8.10.04

Um blogg og vef

Ég veit að sumir stórbloggarar hafa kvartað undan því að Blogger sé ekki nógu stöðug græja og kikni stundum undan álagi. Ég hef ekki orðið var við það og kannski hefur ástandið lagast eftir að Google tók Blogger undir sinn náðarfaðm. En ég hef líka aðeins kíkt á græjur eins og Movable Type og það má vera að ég fari þá leið ef bloggurinn verður umfangsmikill.

Ég hef nefnilega tekið eftir því að mér hættir til að vera nokkuð langorður, svona miðað við blogga almennt. Og hvað á ég að gera ef ég vil beinlínis skrifa greinar? Þá er bloggformið þanið til hins ýtrasta. Mér líst raunar ágætlega á tæki eins og Plone og sjálfsagt þarf ég að koma mér upp almennilegum vef með því eða ámóta tækni. Ég á mikið af gömlum skrifum, sem mér finnst rétt að láta liggja á netinu, en síðan er urmull af öðru dóti sem eftir mann liggur: letur, skopmyndir og annað. En ef ég fer út í slíkt þá þarf ég eiginlega að koma mér upp sérvél í það. Sjáum til...

P.S. Ég hefði átt að skrifa meira um vandræðaleysi Blogger. Uppfærslan á þessum pósti hékk í hálftíma. 8(