fram eftir götum.

Aðalatriðið í þessu samhengi er hins vegar það að Saddam Hussein hafði átt gereyðingarvopn, sem hann hikaði ekki við að beita og hann miðaði leynt og ljóst að því að koma sér upp nýjum gereyðingarvopnum við fyrstu hentugleika. Efist menn um það geta þeir lesið sig til dauðs á Duelfer-skýrslunni eða rennt augum yfir grein Mahdi Obeidi í NYT, en hann er fyrrverandi kjarnorkuáætlunarstjóri Saddams. Hann segir m.a.:
„Threat is always a matter of perception, but our nuclear program could have been reinstituted at the snap of Saddam Hussein’s fingers. The sanctions and the lucrative oil-for-food program had served as powerful deterrents, but world events - like Iran’s current efforts to step up its nuclear ambitions - might well have changed the situation.

Iraqi scientists had the knowledge and the designs needed to jumpstart the program if necessary. And there is no question that we could have done so very quickly. In the late 1980’s, we put together the most efficient covert nuclear program the world has ever seen. In about three years, we gained the ability to enrich uranium and nearly become a nuclear threat; we built an effective centrifuge from scratch, even though we started with no knowledge of centrifuge technology. Had Saddam Hussein ordered it and the world looked the other way, we might have shaved months if not years off our previous efforts.“
En voru gereyðingarvopnadraumar Saddams næg ástæða til þess að leggja í herför gegn honum? Ég tel svo vera, en skil þá sem eru á öðru máli og sú deila verður seint til lykta leidd. En meginástæðan fyrir herförinni var sú, að Saddam virti ekki vopnahlésskilmála þá sem hann undirgekkst eftir að hernámsliði hans var stökkt frá Kúveit. Þar að baki bjuggu margvísleg rök önnur, en á endanum snerist um hættuna af Saddam og hvort öðum bæri að gera eitthvað í henni.

Það sem eftir stendur — og er miklu athyglisverðara umræðuefni — er það hversu ótrúlega Saddam varð ágengt við að spilla alþjóðasamfélaginu, hvernig hin og þessi ríki létu eins og leppar hans og hvernig ótrúlegasta fólk er enn upptekið við að láta eins og heimurinn væri betri heimur er Saddam og böðlar hans hefðu bara verið látnir í friði.

Egill kominn á skrið

Egill Helgason, sem stýrt hefur Silfri Egils af myndugleik undanfarin ár, er farinn að láta til sín taka á vefnum á nýjan leik. Það er vel, því þó Egill sé ágætur þáttastjórnandi er hann ekki síðri penni. Ég held líka að vefurinn henti honum einkar vel, því þar er formið knappt og tilefnin geta verið smá og stór. Stundum aðeins örmyndir úr hversdagslífinu, sem ekki kalla á neina frekari umræðu eða þrætubók. Egill er fjarskafínn í því.

Sumir vinir mínir finna að því að Egill gæti ekki hlutleysis sem skyldi. Hann sé rammpólitískur, haldi eigin sérviskum að áhorfendum, velji gesti eftir pólitískum hentugleikum og þar fram eftir götum. Mér finnst þessi gagnrýni ekki eiga við. Það má vel vera að eitthvað sé til í þessum aðfinnslum, en hvað með það? Er það ekki einmitt það, sem gerir Silfrið sérstakt, að stjórnandinn hikar ekki við að taka afstöðu ef því er að skipta? (Stundum grunar mig raunar að Egill látist hafa hinar og þessar skoðanir til þess að kreista fram andmæli hjá viðmælendunum.) En þó þetta væri allt satt og meira til — segjum að Egill gengi erinda einhverra pólitískra afla eða eigenda Norðurljósa — þá hvað? Ég treysti mér og öðrum til þess að taka öllum skoðunum með eðlilegum fyrirvara. Alveg eins og fólk veit að ástæðulaust er að trúa öllum auglýsingum eins og nýju neti.

