20.7.01

Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa

Það er best að segja hverja sögu eins og hún er...

Það er ekki liðin nema vika frá því að DV kom með frétt þess efnis að Árni Johnsen, 1. þingmaður Sunnlendinga, hefði sótt timbur merkt Þjóðleikhúsinu í BYKO, krotað yfir nafn leikhússins, merkt sjálfum sér það og látið senda heim til sín. Þetta leit svo sem ekki út fyrir að vera merkileg frétt, Árni kom með sennilegar skýringar á atburðinum og maður var tilbúinn til þess að afskrifa málið sem enn eina furðufréttina af Árna Johnsen.

En málið vatt fljótlega upp á sig, í ljós komu fleiri mál af sama toga og mun alvarlegri ef sönn reyndust. Upphæðirnar sem um tefldi voru kannski ekki ýkja háar, en frá fyrstu stundu gerðu allir – alveg allir, nema kannski Árni – sér grein fyrir að upphæðirnar skiptu engu máli. Málið snerist um mannorð Árna Johnsen og hvort hann hefði verið yfir litlu trúr sem miklu.

Það er skemmst frá að segja að Árni féll í sömu gryfju og Richard M. Nixon forðum daga: hann reyndi að forða sér með lygum og yfirhylmingu og það voru þau óhreinindi, sem urðu honum að falli fremur en hin upphaflegu brot. Og auðvitað endaði málið með afsögn bæði í Watergate og stóra dúksmálinu.

Raunar held ég að Árni hafi annað hvort ekki ráðfært sig við neinn í þessu máli eða þá að hann hafi notið svona sérstaklega vondra ráðgjafa. Þegar á sunnudag, 15. júlí, mátti ljóst vera hvert stefndi. Þá þegar hefði hann nánast getað slökkt á málinu með því að greina frá því að hann hefði ekki gætt þess sem skyldi að greina í sundur reikninga vegna eigin framkvæmda og Þjóðleikhússins, að hann myndi víkja sæti á Alþingi á meðan fram færi rannsókn að eigin ósk á þessum málum öllum og að hann myndi ekki tjá sig frekar fyrr en henni væri lokið.

Það hefði verið skítalykt af þeirri afgreiðslu, en Árni hefði sennilegast sloppið fyrir horn í bili: hann hefði hugsanlega komist upp með að borga fyrir útteknar vörur til eigin nota án dómsmeðferðar og hann hefði jafnvel getað tekið þátt í næsta prófkjörshappdrætti eins og hver annar.

En hann laug. Hann gerði þau mistök að ljúga fullum hálsi í viðtali við Kristján Guy Burgess fréttamann RÚV. Kristján Guy er augljóslega með mjög næmt eyra, því hann kveikti á hverju einasta orði Árna, sem orkað gat tvímælis, stangaðist á við fyrri frásögn Árna eða var hrein og klár lygi. Þagnir Árna voru ekki betri, því ein beittasta spurning Kristjáns Guy var hvort til væru fleiri reikningar af sama toga. Árni þagnaði og flutti síðan langt og ýtarlegt svar við einhverri allt annarri spurningu. Í raun tók hann Árna á ipponi, því Kristján Guy vann fullnaðarsigur á Árna án þess að neyta aflsmuna eða vega úr launsátri: líkt og í góðu júdói eftirlét hann andstæðingnum að fella sjálfan sig. Og það gerði Árni svo sannarlega.

Ég held að það sé ekki ofsagt að segja að þetta viðtal Kristjáns Guy sé eitt besta fréttaviðtal í íslenskri fjölmiðlasögu og hann á heiður skilinn fyrir það. Viðtalið var öfgalaust og kurteislegt, en hárbeitt og leiddi fullkomlega í ljós aðalatriði málsins.

En málið hélt áfram. Dúksmálið kom til sögunnar og þar lét Árni ekki nægja að segja ósatt eða láta hálfsannleik duga. Hann gekk skrefinu lengra og notfærði sér gamalgróið traust Morgunblaðsins í hans garð, enda fyrrverandi blaðamaður þess. Hann gekk svo langt að blekkja Morgunblaðið, leiða það í gildru og falsa "sönnun" þess að dúkurinn góði hefði aldrei fallið í rangar hendur, þ.e.a.s. sínar eigin hendur. Þetta var auðvitað allt tóm lygi.

