28.4.04

Haugalygi og Baugalygi

Í Kastljósi gærkvöldsins greindi ég frá því að Baugur hefði fyrr um daginn sagt upp styrktarsamningi sínum við Háskólann í Reykjavík og hefði tilgreind ástæða verið nefndarseta Davíð Þórs Björgvinssonar í fjölmiðlanefndinni margræddu. Mér finnst merkilegt að fá fréttir um málið í RÚV og Morgunblaðinu þar sem orð mín í Kastljósi eru afgreidd sem rangfærslur og haugalygi raunar, ef marka má þann mæta vin sannleikans, Jón Ásgeir Jóhannesson. Þá ber Þórdís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri stjórnendaskóla HR, að þetta séu rangfærslur, en Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdastjóri HR, lætur sér nægja að segja samninginn í fullu gildi. Á hinn bóginn var ekki gerð tilraun til þess að hafa samband við mig og spyrja hvað ég hafi þóst hafa fyrir mér í þessum efnum. Hvað þá að þeir séu spurðir, sem málið varðar beint, menn eins og Þórður S. Gunnarsson deildarforseti lagadeildar HR, Davíð Þór Björgvinsson prófessor eða Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor, svo nokkrir séu nefndir.

Ég fullyrði að ég fór með rétt mál í Kastljósi í gærkvöldi. Á þeim tíma var frásögn mín hárrétt, en eftir því sem ég fæ næst komist ruku forsvarsmenn Baugs upp til handa og fóta og afturkölluðu riftunina símleiðis eftir að ég hafði leyft mér að greina frá henni. Og segja svo að ég fari með haugalygi! Þessi póstmóderníska nálgun við sannleikann segir sína sögu um hæfi Baugsmanna til þess að eiga og stýra fjölmiðlun. Afstaða þeirra til sannleiksleitarinnar kemur svo skýrt fram í umgengni þeirra við fræðasamfélagið þegar þeir halda að stuðningur þeirra við vísinda- og fræðastörf eigi að hafa áhrif á þau og þær niðurstöður sem eftir liggja.

Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Baugsmenn beita bolabrögðum af þessu tagi. Þegar Guðfinna S. Bjarnadóttir sagði sig úr stjórn Baugs (vegna fréttaleka æðstu yfirmanna fyrirtækisins til blaðs í þeirra eigu, þó eignarhaldið lægi raunar ekki ljóst fyrir á þeirri stundu) var samskonar samningi Baugs við skólann sagt upp. Einhverjum tókst þá að tala um fyrir þeim og hóf fyrirtækið að styrkja skólann á ný. Ég ber hlýhug til Háskólans í Reykjavík og var því ljúft að verða til þess að Baugur ákvað enn og aftur að hætta við að hætta að styrkja skólann. Sem er kannski eins gott í ljósi þess að búið var að senda úr boðskortin vegna Baugsdagsins í HR á fimmtudaginn kemur.

En í þessu máli er ástæðulaust fyrir fjölmiðlamenn eða almenning að taka frásögn mína góða og gilda bara af því að ég segi það. Ég hef rætt við hlutaðeigandi hjá HR og þeir geta staðfest að ég sagði satt. Ég vona að Háskólinn í Reykjavík gjaldi ekki þessa ruglmáls frekar, því sökin liggur vitaskuld ekki hjá þeim. Ég treysti því að íslenskir blaðamenn -- sama fyrir hvern þeir starfa -- hafi enn það sem sannara reynist, því ég vil ekki sitja undir því að vera vændur um haugalygi, þó það sé Jón Ásgeir Jóhannesson, sem segi það.