Á sama tíma og ýtrustu kröfur verður að gera til fréttaflutnings er það einmitt punkturinn við umræðuþætti eins og Silfrið, að þar hafi menn svigrúm til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, vel eða illa ígrunduðum. Það er svo áhorfenda að leggja mat á þær. Og ef það gætir slagsíðu, nú þá skynja menn hana og taka þáttinn með þeim fyrirvara. Eða við hverju búast menn í pólitískum þætti?

6.10.04

Klanið og demókratar

Það mætti halda að kosningabaráttan vestra sé að harðna til muna. Það berast fregnir af skotárás á kosningamiðstöð repúblikana í Tennessee, aðra í Vestur-Virginíu, það er ráðist inn á enn aðra í Flórídu, hvaðanæva berast fregnir af skemmdarverkum á bílum með límmiða til stuðnings Bush og í Wisconsin var logandi hakakross settur niður í garðinum hjá manni, sem dirfðist að opinbera stuðning sinn við Bush. Það, sem þó hefur sjálfsagt stuðað flesta er þegar rummungar í stuðningsliði Kerrys tóku spjald af þriggja ára gamalli telpu og rifu í tætlur vegna þess að á því stóðu nöfn Bush og Cheneys. Barnið brast vitaskuld í grát.

Það eru vondir menn, sem leggja til atlögu við börn með þessum hætti. En það er sérstaklega einkennilegt í ljósi þess að þessir aktívistar telja sjálfa sig einatt þess umkomna að eigna sér einum friðarvilja, fóstra skoðanafrelsið, menningarlega fjölbreytni og það allt. Og það er þetta sama lið, sem líkir Bush við Hitler. Eins og það sé ekki nógu ósmekklegt út af fyrir sig (þó ekki væri nema fyrir fórnarlömb heimstyrjaldarinnar síðari og Helfararinnar), en þessi vinnubrögð minna einmitt á aðfarir brúnstakka Hitlers á sínum tíma. En þeir hafa lært eitt og annað af skoðanabræðrum sínum í Ku Klux Klan. Ætli það styttist ekki í hengingar?

Rodney Dangerfield allur

Var að frétta að Rodney Dangerfield hefði verið að halda á vit feðra sinna í kjölfar hjartaaðgerðar. Hann grínaðist með það þear hann var lagður inn á þann hátt að „If things go right, I'll be there about a week and if things don't go right, I'll be there about an hour and a half.“ Það fór nú ekki þannig, hann féll í dá og lést tveimur vikum síðar.

DV í sjálfsmorðshug?

Er ég einn um að klóra mér í hausnum þegar DV dettur inn um lúguna?

Ég skal taka fram að ég hef aldrei verið mjög hrifinn af DV sem miðli, ekki einu sinni meðan ég vann þar eitt sumar. En það hefur aldrei verið nándarinnar jafnlélegt og nú. Blaðið er komið út í jaðar fjölmiðlunar, uppfullt af furðufréttum og fréttleysum, misillauppdiktuðum.

Um daginn skrifaði Jakob Bjarnar (afar fyndna raunar) grein um það hvernig Tvíhöfði hefur gabbað nígerískan svikahrapp sundur og saman í beini útsendingu. Hið skrýtna er að minn góði vinur Jakob hefur sem blaðamaður DV tekið þátt í gabbinu og fjallar svo um það. Það er tæpast í samræmi við siðareglur, en gott og vel, skaðinn er hverfandi... nema fyrir DV því lesendur hljóta að spyrja sig hvort blaðið og blaðamenn þess taki sig ekki alvarlegar en þetta.

