9.10.04

Nýtt og betra dót

Ég er farinn að finna fyrir því að tölvan mín er komin til ára sinna. Ég er með 500MHz G4 vél og hún er að verða fimm ára gömul. Á sínum tíma var þetta fínasta vélin frá Apple og hún dugar svo sem enn í flesta venjulega vinnslu. En ég finn hvernig hún er að sligast í sumum verkefnum og er farinn að haga vinnunni eftir því hvað ég nenni að leggja á greyið. Þannig á það auðvitað ekki að vera, verkfærin eiga að vera sniðin að verkunum en ekki öfugt.

Þannig að ég er farinn að horfa í kringum mig eftir nýrri vél (og farinn að hugsa um hvernig ég get notað þá gömlu til annarra þarfa). Þetta er erfitt val.

Helst af öllu vildi ég vökvakælda G5 PowerBook frá Apple, en gallinn er sá að hún er því miður ekki ennþá til. Og ég veit ekki hvort ég hef tíma til þess að bíða þangað til næsta sumars þegar von er á slíkri græju. Hún myndi henta mér fullkomlega, ég væri þá með færanlega tölvu sem ég gæti notað jöfnum höndum í vinnunni, heima eða hvar annars staðar sem mér hentaði. Það er líka hluti vandans, að mig vantar vél heima, en ef mér tekst ekki að finna lausn á því innan tíðar á konan eftir að setja upp Wintel-kassa, sem hún á einhversstaðar í fórum sínum.

Hugsanlega leysi ég vandann í bili með því að koma mér upp nýja iMakkanum heima. Þetta er sjálfsagt snotrasta tölva heims, en kramið er ekkert til þess að skammast sín fyrir. Það er sæmilega sprækur G5 örgjörvi í henni og annað það helsta, sem nútímatölvu má prýða. Aðalkosturinn er þó hversu lítið fer fyrir henni, hún er lítið meira en skjárinn. Það er hægt að hafa hana á borði, en svo má líka hengja hana upp á vegg. Þá er tilvalið að hafa blátannar-lyklaborð og mús við hana og þá er rafmagnssnúran eina snúran í spilinu (netið fer vitaskuld um Airport), Ef ég ætti pening myndi ég sjálfsagt kaupa 2-3 slíkar, eina í eldhúsið, aðra í svefnherbergið og eina inn til stelpnanna. En því ríkidæmi er nú ekki að heilsa að sinni, allir aurar fara í dyrakarma, málningu og þess háttar.

Það breytir ekki því að mig er sárlega farið að skorta nýrri og betri vél í vinnuna. Þá kemur ekkert til greina nema tveggja örgjörva G5 á harðaspretti. Hún þarf líka að vera með alvöru skjákorti. Ég á raunar mjög fínan skjá, sem mun endast vel enn um sinn, en stundum sakna ég þess að hafa ekki tvo skjái eins og ég vandist við á Mogganum í den. Kannski maður bæti úr því. En það er fleira, sem þarf að huga að. Diskapláss er eitt, manni dugir lítið minna en 200Gb diskur, en svo eru öryggisafritin annar handleggur. Ég hef trassað þau alltof mikið og tek ekki regluleg afrit nema af hinu allra nauðsynlegasta. Ef vel ætti að vera þyrfti maður að spegla diskinn og taka mánaðarleg heildarafrit auk daglegra viðaukaafrita. Sjáum til.

Þarf maður meira dót? Tja, fartölvuvöntun mín er enn óleyst. Ég get ekki heldur neitað því að mig langar ægilega mikið í iPod. Eins þarf ég að fara að huga að nýjum síma og sá þarf að geta talað við tölvuna mína. Þar koma SonyEricsson símarnir sterkir inn. P910i er góður sími þó hann sé eilítið klunnalegur. Bróðir minn á einn slíkan og ég hef prófað hann og líkaði vel við flest. Notandaskilin eru þó fullmikið í stíl við ytra útlit.