19.10.04

Ómerkilegt merki

Ég rak augun í það fyrir skemmstu að Reykjavíkurborg tilkynnti að nýjar reglur hefðu verið settar um merki borgarinnar og meðferð þess. Mér fannst það forvitnilegt vegna þess að ég vissi ekki betur en að Gísli B. Björnsson hefði fyrir allnokkru samið slíkar leiðbeiningar, sem algerlega hefðu staðist tímas tönn, enda er hann einn ágætasti merkjasmiður þjóðarinnar með næman skilning á letri. En ég ákvað að athuga hin nýju fyrirmæli borgarinnar og sá í fyrstu engar breytingar aðrar en þær að búið var skipta um letur með merkinu úr Bodoni yfir í Akzidenz Grotesk.

Nú er Akzidenz Grotesk sæmileg steinskrift, en ekkert umfram það, hvað þá að ástæða sé til þess að leggja út í merkisbreytingu eins stærsta fyrirtækis landsins fyrir slík býti, því Bodoni er algerlega klassískt og tímalaust letur. Þar fyrir utan er þetta lélegt val því Akzidenz Grotesk er fremur klossað letur og hefur þann alvarlega ágalla að íslensku sértáknin Þ og ð eru ekki nógu vel teiknuð. Þ er alltof klunnalegt og ð beinlínis rangt. Svo er það auðvitað ekki traustvekjandi að letursérfræðingar borgarinnar virðast ekki hafa á hreinu hvernig nýja letrið er stafsett og samþykkt borgarráðs um þessar breytingar inniheldur ranga stafsetningu á því.

Einn starfsmaður Ráðhússins sagði mér að menn hefðu viljað nútímalegra letur, eitthvað sem ætti að endurspegla nútímalega stjórnarhætti betur og allt það. Jájá, en þeir hefðu þá e.t.v. átt að nota nútímasteinskrift á borð við Myriad. Akzidenz Grotesk var kynnt til sögunnar árið 1896. Hið fyndna er svo að „gamla“ Bodoni letrið er talsvert yngra, því það var gert árið 1926 þó svo það byggðist á eldra letri eftir Giambattista Bodoni frá 1767.

Síðan rekur maður augun í það að búið er að teikna nýja útfærslu af sjálfu skjaldarmerkinu, sem nota má jafnt hinu gamla, og hún er einmitt notuð á forsíðu leiðbeininga borgarinnar um merkið. Þessi útfærsla gerir skjaldarmerkið að engu, því sjálfur skjöldurinn er látinn fjúka út í veður og vind, en öndvegissúlurnar og öldurnar látnar mara innan fernings. Ætli erfingjar Halldórs Péturssonar, sem teiknaði gamla merkið árið 1957, hafi verið hafðir með í ráðum? Ég dreg í efa að Pétur Halldórsson, sonur hans (og ekki síðri teiknari), hafi tekið svona lagað í mál ef undir hann væri borið.

Mér finnst þetta skemmdarverk á skjaldarmerki okkar Reykvíkinga og sæmdarréttur höfundarins hafður að engu. En það er eins og borgaryfirvöldum sé slétt sama um söguna. Halldórs er ekki einu sinni getið í þessum bæklingnum um hið „nýja og endurbætta“ merki. Við þetta má svo bæta að Halldóri var málið skylt, því faðir hans hafði verið borgarstjóri. Sjálfur var hann mikill Reykvíkingur, fæddur og uppalinn við Túngötuna (á horni Unnarstígs) og enginn hefur fest Reykjavík og Reykvíkinga betur á blað en einmitt hann. Jú, Tómas Guðmundsson auðvitað, en þá er það líka upptalið.

En jafnvel þó svo þetta hefði allt verið vel gert: betra letur valið og gamla merkið látið óspjallað, þá spyr maður sig samt sem áður til hvers í ósköpunum var verið að þessu. Borgarstjóri R-listans, Þórólfur Árnason, velkist ekki í vafa í inngangi margnefnds bæklings:
...ýmislegt nýtt er þar einnig að finna. Má þar nefna nýtt letur sem þykir virðulegt en um leið glæsilegt auk þess sem það endurspeglar nútímaleg vinnubrögð borgarinnar.
Þetta finnast mér afar fáfengileg rök og maður spyr enn: Hver var þörfin? Og hafa borgaryfirvöld ekki einhverju þarfara að sinna?

Nú hefur hönnunarvinnan, gerð fyrirmæla um meðferð merkisins, útgáfa bæklingsins og annað slíkt vafalaust kostað skildinginn sinn, en vinnan var í höndum auglýsingastofunnar Hér og nú. En síðan á eftir að bætast við gríðarlegur kostnaður við hönnun og prentun alls kyns prentgripa, eyðublaða, nafnspjalda, bréfsefnis, kynningarefnis, merkinga innanhúss og utan, skiltagerð og þar fram eftir götum. Til hvers? Svona bruðl í þarfleysu, sem þar að auki er lítil, léleg og rándýr, er ekki til þess fallin að bæta ímynd borgarinnar. En kannski er vandi Reykjavíkurborgar R-listans slíkur að hið eina, sem þessum herrum dettur í hug, er að reyna að flikka upp á umbúðirnar? Það tókst jafnvel og annað hjá þessu liði.