Svo sér maður fullkomna skáldfrétt um það að Björgólfur Thor Björgólfsson eigi að hafa nefnt ýmis fyrirtæki sín eftir hinum og þessum klámstjörnum. Svo eru nefnd dæmi en eins og kunnugt er leika flestar slíkar leikkonur í skjóli sviðsnafna. Og allar þær sem DV telur upp heita nöfnum úr steinaríkinu á borð við Topaz, Amber og Carrera ef ég man þetta rétt. Hvort skyldi nú vera líklegra, að Bjöggi þræði klámstjörnuregistrið í leit að fyrirtækjanöfnum eða náttúrufræðina? Og þrátt fyrir að þessari skýringu blaðsins sé hafnað með furðusvip af þeim, sem gerst ættu til að þekkja, er „fréttin“ samt burðargrein á innsíðu. Það er kannski ekkert að svona fáfengilegum og innistæðulausum vangaveltum, en tæpast eru þær til þess fallnar að auka trúverðugleika blaðsins. Má DV við því?

Steininn tók þó úr þegar á forsíðu er vísað til einkar ógeðfelldrar umgengni ógæfumanns á Suðurlandi við ferfætlinga, sem svo er tíunduð með flennimynd, lýsinga og viðtals inni í blaði. Ég fæ ekki af mér að lýsa þessu nánar hér, en þegar þessi sóðaskapur vall inn um lúguna hjá okkur hjónunum vildi maður helst ekki snerta á blaðinu og þakkaði fyrir að heimasætan er ekki læs ennþá. Þegar gesti bar að garði földum við blaðið. Það fór svo út í tunnu við fyrstu hentugleika.

Ritstjórar DV halda kannski að þeir séu að upplýsa lesendur sína um skuggahliðar mannlífsins eða eitthvað ámóta, en blaðið var í raun að sökkva niður á sama plan og umfjöllunarefnið. Allt sem vel kann að vera gert í DV fellur í skuggann af ógeðinu.

En það skrýtna er að ég er ekki áskrifandi að DV heldur er því dreift til okkar í óumbeðinni kynningaráskrift og sama dag og þessi ófögnuður var í blaðinu fylgdi seðill þar sem boðað var að áskriftardeildin myndi hringja í okkur innan skamms. Hvað ætli áskriftardeildin fái mikið af jákvæðum viðtökum þegar forsíðan er útbíuð á þennan hátt?

Þetta er ekki bara ógeðfellt heldur einkar heimskulegt líka. Nema það skipti eigendurna alls engu máli hvort blaðið seljist eða ekki.

Skástu hliðar DV eru upphitaðar hugmyndir, sem Gunnar Smári notaði með góðum árangri í Pressunni, Eintaki, Morgunpóstinum og Fókus hér áður fyrr. En væri ekki ráð að læra af mistökum Smára líka? Þegar við hófum útgáfu á vikublaðinu Eintaki vorum við næstum því búnir að drepa blaðið í öðru tölublaði með forsíðuumfjöllun um götun mannslíkams á sérkennilegustu stöðum. Forsíðan var engan veginn pornógrafísk en fólk gat samt ekki hugsað sér að hafa hana uppi við, hvað þá þar sem börn gætu gengið fram á hana. Við lærðum okkar lexíu þá, en Smári virðist hafa gleymt að segja Illuga og Mikka frá því.

Mér finnst DV ekki hafa slípast til frá því að núverandi eigendur sölsuðu það undir sig. Þvert á móti finnst mér það hafa versnað, bæði að efni og uppbyggingu. Og það fer hríðversnandi þessa dagana. Manni skilst að salan sé léleg og það er eins og það sé komin einhver örvænting í efnistökin. Þegar svona subbuskapur kórónar hauginn er erfitt að verjast þeirri hugsun að blaðið sé að fremja hægt og kvalafullt sjálfsmorð.

Ójafn leikur

Sit hér og fylgist með kappræðum varaforsetaefnanna bandarísku, Dick Cheney og John Edwards. Það er skemmst frá að segja að þetta er ójafn leikur. Fyrir nú utan það að mér heyrist að Cheney vinni við það í frístundum að lesa inn á bíómynda-„trailera“ er hann að salla Edwards niður sem óvanan og illa upplýstan hillbilly. Cheney veit vafalaust sem er að hann er ekki heillandi persónuleiki og hann reynir á engan hátt að hrífa áhorfendur með sér. Hann hallar sér bara aftur og segir: „Svona er þetta, þetta viljum við gera og ykkar er valið.“ Milli þess sem hann leiðréttir mótframbjóðandann um grundvallaratriði, undirstrikar reynsluleysi Edwards og fortíð Kerrys í þinginu. Ég hugsa að flestir áhorfendur spyrji sig að því hvorum sé betur treystandi til þess að taka við stjórnvölnum og Cheney er eins og réttsýnn og lífsreyndur dómari við hliðina á fjálglegum bílasala.

