13.10.04

Þjóðin talar?

Ég sé það á fréttavef Morgunblaðsins að Þjóðarhreyfingin — hvorki meira né minna — hafi sent frá sér ályktun, þar sem þess er krafist í nafni þjóðarinnar að Ísland verði tekið af lista hinna staðföstu þjóða, sem stóðu með Bandaríkjunum að því að koma Saddam Hussein frá völdum, og að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson segi af sér í þokkabót. Undir þessa ályktun skrifa svo þeir Hans Kristján Árnason og Ólafur Hannibalsson, sem eru vitaskuld ekki nema lítill hluti þjóðarinnar. Ég veit ekki um aðra landa mína, en ég kæri mig ekki um að þessir karlar tali í mínu nafni eða þjóðarinnar. Nú eru þeir Hosi og Óli Hann gamansamir menn, en gátu þeir virkilega ekki valið sér betri tíma en þegar verið er að upplýsa um fund fjöldagrafa í Írak?