7.10.04

Gereyðingarvopnin

Enn og aftur gera menn mikið úr því að búið sé að „sanna“ að Saddam Hussein hafi engin gereyðingarvopn átt og innrásin í Írak því á sandi byggð. Látum vera að meint gereyðingarvopn voru aldrei nema ein ástæða af mörgum fyrir inngripunum. Og látum líka vera að enginn, alls enginn, getur litið fram hjá því að Saddam réði yfir skelfilegum vopnum af því taginu og beitti þeim gegn Írönum, Kúrdum og eigin borgurum. Hvað af þeim varð er svo önnur saga, en margnefndur Saddam vildi af einhverjum ástæðum ekki leyfa neinum að fylgjast með því hvað af þeim yrði, sem aftur varð eitt af kornunum, er fylltu mælinn.

Þegar David Kay lét af störfum vortu tekin viðtöl við hann þar sem hann efaðist um að gereyðingarvopn myndu nokkru sinni finnast í Írak. Mál hans var einstaklega afflutt af andstæðingum innrásarinnar og vinum Saddams. Allir litu t.d. fram hjá því að hann taldi sérstakt áhyggjuefni að einhver vopn hefðu komist úr landi og nefndi Sýrland sérstaklega til sögunnar. Hann ítrekaði að ástæðurnar til hernaðar gegn Saddam hafi verið nægar þó sjaldan væri til þess vitnað og sagði svo:
„I must say, I actually think what we learned during the inspections made Iraq a more dangerous place potentially than in fact we thought it was even before the war.“
Allt verður þetta svo enn athyglisverðara þessa dagana, þegar meira og meira kemur í ljós um spillinguna hjá Sameinuðu þjóðunum, hvernig Saddam notfærði sér hið blinda auga SÞ, hvernig Írakar reiddu sig á Frakka, mútuðu mönnum hægri vinstri og þar fram eftir götum.

Aðalatriðið í þessu samhengi er hins vegar það að Saddam Hussein hafði átt gereyðingarvopn, sem hann hikaði ekki við að beita og hann miðaði leynt og ljóst að því að koma sér upp nýjum gereyðingarvopnum við fyrstu hentugleika. Efist menn um það geta þeir lesið sig til dauðs á Duelfer-skýrslunni eða rennt augum yfir grein Mahdi Obeidi í NYT, en hann er fyrrverandi kjarnorkuáætlunarstjóri Saddams. Hann segir m.a.:
„Threat is always a matter of perception, but our nuclear program could have been reinstituted at the snap of Saddam Hussein’s fingers. The sanctions and the lucrative oil-for-food program had served as powerful deterrents, but world events - like Iran’s current efforts to step up its nuclear ambitions - might well have changed the situation.

Iraqi scientists had the knowledge and the designs needed to jumpstart the program if necessary. And there is no question that we could have done so very quickly. In the late 1980’s, we put together the most efficient covert nuclear program the world has ever seen. In about three years, we gained the ability to enrich uranium and nearly become a nuclear threat; we built an effective centrifuge from scratch, even though we started with no knowledge of centrifuge technology. Had Saddam Hussein ordered it and the world looked the other way, we might have shaved months if not years off our previous efforts.“
En voru gereyðingarvopnadraumar Saddams næg ástæða til þess að leggja í herför gegn honum? Ég tel svo vera, en skil þá sem eru á öðru máli og sú deila verður seint til lykta leidd. En meginástæðan fyrir herförinni var sú, að Saddam virti ekki vopnahlésskilmála þá sem hann undirgekkst eftir að hernámsliði hans var stökkt frá Kúveit. Þar að baki bjuggu margvísleg rök önnur, en á endanum snerist um hættuna af Saddam og hvort öðum bæri að gera eitthvað í henni.

Það sem eftir stendur — og er miklu athyglisverðara umræðuefni — er það hversu ótrúlega Saddam varð ágengt við að spilla alþjóðasamfélaginu, hvernig hin og þessi ríki létu eins og leppar hans og hvernig ótrúlegasta fólk er enn upptekið við að láta eins og heimurinn væri betri heimur er Saddam og böðlar hans hefðu bara verið látnir í friði.