8.10.04

Leyniformúlan

Ég þykist vera nokkuð lunkinn í eldhúsinu og sé raunar að mestu um eldamennskuna á heimilinu. Þessa leikni þakka ég móður minni Áslaugu Ragnars, sem meðal annars hefur sér til frægðar unnið að skrifa hina góðkunnu matreiðslubók Maturinn hennar mömmu (í eintakið mitt skrifaði hún að bókin hefði verið skrifuð fyrir mig!), og síðan hinum góðkunna athafnamanni og menningarvita Ásgeiri Þór Davíðssyni, en hann ól mig upp í messum Landhelgisgæslunnar á unglingsárum og kenndi mér öll helstu trixin.

En ég ætlaði nú ekki að mæra mig eða leiðbeinendur mína í matargerðarlist, heldur fremur að benda fólki á alveg dýrðlega sósu, sem mér finnst ómissandi í hvert eldhús. Þetta er ostrusósan frá Blue Dragon. Hana má svo sem nota eintóma út á hrísgrjón líkt og sojasósu, en mér finnst hún miklu heilladrýgri í almenna sósugerð. Þó ostrusósan sé kantónsk að uppruna er algerlega ástæðulaust að nota hana aðeins í austurlenska matargerð. Ég nota slettu af henni í venjulega brúnsósu, pottrétti og hvaðeina. Það þarf ekki mikið af henni til þess að gefa þetta aukalega „je ne sais quoi", sem hæglega skilur milli feigs og ófeigs í eldamennskunni. Og hún er ekki mjög bragðsterk heldur, þannig að það þarf ekki að óttast að hún yfirgnævi uppistöðuna.