13.1.04

Sannleikanum er hver sárreiðastur

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að nýr fjölmiðlarisi er orðinn til á Íslandi. Á örskömmum tíma hefur Jón Ásgeir Jóhannesson, hinn duglegi forstjóri og aðaleigandi Baugs, lagt undir sig hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum og virðist hvergi nærri hættur. Fyrir ræður Jón Ásgeir lögum og lofum á Fréttablaðinu, DV auk ýmissa vefmiðla og virðist nú hársbreidd frá því að ná tangarhaldi á Norðurljósum og er raunar þegar búinn að raða persónulegum trúnaðarmönnum sínum í stjórn þar, þó áhöld séu enn um eignarhaldið. Norðurljós reka allar fréttaveitur landsins á ljósvakanum utan Ríkisútvarpsins og hafa yfirráð yfir flestum tíðnirásum í landinu.

Þess vegna er það engin goðgá að spyrja hvers vegna Jón Ásgeir Jóhannesson safni fjölmiðlum. Ekki síst í ljósi þess að fjárútlátin vegna þeirra benda til þess að þar ráði eitthvað allt annað en venjulegir viðskiptahagsmunir og hagnaðarvon. En hver sem tilgangurinn er, þá er hann fyrst og fremst eitthvað, sem menn geta haft bak við eyrað sem fjölmiðlaneytendur eða ef þeir vilja skemmta sér við að sálgreina fólk úr fjarska. Það, sem mestu skiptir, er auðvitað það sem að okkur snýr: sjálfir miðlarnir. Eru þeir að segja satt? Segja þeir allan sannleikann? Hafa þeir hagsmuni neytenda sinna að leiðarljósi eða hagsmuni eigenda sinna?

Spurningar sem þessar eiga við um fjölmiðla hvar sem er í veröldinni og hér á Íslandi var þeim reglulega velt upp meðan gömlu flokksblöðin voru og hétu. En með innreið hins nýja fjölmiðlarisa hafa þær vaknað sem aldrei fyrr og kannski af meiri móð en áður þar sem gömlu blöðin voru fyrst og fremst lituð af skoðunum, en hinum nýju miðlum Jóns Ásgeirs er borið á brýn að litast af persónulegum hagsmunum hans öðru fremur. Minn gamli vinur og samstarfsmaður, Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Fréttablaðsins og framkvæmdastjóri DV, hefur um lítið annað fjallað í ritstjórnarpistlum sínum undanfarnar vikur og lætur eins og að það sé gersamlega fráleitt að orða það hvað þá meir, að fjölmiðlar Jóns Ásgeirs endurspegli hagsmuni hans á nokkurn hátt. Hann segir engan geta nefnt dæmi slíks og slíkar vangaveltur jaðra við atvinnuróg. En getur enginn nefnt slík dæmi?

Hin sorglega staðreynd er sú að dæmin eru fjölmörg. Og hin alvarlega staðreynd er sú að þegar kemur að afskiptum Jóns Ásgeirs af frétta- og skoðanaflutningi miðla hans er þar ekki um einangruð tilfelli að ræða, heldur má þvert á móti greina mynstur, sem er engan veginn miðlum hans, fjölmiðlun almennt eða lýðræðislegri umræðu til framdráttar. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að slík afskipti felast ekki einvörðungu í því hvaða fréttir eru sagðar, heldur ekki síður hvaða fréttir eru ekki sagðar. Hér skulu nefnd nokkur dæmi.

Leynilegir eigendur
Þegar Fréttablaðið riðaði á barmi gjaldþrots og blaðberar þess voru hlunnfarnir vorið 2002 leitaði Gunnar Smári að fersku fjármagni til bjargar blaðinu. Eftir nokkurra vikna útgáfuhlé tilkynnti hann að það hefði tekist og hratt blaðinu úr vör að nýju undir nýrri kennitölu, en harðneitaði að gefa upp nöfn hinna nýju eigenda. Marga grunaði að huldueigendurnir væru Jón Ásgeir og Baugsmenn, því Baugsfyrirtækin tóku að auglýsa ótæpilega í Fréttablaðinu á sama tíma og þau drógu verulega saman seglin í öðrum miðlum. Þegar upp úr þurru birtist svo hefðarviðtal við Jóhannes Jónsson í Bónus, föður Jóns Ásgeirs þurfti tæpast frekari vitna við. Þrátt fyrir það var það ekki fyrr en ári síðar, sem loksins mátti gera eignarhaldið opinskátt. Þetta laumuspil allt gaf vitaskuld ekki góð fyrirheit um framhaldið.

