14.10.04

Kappræðurnar 0-0

Ég veit ekki hvort að síðustu kappræðurnar skipta nokkru máli. Manni skilst að John Kerry hafi unnið þær tvær fyrri, en samt hefur honum afar lítið gengið að saxa á forskot George Bush. Og nú eru þrjár vikur eftir.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að kappræðurnar hafa hjálpað Kerry verulega, fyrst og fremst með því að sannfæra bandarískan almenning um að hann sé nægilega forsetalegur. En honum hefur aldrei tekist að slá í gegn í kappræðunum. Forsetanum raunar tæpast heldur ef frá eru talin alþýðleg tilsvör og skopskyn. En Bush hefur aldrei haft orð á sér fyrir að vera neinn ræðusnillingur, þannig að væntingarnar voru takmarkaðar líka og ljóst að stuðningsmenn hans og kjósendur hrífast af einhverjum öðrum eiginleikum hans. Kerry er á hinn bóginn mun fágaðri ræðumaður en varla neinn Demosþenes heldur.

Munurinn er sá að Bush þurfti bara að komast hjá niðurlægingu í kappæðunum en Kerry þurfti að sýna algera yfirburði og finna eitthvert töframóment. Bush tókst ætlunarverk sitt og gott betur, hann var alveg fyllilega frambærilegur og miklu betri í að ná persónulegu sambandi við áhorfendur. Kerry tókst á hinn bóginn ekki að gera nein kraftaverk og hætti meira til þess að fara með rulluna likt og honum sjálfum væri farið að leiðast klisjurnar.

Þess vegna fellst ég ekki á að Kerry hafi „unnið“ kappræðurnar 3-0 líkt og spunameistarar demókrata vilja halda fram. Mér finnst nær að setja það fram með þeim hætti að áskorandanum hafi aldrei tekist að koma rothöggi á þungavigtarmeistarann og stigin hafi fallið hnífjafnt. Staðan er því 0-0 og það þýðir að meistarinn heldur beltinu.

Flatneskjulegar líkingar sem þessar duga þó skammt. Sem fyrr segir eru þrjár vikur eftir og allt getur gerst. Tilfinning mín er þó sú að eitthvað óvænt þurfi að gerast til þess að Bush haldi ekki naumum meirihluta sínum. Flest óvænt atvik utan kosningabaráttunar eru hins vegar fremur til þess fallin að auka forskot forsetans. Og ef maður ber saman kosningastjórnir kandídatanna sýnist manni að Bush hafi mun flinkari menn í vinnu hjá sér. Það sakar ekki heldur að Rudy Giuliani hefur beitt sér æ meira í kosningabaráttunni undanfarnar vikur og menn ættu ekki að vanmeta persónulegar vinsældir hans.

Hvað getur þá breytt stöðunni Kerry í vil? Að mínu viti er þrennt helst að nefna:
  • Þorri nýskráðra kjósenda reynist halla sér að Kerry
  • Spillingarhneyksli
  • Stórfengleg hryðjuverk
Af þessu finnst mér hið fyrsta sennilegast. Spillingarhneyksli er afar ósennilegt (nóg hafa menn snuðrað í kringum Halliburton og allt það) enda væri það sjálfsagt alltof seint fram komið úr þessu. Stórfengleg hryðjuverk vonar maður vitaskuld að verði ekki framin, en þau geta átt sér stað. Þá er spurningin hvað gerist. Annars vegar geta menn hugsað sem svo, að allar þessar ráðstafanir Bush hafi komið fyrir ekki, en það getur eins farið á hinn veginn, að menn verði enn ákveðnari að halda settri stefnu. Ég hef frekar trú á því. Bandarískur þjóðarkarakter er lítt fyrir að láta ógna sér til einhvers.

Sjáum til. Þetta verða örugglega ekki síðustu athugasemdirnar um kosningarnar vestra.