9.10.04

Rónar í Reykjavík

Ég var að ganga eftir Austurstræti nú á laugardagseftirmiðdegi og eins og vanalega var varla sála á ferli í bænum. Sýndist samt vera sæmilegt að gera á kaffihúsunum. En síðan gekk ég framhjá Kaffi Austurstræti og þar fyrir utan var þröng af ógæfufólki að rífast heiftúðlega um einhverja óskiljanlega hluti, sem engir nema rónar rífast um. Aldursbilið var breitt, en kynslóðabilið algerlega brúað af áfengissýki og slæmum tönnum.

Svona er þetta oftar en ekki í kringum þessa búllu. Á fallegum sumardögum var ástandið Vallarstrætismegin og út á Austurvöll alveg óþolandi þar sem þessir þrælar Bakkusar veltust um í áflogum og rugli. Hvernig var það, var það ekki ein helsta uppgefna ástæðan fyrir því að Reykjavíkurborg lagði nektarbúllurnar í einelti um árið, að þær sköðuðu ímynd miðbæjarins? Ég fæ ekki séð að ástandið — nú eða ímyndin — hafi neitt skánað. Síður en svo. En hin sorglega staðreynd er sú að borgaryfirvöld hafa afar takmarkaðan áhuga á miðbænum og virðast raunar gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að gera miðbæinn að auðn. Ég ætti kannski að stinga því að Björgólfi að kaupa Austurstræti 6 og gera eitthvað skemmtilegt úr því.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Viltu að þeir komi ekki nær 101 en að Hlemmi?

20:34  

Ritaðu athugasemd við athugasemdir...

<< Heim