Fréttablaðið frétti ekki af innherjamálum Baugs
Baugur var afskráður í Kauphöllinni síðasta sumar þegar Jón Ásgeir og fjölskylda keyptu aðra hluthafa út. Við það er ekkert að athuga í sjálfu sér, en hitt var merkilegra, að ekkert yfirverð var á bréfunum, svo sem jafnan er þegar fruminnherjar á borð við forstjóra og stjórnarmenn kaupa aðra hluthafa út, því þeir hafa augljóslega mun betri upplýsingar um rekstur og framtíð félagsins en hinn almenni hluthafi. Stuttu síðar komu svo fram ýmsar vísbendingar um að verðið hafi verið allt of lágt þar sem innherjarnir bjuggu yfir margvíslegri vitneskju umfram aðra. Hvort sem þarna áttu sér stað óeðlileg innherjaviðskipti eða ekki, þá voru þessi tíðindi altjent frétt eins og endurspeglaðist raunar í mörgum fjölmiðlum. Fréttablaðið er almennt afar vakandi yfir málum sem þessum, en þetta fannst því greinilega alls ekki fréttnæmt. Ekki eins orðs virði.

Opinber rannsókn fær milda meðferð
Síðasta haust hófst lögreglurannsókn á því hvort fyrrverandi og núverandi forstjóri Baugs hafi stungið undan tugum milljóna af fé fyrirtækisins og almennra hluthafa þess. Á þeim tíma sem þetta mál var hvað mest í fréttum hafði Jón Ásgeir enn ekki gefið upp að hann væri helsti eigandi Fréttablaðsins. Eftir því var á hinn bóginn tekið að blaðið fór alveg sérlega mjúkum höndum um þessi meintu afbrot hans og viðskiptafélaga hans og dró raunar upp þá mynd að þeir væru fórnarlömbin í málinu. Og hið sama gerðist þegar skattrannsóknastjóri réðist til inngöngu í höfuðstöðvar Baugs á dögunum, að sögn vegna grunsemda um undanskot stjórnenda fyrirtækisins frá skatti, ekki síst Jóns Ásgeirs sjálfs.

Trúnaðargögn Baugs til Fréttablaðsins
Fyrir síðustu alþingiskosningar var Fréttablað Jóns Ásgeirs fremur hliðhollt Samfylkingunni og í sjálfu sér ekkert við það að athuga að blöð taki pólitíska afstöðu, en hitt var eftirtektarverðara að efnistökin rímuðu einkar vel við gremju Baugsmanna í garð Davíðs Oddssonar og fræga Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þar sem hún gaf í skyn að forsætisráðherra hefði sigað lögreglu á stjórnendur Baugs. Í framhaldinu sá Baugur Fréttablaðinu fyrir ýmsum trúnaðargögnum, sem áttu að styðja mál Ingibjargar Sólrúnar. Við lekann úr Baugi brast trúnaður innan stjórnar hans og sögðu tveir stjórnarmenn sig úr stjórn, ósáttir við háttalag Jóns Ásgeirs, sem á þeim tíma hafði enn ekki gengist við eignarhaldi á Fréttablaðinu.

Einn frambjóðandi fær sérmeðferð
Í umræðu um eignarhald á fjölmiðlum að undanförnu hafa komið fram varnaðarorð frá fulltrúum alls stjórnmálalitrófsins vegna þeirrar hættu, sem stafi af því að megnið af fréttaflutningi landinu sé á sömu hendi. Fyrrnefnd Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist hins vegar fullkomlega andvíg því að settar verði hvers konar reglur, sem komi í veg fyrir samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum, sem kemur illa heim og saman við yfirlýsingar hennar um eignasamþjöppun í öðrum geirum atvinnulífsins. En kannski er skýringanna á þessari stefnubreytingu Ingibjargar ekki langt að leita, því æ sér gjöf til gjalda og Fréttablaðið gekk afar langt í að hampa henni persónulega í kosningabaráttunni í vor. Sem dæmi má nefna að sagt var í forsíðufrétt blaðsins um tiltekna ræðu Ingibjargar að hún hafi „talað blaðlaust og hrifið áhorfendur með sér“, sem er afar óvenjulegt og gildishlaðið orðalag forsíðufréttar blaðs um stjórnmálafund, og hefur vísast ekki sést síðan flokksblöðin ginu yfir opinberri umræðu hér á landi. Fundur sá, sem ræðan var haldin á, fór einmitt fram í húsnæði sem Jón Ásgeir á og lét Samfylkingu í té fyrir kosningar. Andstæðingum Samfylkingarinnar hefur þótt þetta afskaplega sérkennilegt, en innan Samfylkingarinnar blöskrar mörgum þetta ekki síður, eins og Páll Vilhjálmsson hefur rakði í greinum á þessum síðum. Hann telur m.a. að Jón Ásgeir hafi með Fréttablaðið að vopni „blygðunarlaust […] reynt að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar til að þagga niður í gagnrýni á Baug.“