Ég held að Edwards sé líka að gera mistök með því að hamra á því að eitthvað gruggugt sé við verktakafyrirtækið Halliburton (sem Cheney stýrði um hríð og kemur mjög við sögu í Írak þessa dagana). Annars vegar eru ásakanirnar of flóknar til þess að almenningur sé með þær á hreinu, en þar að auki held ég að áhorfendum finnist hann vera að vega að persónu Cheney í stað þess að halda sig við málefnin. Og hvað heldur Edwards að hann fiski mörg ný atkvæði með því?

John Kerry þótti standa sig mun betur í kappræðunum um daginn, en það virðist ekki vera að skila sér sem skyldi í könnunum. Ég sá skynsamlega skýringu á því á Málefnunum um daginn, en einn nafnleysingjanna þar benti á að bandarískt þjóðfélag væri fyrir löngu búið að skiptast í tvo hópa hvað varðaði afstöðuna til Íraks og hryðjuverkastríðsins. Karp Kerrys og George Bush um það myndi sjálfsagt skila fáum nýjum fylgismönnum eða breyta afstöðu einhverra. Þar myndi eitthvað annað ráða, t.d. innanríkismál, skattamál eða einfaldlega karakterinn. Ég held raunar að Kerry hafi orðið verulega ágengt við að bæta ytri ásýnd sína í kappræðunni, en samt virðist ríflegur meirihluti líklegra kjósenda (fleiri en hyggjast kjósa hann) betur treysta forsetanum en Kerry.

En kannski er þetta allt akademískt. Mér finnst líklegast að bandarískir kjósendur kjósi fánann þegar til kastanna kemur. Bandaríkin eiga í stríði og þá þarf mikið að ganga á ef menn fara að skipta um forseta á meðan svo stendur á. Áhersla Kerrys á stríðið vinnur gegn honum hvað það varðar.

Lagt upp á nýjan leik

Mér finnst nánast einkennilegt að fara að skrifa blogg aftur eftir öll þessi ár. Endur fyrir löngu, áður en nokkrum hafði dottið orðið blogg í hug, hélt ég nefnilega blogg á saga.is. Það eru að verða tíu ár síðan. Raunar hófust þau skrif aðeins sem athugasemdir í .plan-skrána mína, sem unnt var að skoða með því að „fingera“ mig. Seinna fór ég að halda óreglulega dagbók á vefnum og harðkóðaði hana í BBEdit, sem var brillíant forrit þá og er ekki síðra núna. Þegar ég skipti um starfsvettvang og flutti mig yfir á Netdeild Morgunblaðsins lagðist þessi siður af hjá mér.

Í þá daga skrifaði ég mest um netið og tölvur. Það var varla að ég tæpti á stjórnmálum, nema þá í samhengi við netið. En það var svo sem nóg af slíkum vangaveltum. Hvað mætti og hvað ekki, hver hefði lögsögu yfir netinu, hvað með höfundarrétt og það allt. Mörgum spurningum af því taginu hefur verið svarað, en það er álitlegur bunki eftir af óleystum álitaefnum. Kannski ég drepi á slíkt hér.

Á hinn bóginn hef ég upp á síðkastið helst haft mig í frammi á opinberum vettvangi þegar stjórnmál eru annars vegar. Mér finnst líklegt að flestar athugasemdirnar hér verði af því taginu af vettvangi dagsins. En sjáum hvað setur. Nóg er af áhugamálunum og sérviskunum.