10.10.04

Pólitísk slagsíða í Fréttablaðinu?

Við hjónin brugðum okkur á Ölstofuna í gær og gengum þar í flasið á mikill fjölmiðlahersingu, sem þangað kom úr þritugsafmæli Svanhildar Hólm Valsdóttur. Þar á meðal voru nokkrir blaðamenn DV og við Kristján Guy Burgess fréttastjóri tókum tal saman. Ég var eitthvað að hnýta í það, sem mér finnst miður fara hjá DV, en Kristján varðist fimlega og færði ágæt rök fyrir stefnu blaðsins þó ég hafi nú ekki fallist á þau öll. En þetta er nú líka mikið spurning um smekk.

En síðan sneri hann umræðuefninu að öðru og spurði hvernig lægi í gagnrýni minni á Baugsmiðlana, hvort ég teldi í alvöru að Jón Ásgeir Jóhannesson væri að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum til þess að beita þeim pólitískt og þar fram eftir götum. Ég ítrekaði það, sem ég hef sagt hvað eftir annað í ræðu og riti, að ég teldi ekkert — alls ekkert — að því að fjölmiðlar væru pólitískir og væri raunar þeirrar skoðunar að miðlar ættu að vera pólitískir. Og ef menn væru að gerast fjölmiðlafurstar af hégóma væri voða lítið út á það að setja. Hitt fyndist mér miklu alvarlegra að miðlum sé beitt fyrir viðskiptavagn eigandans eða persónulega málsvörn þeirra. Tala nú ekki um þegar þræðirnir eru faldir eins og var framan af hjá Fréttablaðinu og enn þann dag í dag nefnir blaðið það ekki einu orði þegar fjallað er um fyrirtæki í eignavenslum við það sjálft.

Þessi viðræða okkar Kristjáns var í mesta bróðerni, en ég fór að velta því fyrir mér í framhaldinu hvort það væri e.t.v. einhver pólitísk slagsíða á Fréttablaðinu umfram það, sem eðlilegt má teljast. Sjálfsagt er auðvelt að finna dæmi þess að svona sé tekið á stjórninni og hinsegin á stjórnarandstöðunni í Fréttablaðinu. Og kannski skilin milli skoðana og frétta (eða fréttamats) séu ekki alltaf nógu skörp þar á bænum. En gerir það svo mikið til? Þegar skoðanir eru annars vegar held ég ekki. Ég og aðrir lesendur hljótum að geta séð í gegnum það. En það er verra þegar raunveruleikinn er endurspeglaður einhvernveginn allt öðru vísi en hann er og lesendum svo eftirlátið að draga ályktanir, sem eru einmitt að höfði blaðsins. Þegar fjölmiðlalögin voru til umfjöllunar — jafnmikilvægt mál og þau voru — var slátturinn á Fréttablaðinu t.d. þannig að lesendur þess áttu erfitt með að draga aðra ályktun en að annað væri varla í fréttum og nánast heimsslit í nánd.

En síðan þegar ég opna Fréttablaðið í morgun sé ég frétt, sem mér finnst gefa til kynna hvernig pólitískar skoðanir lita fréttamat og eiga hugsanlega að „hjálpa“ lesendum við að hanna heimsmyndina að hætti blaðsins. Það voru nefnilega kosningar í Ástralíu þar sem helsta kosningamálið var stríðið í Írak. Skemmst er frá að segja að John Howard vann stórsigur í þessu tíunda stærsta lýðræðisríki hins vestræna heims. Fréttablaðinu þótti það lítil frétt, eindálkur á síðu tvö. Það er kannski ekki mikið út á það að setja, svona út af fyrir sig, en þegar það er skoðað í samhengi er raunin önnur.

Muna menn hvernig kosningaúrslitum á Spáni voru gerð skil í Fréttablaðinu í vor? Það var bara aðalfréttin þann dag. Miklu stærri frétt en sigur Pútíns í forsetakosningum í Rússlandi sama dag. En í gær voru úrslitin í Ástralíu jafnspennandi og að sjö Danir hafi villst á gönguferð í þoku í Bláfjöllum. Nánast ekki-frétt. Þannig að kannski er ástæða til þess að skoða fréttaflutning Fréttablaðsins betur með tilliti til pólitíkur.