6.10.04

Ójafn leikur

Sit hér og fylgist með kappræðum varaforsetaefnanna bandarísku, Dick Cheney og John Edwards. Það er skemmst frá að segja að þetta er ójafn leikur. Fyrir nú utan það að mér heyrist að Cheney vinni við það í frístundum að lesa inn á bíómynda-„trailera“ er hann að salla Edwards niður sem óvanan og illa upplýstan hillbilly. Cheney veit vafalaust sem er að hann er ekki heillandi persónuleiki og hann reynir á engan hátt að hrífa áhorfendur með sér. Hann hallar sér bara aftur og segir: „Svona er þetta, þetta viljum við gera og ykkar er valið.“ Milli þess sem hann leiðréttir mótframbjóðandann um grundvallaratriði, undirstrikar reynsluleysi Edwards og fortíð Kerrys í þinginu. Ég hugsa að flestir áhorfendur spyrji sig að því hvorum sé betur treystandi til þess að taka við stjórnvölnum og Cheney er eins og réttsýnn og lífsreyndur dómari við hliðina á fjálglegum bílasala.

Ég held að Edwards sé líka að gera mistök með því að hamra á því að eitthvað gruggugt sé við verktakafyrirtækið Halliburton (sem Cheney stýrði um hríð og kemur mjög við sögu í Írak þessa dagana). Annars vegar eru ásakanirnar of flóknar til þess að almenningur sé með þær á hreinu, en þar að auki held ég að áhorfendum finnist hann vera að vega að persónu Cheney í stað þess að halda sig við málefnin. Og hvað heldur Edwards að hann fiski mörg ný atkvæði með því?

John Kerry þótti standa sig mun betur í kappræðunum um daginn, en það virðist ekki vera að skila sér sem skyldi í könnunum. Ég sá skynsamlega skýringu á því á Málefnunum um daginn, en einn nafnleysingjanna þar benti á að bandarískt þjóðfélag væri fyrir löngu búið að skiptast í tvo hópa hvað varðaði afstöðuna til Íraks og hryðjuverkastríðsins. Karp Kerrys og George Bush um það myndi sjálfsagt skila fáum nýjum fylgismönnum eða breyta afstöðu einhverra. Þar myndi eitthvað annað ráða, t.d. innanríkismál, skattamál eða einfaldlega karakterinn. Ég held raunar að Kerry hafi orðið verulega ágengt við að bæta ytri ásýnd sína í kappræðunni, en samt virðist ríflegur meirihluti líklegra kjósenda (fleiri en hyggjast kjósa hann) betur treysta forsetanum en Kerry.

En kannski er þetta allt akademískt. Mér finnst líklegast að bandarískir kjósendur kjósi fánann þegar til kastanna kemur. Bandaríkin eiga í stríði og þá þarf mikið að ganga á ef menn fara að skipta um forseta á meðan svo stendur á. Áhersla Kerrys á stríðið vinnur gegn honum hvað það varðar.