Farsanum er loks lokið og Árni er búinn að segja af sér. En eftirmálin verða vafalaust meiri og vel má vera að meiri og stærri ávirðingar komi í ljós þegar öll kurl verða til grafar komin.

En það eru fleiri en Árni Johnsen, sem koma illa út úr þessu máli. Gísli Helgason hjá Blindrafélaginu átti til dæmis lítilmannlegt inngrip í þessa dagskrá alla þegar hann mundi allt í einu eftir því að hafa staðið í virðisaukaskattsvikum, sem öll voru Árna að kenna. Og samviskubitið nagaði hann þangað til að hann ákvað að skrifta í fjölmiðlum eftir að honum varð ljóst að öll viðskipti Árna yrðu tekin til skoðunar.

Og hvað má þá segja um Gísla S. Einarsson, sem birtist með nýfægðan geislabaug á forsíðu DV þar sem hann var að undirrita bréf þar sem óskað var rannsóknar á öllum opinberum fjárreiðum Árna, áður en vitneskja um maðka í mysunni varð almenn? Eða vissi hann kannski eitthvað, sem hann hafði ekki haft fyrir því að greina frá? Í þessu samhengi er ástæða til þess að minna á að þetta er ekki fyrsta sérkennilega bréfið sem Gísli undirritar sem þingmaður. Það eru nefnilega ekki meira en þrjú ár síðan Gísli S. Einarsson varð uppvís að bílabraski í nafni Alþingis, eins og DV greindi frá á sínum tíma. Seinna kom á daginn fleira skrýtið um þessa bíla, þeir uppfylltu ekki innflutningsskilyrði, öryggisbúnaði var ábótavant og jafnvel að lækkun hafi orðið í hafi á bílunum sem aftur hafi leitt til lækkunar á tollum og virðisauka þegar þeim var skipað upp hér. Svo geta menn giskað á það hvers konar jeppa Gísli ók á eins og fínn maður í kjölfarið.

Þá hafa sumir reynt að gera málið tortryggilegt á pólitískum forsendum. Samfylkingarmaðurinn og stjórnmálafræðiprófessorinn Svanur Kristjánsson hamraði á því að sjálfstæðismennirnir Jón Sólnes og Albert Guðmundsson hafi hrökklast úr embættum, en steingleymdi að minnast á það flokksbróðir hans, Guðmundur Árni Stefánsson, hefði orðið að segja af sér ráðherraembætti.

En hitt er annað mál og gleðilegra að stjórnmálaflokkarnir hafa látið vera að gera sér flokkspólitískan mat úr þessu. Enda er það ekki svo að skúrkismi sé stjórnmálastefna einum flokki tengd og öðrum ekki. Á hinn bóginn hafa menn alltof lengi verið alltof umburðarlyndir í þessum efnum og þar er enginn flokkur undanskilinn. Sem var kannski ekkert skrýtið í ljósi smæðar landsins, kunningjaþjóðfélagsins og þess alls: í landi þar sem þingmenn stærðu sig af því að vera fyrirgreiðslupólitíkusar. Og þeir finnast svo sem ennþá, en þeir eru hættir að monta sig af því.

Öll þjóðin vissi af hinum grænu baunum Steingríms Hermannssonar, en það virtist nánast vera þjóðarsátt um að gera ekkert í þeim. Það var látið kyrrt liggja þó upp hefði komist um kaup Jóns Baldvins Hannibalssonar á ráðherrabrennivíni í stórafmæli vinar síns. Sverrir Hermannsson lét Landsbankann laxera. Páll Pétursson misnotaði síma Alþingis án þess að nokkuð væri að gert. Sumir þingmenn hafa látið skrifstofu Alþingis borga brúsann fyrir tryllingslegar póstsendingar til heilu kjördæmanna. Og svo mætti því miður áfram telja. Það er vitaskuld aumt að menn hafi komist upp með svona svínarí, en það sem er enn verra er, að kjósendur hafa aldrei refsað sökudólgunum í þingkosningum. Þannig að það er kannski ekkert skrýtið þó Árni hafi ekkert skilið í þessum látum.

