6.10.04

DV í sjálfsmorðshug?

Er ég einn um að klóra mér í hausnum þegar DV dettur inn um lúguna?

Ég skal taka fram að ég hef aldrei verið mjög hrifinn af DV sem miðli, ekki einu sinni meðan ég vann þar eitt sumar. En það hefur aldrei verið nándarinnar jafnlélegt og nú. Blaðið er komið út í jaðar fjölmiðlunar, uppfullt af furðufréttum og fréttleysum, misillauppdiktuðum.

Um daginn skrifaði Jakob Bjarnar (afar fyndna raunar) grein um það hvernig Tvíhöfði hefur gabbað nígerískan svikahrapp sundur og saman í beini útsendingu. Hið skrýtna er að minn góði vinur Jakob hefur sem blaðamaður DV tekið þátt í gabbinu og fjallar svo um það. Það er tæpast í samræmi við siðareglur, en gott og vel, skaðinn er hverfandi... nema fyrir DV því lesendur hljóta að spyrja sig hvort blaðið og blaðamenn þess taki sig ekki alvarlegar en þetta.

Svo sér maður fullkomna skáldfrétt um það að Björgólfur Thor Björgólfsson eigi að hafa nefnt ýmis fyrirtæki sín eftir hinum og þessum klámstjörnum. Svo eru nefnd dæmi en eins og kunnugt er leika flestar slíkar leikkonur í skjóli sviðsnafna. Og allar þær sem DV telur upp heita nöfnum úr steinaríkinu á borð við Topaz, Amber og Carrera ef ég man þetta rétt. Hvort skyldi nú vera líklegra, að Bjöggi þræði klámstjörnuregistrið í leit að fyrirtækjanöfnum eða náttúrufræðina? Og þrátt fyrir að þessari skýringu blaðsins sé hafnað með furðusvip af þeim, sem gerst ættu til að þekkja, er „fréttin“ samt burðargrein á innsíðu. Það er kannski ekkert að svona fáfengilegum og innistæðulausum vangaveltum, en tæpast eru þær til þess fallnar að auka trúverðugleika blaðsins. Má DV við því?

Steininn tók þó úr þegar á forsíðu er vísað til einkar ógeðfelldrar umgengni ógæfumanns á Suðurlandi við ferfætlinga, sem svo er tíunduð með flennimynd, lýsinga og viðtals inni í blaði. Ég fæ ekki af mér að lýsa þessu nánar hér, en þegar þessi sóðaskapur vall inn um lúguna hjá okkur hjónunum vildi maður helst ekki snerta á blaðinu og þakkaði fyrir að heimasætan er ekki læs ennþá. Þegar gesti bar að garði földum við blaðið. Það fór svo út í tunnu við fyrstu hentugleika.

Ritstjórar DV halda kannski að þeir séu að upplýsa lesendur sína um skuggahliðar mannlífsins eða eitthvað ámóta, en blaðið var í raun að sökkva niður á sama plan og umfjöllunarefnið. Allt sem vel kann að vera gert í DV fellur í skuggann af ógeðinu.

En það skrýtna er að ég er ekki áskrifandi að DV heldur er því dreift til okkar í óumbeðinni kynningaráskrift og sama dag og þessi ófögnuður var í blaðinu fylgdi seðill þar sem boðað var að áskriftardeildin myndi hringja í okkur innan skamms. Hvað ætli áskriftardeildin fái mikið af jákvæðum viðtökum þegar forsíðan er útbíuð á þennan hátt?

Þetta er ekki bara ógeðfellt heldur einkar heimskulegt líka. Nema það skipti eigendurna alls engu máli hvort blaðið seljist eða ekki.

Skástu hliðar DV eru upphitaðar hugmyndir, sem Gunnar Smári notaði með góðum árangri í Pressunni, Eintaki, Morgunpóstinum og Fókus hér áður fyrr. En væri ekki ráð að læra af mistökum Smára líka? Þegar við hófum útgáfu á vikublaðinu Eintaki vorum við næstum því búnir að drepa blaðið í öðru tölublaði með forsíðuumfjöllun um götun mannslíkams á sérkennilegustu stöðum. Forsíðan var engan veginn pornógrafísk en fólk gat samt ekki hugsað sér að hafa hana uppi við, hvað þá þar sem börn gætu gengið fram á hana. Við lærðum okkar lexíu þá, en Smári virðist hafa gleymt að segja Illuga og Mikka frá því.

Mér finnst DV ekki hafa slípast til frá því að núverandi eigendur sölsuðu það undir sig. Þvert á móti finnst mér það hafa versnað, bæði að efni og uppbyggingu. Og það fer hríðversnandi þessa dagana. Manni skilst að salan sé léleg og það er eins og það sé komin einhver örvænting í efnistökin. Þegar svona subbuskapur kórónar hauginn er erfitt að verjast þeirri hugsun að blaðið sé að fremja hægt og kvalafullt sjálfsmorð.