Þagað um jeppaívilnun
19. ágúst sl. sagði DV frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir æki um á Pajero-jeppa sem Hekla hefði lánaði henni í margar vikur. Það þóttu mönnum tíðindi út af fyrir sig. Hjá Heklu ræður ríkjum viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, fyrrverandi forstjóri Baugs, ásamt ótilgreindum fjárfestum. Menn vita að öðru leyti jafnmikið um raunverulegt eignarhald Heklu og vitað var um eignarhald Fréttablaðsins fram að því að Jón Ásgeir og félagar gengust við eign sinni þar í. Ingibjörg Sólrún vildi eðlilega sem minnst um jeppamálið tala, enda á þeim tíma nýspurð hvort hún hefði þegið einhver gæði, boðsferðir eða gjafir frá einkafyrirtækjum og þá hafði hana ekki rámað í jeppann. Talsmaður Heklu sagði að hún væri „góður viðskiptavinur“, sem hefði haft jeppann að láni í þrjár vikur. Það er reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt, því þá voru margar vikur liðnar síðan landsmenn allir sáu hana í sjónvarpinu þar sem hún var í skemmtiferð úti á landi í jeppanum góða. Ég get alveg upplýst það að ég veit það frá fyrstu hendi að Fréttablaðið vissi um þetta mál vikum saman áður en fréttin birtist í DV, en birti ekki staf um það.

Neytendasamtökin styrkt af matvörumarkaði
Jón Ásgeir hafði forgöngu um að Neytendasamtökin fengju fjárstyrk frá fyrirtækjum á matvörumarkaði. Í framhaldinu frestuðu Neytendasamtökin þeirri fyrirætlan sinni að kanna matvörumarkaðurinn sérstaklega (þar sem fyrirtæki Jóns Ásgeirs eru vægast sagt fyrirferðarmikil) og fóru að skoða eitthvað allt annað, þar sem Jón Ásgeir var hvergi nálægur. Vissulega er gleðilegt þegar atvinnulífið lætur fé af hendi rakna til góðra málefna, en rétt eins og dómararnir eiga ekki að vera á launum hjá sakborningunum, þá eiga Neytendasamtökin ekki að vera fjárhagslega háð viðskiptajöfrum og flestir fjölmiðlar gerðu málinu ýtarleg skil. Fréttablaðið taldi þetta vitaskuld engu skipta.

