17.10.04

Kannanir Kananna

Hið ágæta breska tímarit The Economist fjallar um bandarísku kosningarnar frá eilítið öðru sjónarhorni en maður hefur séð annars staðar. Í Lexington-grein síðasta tölublaðs er bent á hversu ólík vígstaða demókrata og repúblikana sé. Kerry sé frambjóðandi flokks í hnignun (og þá er átt við flokksskipulagið fremur en stefnumál) á meðan Bush hafi lagt á það mikið kapp — og haft árangur sem erfiði. En stefnan þvælist líka fyrir Kerry að sögn blaðsins, því hún liggur ekkert fyrir þó hann kveðist hafa plön um alla skapaða hluti.
These differences in momentum and organisation make a bigger point: the Republicans have more to gain from a victory in November. Because the election is largely a referendum on Mr Bush, he can claim, if he wins, a clear mandate for his policies—particularly cutting taxes at home and smiting terrorists abroad. If Mr Kerry wins, the only mandate he will have will be for not being George Bush.
Skynji kjósendur þetta í einhverjum mæli er Kerry í miklum vanda. Vangaveltur mínar um að meintir sigrar Kerrys í kappræðum myndu lítt skila sér í könnunum (og þá líklega í kjörkassa) virðast hafa ræst ef marka má kannanir Gallup fyrir CNN.
Sumir hafa bent á að innbyggð skekkja kunni að vera í úrtaki Gallup þannig að halli á demókrata. Ég þekki ekki hvernig liggur í því, en bendi mönnum á að athuga RealClearPolitics en þar er alls kyns könnunum haldið til haga. Þegar litið er á þróunina undanfarna mánuði á línuritinu að neðan tekur maður fyrst eftir því hvað sveiflurnar eru miklar og maður á bágt með að trúa því að skoðanir almennings hafi sveiflast svo ört í vor og snemmsumars. Þarna eru hins vegar fyrst og fremst á ferðinni sveiflur milli úrtaka og rétt að hafa í huga að þær eru innan vikmarkanna ±4%. Í ágústbyrjun var flokksþing demókrata og þá jókst fylgi Kerrys verulega, en það gerði fylgi Bush líka og demókratar græddu miklu minna á þinginu en þeir stefndu að.

En hvað gerðist í september? Á maður að trúa því að repúblikanar hafi staðið sig svona miklu betur á sínu flokksþingi? Og síðan klúðrað því í lok mánaðarins? Svona veigamikil breyting á að vekja grunsemdir hjá manni og kannski ekki síður þegar litið er til þess að samhengi er milli niðurstaða í lok ágúst og byrjun október ef litið er framhjá september. Hugsanleg skýring á þessu er að kjósendur vestra þurfa að skrá sig og flestir skrá sig sem stuðningsmann annars hvors stóru flokkanna. Þegar verið er að smíða úrtök „líklegra kjósenda“ þurfa könnuðurnir því að reyna að finna „rétt“ hlutföll repúblikana og demókrata í bland við óháða. Það getur ráðið miklu um niðurstöðurnar eitt og sér, en einnig ýkt lítilvægar sveiflur verulega. Mig grunar að menn hafi undrast hvað flokksþingskippurinn hjá Kerry hafi verið lítill og stuttur og freistast til þess að eiga við úrtökin til þess að endurspegla kippinn eftir repúblikanaþingið betur. Það gekk hins vegar allt of vel með þeim afleiðingum að niðurstöðurnar voru bara grunsamlegar. Svo þeir hafa núllstillt aftur.

En ef menn líta framhjá þessum skrýtna september, reyna að útiloka „suðið“, taka tillit til vikmarka og reyna svo að draga sem einfaldasta línu fyrir hvorn frambjóðanda má vissulega greina ákveðna þróun, sem gefur til kynna að fylgi þeirra félaga hafi verið jafnt í mars, Kerry svo siglt fram úr Bush en komist á sléttu, sem hann hefur haldið sig á og jafnvel dalað eilítið. Bush hafi hins vegar sótt í sig veðrið eftir verulega lægð í maí og farið aftur fram úr Kerry þegar áhrifa flokksþings demókrata hætti að gæta.



Á hinn bóginn er rétt að ítreka að slíkar kannanir eiga ekki endilega við í einstökum ríkjum og vegna kjörmannakerfisins kunna afar litlar sveiflur í ríkjum á borð við Wisconsin, Iowa og Flórídu að ráða baggamuninn. Sá meðbyr, sem Kerry þó fékk í kappræðunum, er nú þorrinn. Á næstu tæpum tveimur vikum munu kosningamaskínurnar ráða úrslitunum og fáir efast um að þar séu repúblikanar með mun betra lið.