21.10.04

Englarnir til bjargar DV

Mér sýndist á öllu að DV væri að syngja sitt síðasta í upphafi vikunnar. Það var komið niður í 32 síður og þegar heilsíðauglýsing frá Snælandsvideói birtist á annarri auglýsingasíðu er næsta víst að endalokin eru skammt undan. Þá bregður svo við að þrír vinir Bjargar Sivjar Juhlin Friðleifsdóttur gera strandhögg á ritstjórnarskrifstofum DV, leita án árangurs að ritstjórunum, brjóta og bramla, taka fréttastjórann Reyni Traustason kverkataki og reyna loks að aka niður einn af blaðamönnum blaðsins. Þetta gefur ótvírætt til kynna að umfjöllun blaðsins um handrukkara og skyldan skríl að undanförnu hafi verið í senn réttmæt og átt við rök að styðjast. En mestu skiptir sjálfsagt fyrir DV að þessir óvinir blaðsins hafa lengt í hengingaról þess með þessum dólgshætti. Kemur vel á vonda.

En burtséð frá því er þetta auðvitað óþolandi, að einhverjir gangsterar gangi um bæinn með ofbeldi og hótunum til þess að ná sínu fram. Að fjölmiðlar búi við slíkar ógnir gerir málið enn alvarlegra.

Svo hjó ég eftir einu í viðbót. Í DV í dag kemur fram að lögregluþjónn nokkur hafi fengið hótanir um að börnum hans yrði unnið mein af misyndismönnum, en hann ekki þorað að kæra. Það var og. Það er vitaskuld grafalvarlegt mál ef fulltrúum valdstjórnarinnar er hótað með þeim hætti, en hitt finnst mér þó enn alvarlegra að lögregluþjónninn skuli ekki þora að kæra. Það vekur ekki traust á lögreglunni eða hvatningu yfirmanna þeirra til almennings um að kæra dóna af þessu tagi. Þessi maður getur ekki verið lögregluþjónn ef hann kýs að láta menn komast upp með slíka hegðan. Hann ætti að sjá sóma sinn í að segja upp, en ef hann gerir það ekki verður lögreglustjóri að segja honum upp. Það er ekki hægt að líða það að menn, sem þola órétt glæpamanna, sé treyst til þess að halda uppi lögum og reglu í þjónustu almennings.