Eins og fyrr segir á Kristján Guy Burgess lof skilið fyrir fréttaviðtal sitt við Árna. Raunar eiga flestir fjölmiðlar hrós skilið fyrir umfjöllun sína um þessi mál öll, þó stutt hafi verið í nornaveiðarnar hjá sumum. Þá má ekki gleyma þætti ótínds almúgans í upplýsingu málsins: starfsmaður BYKO sem fann óþef af viðskiptum Árna, framkvæmdastjóri Garðheima sem seldi tjarnardúkinn, sendibílstjórinn sem flutti dúkinn og þar fram eftir götum. Þetta fólk á líka hrós skilið fyrir frammistöðu sína. Það þorði að láta til sín taka, jafnvel þó svo að sumum kynni að koma það illa.

Það eru fleiri ljós í myrkrinu. Fyrstu viðbrögð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra voru þannig afar traust, þó ekki væri nema hluti þess ljós þá. Af orðum hans var ljóst að hann var fyrst og fremst gáttaður á málinu, en hann kvað fullkomlega upp úr um afstöðu sína í málinu án þess að beita Árna beinum þrýstingi, enda væri það auðvitað ekki minna alvarlegt mál ef fulltrúar framkvæmdavaldsins tækju það upp hjá sér að hlutast til um hvort fulltrúar löggjafarsamkundunnar sitji lengur eða skemur á þeim stólum, sem þeir eru rétt kjörnir til. En hann gerði það algerlega ljóst að málið yrði rannsakað til hlítar og sagði það nánast berum orðum að í Árna sporum myndi hann segja af sér. Það var afar mikilvægt þar og þá, að öllum Íslendingum væri ljóst að í svona málum skiptir engu máli hver maðurinn er, Jón er jafntækur til rannsóknar og séra Jón, að ekki sé minnst á háttvirtan þingmann Jón. Ekki síður skipti það máli fyrir flokksformanninn Davíð, að það væri á öldungis á tæru, að enginn hefði neitt skjól af Sjálfstæðisflokknum í svona málum. Davíð tókst fullkomlega að standa við einkunnarorð flokksins síns: Gjör rétt, þol ei órétt.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra kom einnig sterkur inn í þessa umræðu og greindi vel frá því hver afstaða ráðuneytisins væri, hver bæri ábyrgð á hverju, hvernig umboðsmálum einstakra stjórnsýslunefnda er háttað og svo framvegis. Þrátt fyrir að hann og Árni væru samstarfsmenn að fornu og nýju, gat hann vart orða bundist yfir því hvernig Árni hefði fullkomlega brugðist trausti sínu. Þrátt fyrir það valdi hann ekki auðveldu leiðina og varpaði frá sér allri ábyrgð í málinu, eins og sumir kynnu að hafa freistast til í hans stöðu. Þvert á móti sagði hann hreint út, að vitaskuld bæri hann ábyrgð gagnvart Alþingi, þó sökin sé auðvitað ekki hans.

Þeir Davíð og Björn eru þó engan veginn einir um að hafa tekið á þessu endemismáli af ábyrgð og festu. Langflestir stjórnmálamenn, hafa tekið á málinu af þeirri alvöru, sem vera ber. Nær enginn hefur reynt að skora flokkspólitísk stig á málinu, þó ekki sé ósennilegt að meira beri á slíku eftir því sem nær dregur þingsetningu. En enginn hefur sagt að nóg sé að þetta tiltekna mál sé rannsakað út í ystu æsar, heldur liggur fyrir skýr vilji þess í öllum flokkum að kanna verði hvort einhverjar hliðstæður finnist annars staðar í kerfinu, að koma verði í veg fyrir að nokkur maður komist í þá aðstöðu, sem Árni var í, og að almennt sé ástæða til þess að tryggja það að íslensk stjórnmál séu jafnhreinskiptin og heiðarleg og við höfum viljað halda.

