8.10.04

Google leitar í bókum

Ég er ekki frá því að Google sé besta græjan, sem vefurinn hefur fært okkur. Það segir sína sögu að hin nýja enska sögn hefur verið tekin upp í íslensku líka: menn gúggla hitt og þetta. Og ef eitthvað finnst ekki með Google er það tæpast þess virði að vita.

Forsvarsmenn Google kynntu það á bókamessunni í Frankfurt að innan skamms verði líka hægt að leita í bókum á vefnum og mun þjónustan heita Google Print. Þeir hyggjast skima inn hundruð þúsunda bóka í samstarfi við bókaútgefendur, tölvutaka textann og gefa almenningi kost á að leita í bókunum. Svo verður unnt að sjá viðkomandi síðu og eitthvað fyrir framan og aftan. Til hægðarauka verða svo slóðir til netbókabúða eins og Amazon þannig að menn geti fest kaup á þeim. Google ætlar ekki að gerast bóksali. Það, sem kynni þó að setja strik í reikninginn, er að einnig er mögulegt að smella á útgefandann og kaupa beint af honum. Sjáum til hvaða áhrif það hefur. Nú er það svo að það hefur um nokkurt skeið verið unnt að leita í innihaldi bóka á Amazon, en úrvalið hefur verið fremur takmarkað til þessa. Google á eftir breyta því. Fyrir fróðleiksfúsa netverja verður það alger himnasending.