Skipaði blaðamönnum að eyða fréttum
Í nýliðnum nóvember birti Sigurður Hólm Gunnarsson, fyrrum blaðamaður á Vísi, greinina »Er Fréttablaðið ritskoðað?«, en Jón Ásgeir er einn helsti eigandi vísir.is. Í pistli sínum sagði Sigurður meðal annars:
Reynir Traustason, blaðamaður á Fréttablaðinu, fullyrti í gær að Jón Ásgeir hafi aldrei skipt sér af ritstjórn blaðsins. Ég myndi líklegast trúa Reyni ef ég vissi ekki af þeim afskiptum sem Jón Ásgeir hafði af ritstjórn www.visir.is á meðan sá vefur var enn á lífi. Veit ég til þess að Jón Ásgeir skipaði blaðamönnum og yfirmönnum á Vísi að taka út ýmsar fréttir sem hann vildi ekki að yrðu birtar. Þó að blaðamenn (þar á meðal undirritaður) neituðu að fylgja þessum fyrirskipunum hurfu fréttirnar samt. Þegar blaðamenn kvörtuðu var einfaldlega sagt að hafa þyrfti í „huga hver eigandi miðilsins er“ áður en fréttir yrðu birtar. Er það því skrítið að ég efist um hlutleysi eigenda Fréttablaðsins?
Ritstjóri vefjarins Fréttir.com óskaði eftir nánari skýringum á þessu máli hjá Sigurði, sem svaraði að hann gæti sannað mál sitt: „Já, ég á ennþá allan tölvupóst til, þar sem mér var sagt að eyða fréttum og að ég þyrfti að hafa í „huga hver eigandi miðilsins er“ áður en ég birti aðrar fréttir. Einnig þegar sagt var við mig: „Hafa ber í huga þessa einföldu reglu — hafa samband við forsvarsmenn Baugs áður en svona fréttir eru birtar“.“En Sigurður er ekki einn um að segjast hafa orðið fyrir ritskoðun Jóns Ásgeirs. Ágúst Borgþór Sverrisson, fyrrum samstarfsfélagi Sigurðar á Vísi, segir m.a.: „Ég starfaði á Vísir.is á umræddu tímabili og get staðfest allt sem komið hefur fram hjá Sigurði Hólm… á þessu tímanbili komu upp tvö tilvik þar sem fréttum var eytt með þeim hætti sem Sigurður lýsir… ritskoðun var beitt a.m.k. tvisvar á þessu stutta tímabili og mér er tjáð að það hafi gerst a.m.k. einu sinni áður.“ Soffía Steingrímsdóttir, ritstjóri Vísis, staðfesti að frétt Sigurðar hafi verið tekin út að beiðni Jóns Ásgeirs, sem stangast algerlega á við það sem hann hélt sjálfur fram. Aðspurður 17. nóvember um afskipti sín af fréttaflutningi miðla sinna svaraði hann því til, að hann skipti sér aldrei af þeim, enda eyðilegðu slík inngrip trúverðugleika viðkomandi miðla. Þá vitum við það.

Séð & Heyrt tekið úr sölu hjá Baugi
Þegar Séð og heyrt birti fréttir og myndir af bátnum Thee Viking, sem Jón Ásgeir notaði reglulega í Flórídu, brást hann hinn versti við. Ekki svo að skilja að neitt í umfjölluninni væri beinlínis rangt, heldur vildi hann einfaldlega ekki að rætt væri um þennan bát og mál honum tengd í fjölmiðlum. Baugur reyndi að koma í veg fyrir dreifingu blaðsins og neitaði m.a. að selja þetta tölublað í sínum verslunum. Afþreyingarrit og lausasölublöð á Íslandi eiga þorra sölu sinnar undir verslunum Baugsveldisins og fjölmiðlasérfræðingur Jóns Ásgeirs veit mæta vel hve fjárhagslega viðkvæm blöð á borð við Séð og heyrt eru fyrir slíku raski á sölu þeirra. Út af fyrir sig er það grafalvarlegt hvernig Jón Ásgeir beitir eigin miðla agavaldi, en þegar ritstýringin er farin að taka til annarra miðla tekur út yfir allan þjófabálk.

Nema með hans vilja
Sunnudaginn 16. nóvember greindi Fréttablað Jóns Ásgeirs frá sölu á hlutabréfum Norðurljósa og sagði m.a.: „Staðan er því þannig að Jón Ásgeir mun ráða yfir hlut Jóns Ólafssonar á hluthafafundi á morgun. Enginn mun koma um borð nema með hans vilja.“ Ýmsir, sem málinu tengjast, fullyrða að þetta sé rangt og segja KB banka hafa það í hendi sér, í krafti milljarðaskulda Norðurljósa við sig, hvernig farið verði með eignarhald í Norðurljósum, hvernig mismunandi rekstrarsviðum fyrirtækisins verði skipt upp og þar fram eftir götum. Nú er erfitt að segja hvort eigandinn stýri beinlínis penna eða hvort ritstjórinn sé aðeins að skjalla hann, en hvort heldur er þá kemur svona frásögn fréttamennsku ekkert við, heldur því hvernig eigandinn kýs að sjá heiminn frá morgunverðarborði sínu.