Og það verður afar athyglisvert að fylgjast með þeim eftirleik. Eins og fyrr var rakið eru stjórnmál sjálfsagt siðlegri nú en þau voru fyrir 15-20 árum. Fyrirgreiðslufurstarnir eru ekki jafnáberandi og fyrr, gamlar hagsmunafylkingar hafa riðlast og stórefld fjölmiðlun hefur gert stjórnmálalífið gegnsærra en áður.

Það breytir þó ekki því, að stjórnmál snúast um setu við kjötkatla og freistingarnar eru ærnar. Stóra dúksmálið hófst vegna nefndarsetu. En hvað skyldu nefndirnar á vegum ríkisins vera margar? Ég giska á annað þúsund. Sumar þessara nefnda eru örugglega bráðnauðsynlegar, en það er svo skrýtið að þær eru flestar skipaðar pólitískt og setan er langoftast launuð. Er heppilegt að bjóða hættunni heim með þeim hætti? Ég hugsa að fækka mætti nefndunum verulega og einnig kæmi mér á óvart ef þær yrðu óstarfhæfar ef tekið yrði fyrir greiðslur fyrir nefndasetuna.

Nefndir eru ekki eina pólitíska skiptimyntin í umferð. Utanferðir hafa jafnan reynst vel í þeim efnum, enda geta dagpeningagreiðslur verið drjúgar. Tala nú ekki um ef makinn fær að fljóta með. Svo má ekki gleyma risnu hér og þar, sem hleypur á tugmilljónum. Hér áður fyrr bar verulega á pólitískum mannaráðningum, en til allrar hamingju er nú orðið lítið um slíkt ef undan eru skildar ráðningar afdankaðra þingmanna hér og þar í kerfinu. Á hinn bóginn blómstra slíkar ráðningar hjá sveitarfélögum sem aldrei fyrr og þar ber R-listinn höfuð og herðar yfir allar pólitískar fylkingar aðrar.

Síðan er náttúrlega sjálfsagt að þingmenn taki til á sínum heimavelli. Reglur um símkostnað og póstsendingar Alþingis þurfa að vera skýrar og virtar. Þingmenn kjósa árlega til þingflokkanna peninga, sem í orði kveðnu eru útgáfustyrkir og styrkir til kaupa á sérfræðiaðstoð. Þessir peningar eru svo nýttir á ýmsa lund, en sjaldnast til þess sem tilgreint er í fjárlögum. Nú er það svo að þingmenn eru ekkert sérstaklega vel launaðir ef þeir sinna engu öðru og það er önnur umræða, en almenningur hlýtur að geta gert þá kröfu til þingmanna, að það liggi alveg ljóst fyrir hvað þeir fá til ráðstöfunar þegar allt er talið og eins að þeir séu ekki að kjósa flokkum sínum ókeypis peninga eftir þörfum eins og einrofa samstaða hefur verið um á lýðveldistímanum.

En hvað má þá segja um apparöt eins og Byggðastofnun, sem beinlínis er hönnuð með það fyrir augum að stjórnmálamenn geti leikið jólasvein allt árið um kring? Eða "úthlutunarnefndir" hins og þessa? Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta ef þeir hafa komið sér í mjúkinn hjá einhverjum stjórnmálaflokkanna. En vei þeim, sem ekki þekkir neinn í neinum flokki.

Það er nefnilega hin sorglega staðreynd málsins, að svo lengi sem stjórnmálamenn hafa fjármuni annarra til ráðstöfunar verður ekki hjá því komist að einhverjir í þeirra hópi misbeiti valdi sínu eða maki krókinn. Og því er aðeins ein leið fær til þess að lágmarka spillingu, en hún er að takmarka völd, fjárráð og umsvif hins opinbera.

Því það er eins og einhver fyrirgreiðsluforingi fyrri aldar orðaði það: "Ef maður misnotar ekki aðstöðu sína, þá er maður að misnota aðstöðu sína!"

Þessi grein birtist fyrst á Strikinu.