27.10.04

Fréttaflutningur af könnunum

Núna er kosningabaráttan í Bandaríkjunum á síðustu metrunum og allt á suðupunkti. Það stefnir í afar tvísýnar kosningar og sumir óttast sams konar vandræðastöðu og 2000 þegar talið verður upp úr kössunum. Við skulum vona ekki. Ég verð hins vegar að lýsa yfir vonbrigðum með umfjöllun flestra fjölmiðla hér heima (og margra erlendis raunar líka) um kosningabaráttuna. Dag eftir dag þarf maður að lesa eða hlusta á eitthvert raus um skoðanakannanir í Bandaríkjum þar sem George W. Bush er sagður halda naumu forskoti sínu eða að John F. Kerry sé að sækja í sig veðrið og að nú sé allt að breytast. Þetta er tómt bull.

Kosningafyrirkomulagið vestra gerir það nefnilega að verkum að kannanir á landsvísu hafa afar lítið að segja, sérstaklega þegar jafnmjótt er á mununum. Afar lítil hreyfing á fylgi einstakra ríkja getur á hinn bóginn gert gæfumuninn, þar sem sigurvegari hvers ríkis hirðir (í flestum tilvikum) alla kjörmenn þess. Þær kannanir, sem nú skipta máli, eru kannanir í ríkjum á borð við Flórídu, Iowa, Nevada, New Hampshire, Ohio og Wisconsin. Ég mæli eindregið með vefjunum Real Clear Politics og Electoral Vote í þessu viðfangi, en þar er haldið utan um kannanir um gervöll Bandaríkin, þær teknar sama og einnig er hægt að sækja gögnin í Excel-skjölum ef menn vilja hræra í þeim sjálfir.

Fyrir utan þetta grundvallaratriði finnst mér oft gæta óskhyggju hjá sumum fjölmiðlum þegar rýnt er í kannanir, sem gefur til kynna að meint hlutleysi risti grynnra en þeir vilja vera láta. Þetta kann að stýrast af því að fjölmiðlamenn hvarvetna á Vesturlöndum eru mun vinstrisinnaðri en almenningur, en einnig er rétt að hafa í huga að evrópskir fréttaritarar í Bandaríkjunum eru langflestir staðsettir í New York eða Washington DC, en þær borgir endurspegla engan veginn bandarísk stjórnmálaviðhorf almennt. Oftar finnst mér þó aðalgallinn á fréttaflutningi þessum vera sá að menn virðast einfaldlega ekki kunna að lesa í kannanir.
  • Þegar tveir keppa að sama embætti og annar gegnir því fyrir er fráleitt að gera ráð fyrir að óákveðnir skiptist líkt og gerist meðal hinna, sem hafa tekið afstöðu. Ef mönnum hefur ekki dugað fjögurra ára forsetatíð til þess að gera upp hug sinn til George W. Bush er næsta víst að atkvæði þeirra falli öðrum í skaut... ef þeir á annað borð kjósa. Að því leyti er stuðningur við Kerry örugglega vanætlaður.
  • Kannanirnar byggjast flestar á úrtaki „líklegra kjósenda“. Samsetning slíkra úrtaka er á hinn bóginn afar erfið og sjálfsagt aldrei erfiðari en nú þegar nýskráning kjósenda er sú langmesta í sögunni. Mismunandi aðferðir við úrtaksgerðina skýra að miklu leyti verulegan mun á einstökum könnunum, sem gerðar eru samtímis á sömu svæðum.
  • Fólk segir ekki alltaf satt eða allt af létta í könnunum. Þetta sjá menn t.d. reglulega þegar fólk er spurt hvað það hafi kosið í síðustu kosningum og niðurstöðurnar benda ávallt og undantekningarlaust til þess að sigurvegarar kosninganna hafi sigrað með miklu meiri mun en raunin var. Á sama hátt hneigist margt fólk til þess að svara ekki eða segjast vera óákveðið ef það telur sig vera í minnihluta eða eiga undir högg að sækja á einhvern hátt. Þýski stjórnmálafræðingurinn dr. Elisabeth Noelle-Neumann reifaði þessa kenningu sína í bókinni Spiral of Silence. Til þess að sneiða hjá þessari hneigð mætti t.d. spyrja fólk um það hvor frambjóðandinn muni hafa sigur, burtséð frá eigin skoðunum, en rannsóknir dr. Noelle-Neumann benda til mikillar fylgni milli slíkra „spádóma“ og endanlegrar niðurstöðu.
Það er svo rétt að hafa í huga að þessar athugasemdir má vel heimfæra á íslenskar aðstæður. Í sömu röð:
  • Skoðanakannanir á landsvísu hafa takmarkað spágildi eftir því sem kjördæmakerfið er flóknara, ekki síst þegar mikill munur er á vægi atkvæða. Þetta sáu menn vel í þarsíðustu þingkosningum þegar frjálslyndir komust varla á blað í landskönnunum en afstaða Vestfirðinga var á allt annan veg en landsmanna í heild.
  • Þó að hér sé ekki tveggja flokka kerfi má alveg beita sömu reglu á ríkisstjórnir þegar kemur að óákveðnum. Þeir sem segjast óákveðnir í afstöðu sinni til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir allan þennan tíma eru sjálfsagt aðeins óákveðnir í því hvern stjórnarandstöðuflokkinn þeir hyggist kjósa. Þessara áhrifa gætir sjálfsagt meira gagnvart forystuflokki ríkisstjórnar en öðrum.
  • Hér á landi tíðkast nær einvörðungu að nota slembiúrtak, sem oftast gefur nokkuð góða mynd af afstöðu til stjórnmálaflokka, m.a. vegna mikillar kosningaþátttöku. Hið sama þarf hins vegar ekki að vera upp á teningnum þegar könnuð er afstaða til einstakra mála nema menn hafi fyrir því að framreikna niðurstöðurnar að teknu tilliti til kyns, búsetu, menntunar og fleira. Þetta hefur verið gert í einhverjum mæli af stjórnmálaflokkunum, en mér vitanlega hafa skoðanakannanafyrirtækin alveg látið það eiga sig.
  • Kenning dr. Noelle-Neumann birtist sjálfsagt skýrast hér á landi þegar litið er á frammistöðu Framsóknarflokks í kosningum, sem jafnan er langt umfram það sem ætla mátti af skoðanakönnunum.
Kannski er það bara leti fremur en fávísi sem ræður því að á okkur dynja þessar fréttleysur, sem engu skipta. Hið skrýtna er að þetta eru nákvæmlega sömu vinnubrögðin og fyrir kosningarnar 2000, en þá réðust úrslitin á örlitlum atkvæðamun í einu ríki. Lærðu menn ekkert af því?