Málpípan lánuð
Einkar sérkennileg og ógeðfelld birtingarmynd fjölmiðlakolkrabba Jóns Ásgeirs kom í ljós á dögunum þegar málefni forsvarsmanna KB banka voru hvað mest til umfjöllunar. Fréttablaðinu þóttu þau raunar ekki mikil tíðindi og afgreiddi málið í eindálki, en þegar reiðibylgja reis í samfélaginu var málinu snúið upp í það að forstjórarnir væru í raun aðeins vesöl fórnarlömb eineltis, sem rakið var til Davíðs Oddssonar. Í ljósi þess að eigandi blaðsins hefur kvartað undan einelti úr sömu átt endurspeglaði Fréttablaðið ef til vill aðeins samkennd með öðrum stórefnamönnum, sem áttu um sárt að binda, en það er afar erfitt að verjast þeirri hugsun að hér hafi hagsmunir eigandans enn sem áður ráðið för. Jón Ásgeir ásælist nefnilega Norðurljós og því vafalaust mikið í mun að gera þeim til geðs, sem mestu ráða um ráðstöfun þeirra: téðum forsvarsmönnum KB banka. Og þar var ekki nóg að gert því ritstjóri Fréttablaðsins var fenginn til þess að koma í sjónvarpsþáttinn Ísland í dag þar sem hann varði hina nýju skjólstæðinga sína út í hörgul.

Áhrifalaus innan DV?
Þegar Jón Ásgeir keypti leifarnar af DV létu ýmsir í ljós áhyggjur af því að blaðið fetaði sömu óheillabraut og Fréttablaðið og hagaði seglum eftir því hvernig blési frá Baugi. Ritstjórarnir tóku því fjarri og Mikael Torfason tók af öll tvímæli um það þegar hann orðaði það svo kjarnyrt: „Það skiptir engu helvítis máli hver á hvað…“ Skömmu síðar mátti lesa heitstrengingu um að „eigendur DV hefðu engin áhrif inn á ritstjórn blaðsins“, en í sama tölublaði mátti raunar lesa brosviðtal við annan forsvarsmanns KB banka, bljúgan í garð ótíndrar alþýðunnar. Viku síðar var kaupum Jóns Ásgeirs á Norðurljósum slegið föstum með sama hætti og Fréttablaðið gerði, þó það væri hreint ekki frágengið ef marka mátti þá, sem gerst til þekktu. Og ef einhver hélt að símasambandslaust væri milli DV og eigendanna þá var þeim misskilningi eytt þegar DV birti umsvifalaust nafn ógæfupilts og starfsmanns Bónuss, sem grunaður var um að hafa rænt vinnuveitanda sinn fyrr í mánuðinum.

DV og Júdas
Þeir eru til, sem telja að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi horn í síðu Davíðs Oddssonar. Sumir þeirra telja jafnvel að sú óvild endurspeglist í Fréttablaðinu og þarf ekki að lesa skoðanasíður blaðsins lengi til þess að finna rök fyrir því. Að þessu leyti svipar þeim systrum saman, DV og Fréttablaðinu, en út af fyrir sig er ekkert við það að athuga, Davíð Oddsson er í stjórnmálum og af sama leiðir að ekki eru allir á eitt sáttir um hann, orð hans eða athafnir. Alveg eins geta blöð, sem gera sig gildandi í opinberri lýðræðislegri umræðu, tekið pólitíska afstöðu og undirritaður er raunar þeirrar skoðunar að það eigi þau hiklaust að gera. En á hvaða leið er sú umræða þegar ritstjóri DV, Mikael Torfason, hefur það helst til málanna að leggja í pólitísku hitamáli, að líkja forsætisráðherra við Júdas Ískaríot og skora á hann að stíga skrefið til fulls, ganga út og hengja sig?

Óáhugaverður áhugi Baugs á Norðurljósum
Undanfarnar mánuði hefur Jón Ásgeir freistað þess að bæta Norðurljósum í fjölmiðlasafn sitt. Hvað sem mönnum finnst annars um þær fyrirætlanir hljóta slíkar hræringar að vera áhugavert fréttaefni. Þeim mun sérkennilegra hefur verið að fylgjast með umfjöllun Fréttablaðsins því hún hefur nær engin verið. Milli jóla og nýárs mátti lesa opnugrein þar sem rætt var við Björgólf Guðmundsson og var víða komið við: kaupin á Landsbankanum, yfirtöku Kaupþings á Búnaðarbankanum, umbrot á fjármálamarkaðnum almennt, átökin um Eimskip og þar fram eftir götum. En á Norðurljós var ekki minnst einu orði!

Sár sannleikur
Hér að ofan hef ég tæpt á nokkrum eftirminnilegum dæmum þess hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson hefur kosið að beita fjölmiðlum sínum í þágu eigin fyrirtækja og hagsmuna, reynt að kúga aðra fjölmiðla til þagnar, styðja á laun þá stjórnmálamenn, sem honum eru þóknanlegir, og sagst á sama tíma reka hlutlausa fréttamiðla og að ekkert sé sér fjarri en að reyna að hafa áhrif á miðla sína. Þess vegna hugsa ég að mörgum hrjósi hugur við því ef Norðurljós bætast í sarpinn hjá Jóni Ásgeiri.

