6.10.04

Lagt upp á nýjan leik

Mér finnst nánast einkennilegt að fara að skrifa blogg aftur eftir öll þessi ár. Endur fyrir löngu, áður en nokkrum hafði dottið orðið blogg í hug, hélt ég nefnilega blogg á saga.is. Það eru að verða tíu ár síðan. Raunar hófust þau skrif aðeins sem athugasemdir í .plan-skrána mína, sem unnt var að skoða með því að „fingera“ mig. Seinna fór ég að halda óreglulega dagbók á vefnum og harðkóðaði hana í BBEdit, sem var brillíant forrit þá og er ekki síðra núna. Þegar ég skipti um starfsvettvang og flutti mig yfir á Netdeild Morgunblaðsins lagðist þessi siður af hjá mér.

Í þá daga skrifaði ég mest um netið og tölvur. Það var varla að ég tæpti á stjórnmálum, nema þá í samhengi við netið. En það var svo sem nóg af slíkum vangaveltum. Hvað mætti og hvað ekki, hver hefði lögsögu yfir netinu, hvað með höfundarrétt og það allt. Mörgum spurningum af því taginu hefur verið svarað, en það er álitlegur bunki eftir af óleystum álitaefnum. Kannski ég drepi á slíkt hér.

Á hinn bóginn hef ég upp á síðkastið helst haft mig í frammi á opinberum vettvangi þegar stjórnmál eru annars vegar. Mér finnst líklegt að flestar athugasemdirnar hér verði af því taginu af vettvangi dagsins. En sjáum hvað setur. Nóg er af áhugamálunum og sérviskunum.