Þessi þróun hefur enda orðið til þess að nú ræða menn í fullri alvöru að reisa eignarhaldi í fjölmiðlum skorður í lögum og vísa til sambærilegra reglna víða erlendis. Undirritaður er þeirrar skoðunar, að afskipti hins opinbera af fjölmiðlum eigi að vera sem allraminnst og síðan á fólk auðvitað að ráða því sjálft hvernig það ráðstafar fé sínu meðan það er innan ramma laganna. Ef Jón Ásgeir vill kaupa fjölmiðla á Íslandi, leikfangabúðir á Englandi eða þagnarbindindi á Flórídu, þá á hann að mega það.

Á hinn bóginn er rík ástæða fyrir fólk að veita fjölmiðlum aðhald. Menn láta mikið með fjórða valdið og aðhaldshlutverk þess gagnvart hinu þrígreinda ríkisvaldi. En þá mega menn ekki gleyma því að ríkisvaldið er einmitt þríþætt til þess að hvert þeirra hafi bönd á hinum, jafnvægi sé í völdunum og borgararnir uni glaðir við sitt. Það sem upp á vantar á svo fjórða valdið — fjölmiðlarnir — að leggja til. En hver veitir fjölmiðlunum aðhald? Fram að þessu hefur það fyrst og fremst verið í verkahring neytenda þeirra og svo að nokkru leyti hjá öðrum fjölmiðlum. Vandinn er sá að sú skipan dugir hreint ekki þegar útbreiddasti prentmiðill landsins dettur inn um lúguna hjá landsmönnum hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og varla er á aðhald annarra fjölmiðla að treysta ef þeir eru aðeins sitt hver fingur á sömu hendi.

Þegar sú hönd er aukin heldur útlimur á öflugasta viðskiptalíkama landsins vakna sjálfkrafa spurningar um eðli þessara fjölmiðla, erindi og efnistök. Ekki svo að skilja að óhjákvæmilega séu maðkar í mysunni, en það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir eignatengslum, viðskiptahagsmunum, markmiðum og gildum þeirra einstaklinga, sem eiga og stjórna fjölmiðlum, til þess að meta hvort svo sé eða ekki. Af ofangreindu finnst mér augljóst að Jón Ásgeir Jóhannesson og miðlar hans hafa margfallið á prófinu.

Það er kannski þess vegna, sem Gunnar Smári Egilsson fer svo mikinn, þegar einhver vogar sér að impra á ógeðfelldum afskiptum eigandans. Vegna þess að sannleikanum er hver sárreiðastur. Og um nákvæmlega það snúast afskipti eigandans: að sannleikanum er hver sárreiðastur.


Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 2004.

Daginn eftir birtist í Morgunblaðinu aðfinnsla Illuga Jökulssonar, annars ritstjóra DV, sem þótti ég hafa fjallað af ósanngirni um efnistök blaðs síns. Ég svaraði honum að bragði og var þar ljúf skylda að leiðrétta eitt ranghermi í grein minni, sem laut að nafnbirtingu vegna ráns í Bónus. Í greininni að ofan fullyrti ég að starfsmaður Bónuss, sem var í vitorði með ræningjunum, hefði verið nafngreindur í blaðinu. Svo var ekki, heldur voru ræningjarnir tveir ítrekað nafngreindir í blaðinu en starfsmaður Bónuss ekki. Við annað, sem Illugi gerði athugasemdir við, stóð ég, en það laut annars vegar að vinsamlegri umjöllun DV um forráðamenn Kaupþings, þegar harðast var deilt á kaupréttarsamninga þeirra, og hins vegar að áskorun Mikaels Torfasonar, meðritstjóra Illuga á DV, til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra um að ganga út og hengja sig að hætti Júdasar Ískaríots. Illugi sagði það „absúrd túlkun“ hjá mér, en það var engin túlkun, Mikki skrifaði þetta fullum fetum og allt annað er túlkun. Þá er rétt að nefna eina ónákvæmni í upphaflegu greininni, þar sem ég segi að tímaritið Séð & heyrt hafi verið tekið úr sölu í verslunum Baugs þegar í því birtust myndir af bátnum Thee Viking. Hið rétta mun vera að það var fjarlægt úr verslunum Bónuss, en ekki öðrum verslunum á vegum Baugs.