28.10.04

Tjáningarfrelsið, bloggar og fjölmiðlar

Menn hafa nokkuð rætt um það framtak Björns Tómasar Sigurðssonar að setja lista yfir meinta eiturlyfjasala inn á netið og sýnist sitt hverjum. Sumum finnst að með þessu sé hann að taka lögin í sínar eigin hendur, aðrir að birting þessi skarist við lög um persónuvernd og enn aðrir hér sé einfaldlega um brot á einhverri eða ýmsum greinum XXV. kafla hegningarlaganna. Svo virðist Björn sjálfur hafa talið að með því að nota erlent lén og vefþjón á erlendri grundu væri hann utan íslenskrar lögsögu, sem er ekki raunin (en sú dagskrá öll er efni í aðra umræðu).

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins þriðjudaginn 19. október var um þetta fjallað og meðal gesta var lögmaðurinn Hlynur Halldórsson, sem hefur tölvu-, upplýsinga- og fjarskiptalög að sérgrein. Hann taldi ótvírætt að skrá þessi væri brot á persónuverndarlögum og við yfirlestur þeirra er ég ekki frá því að hann kunni strangt til tekið að hafa rétt fyrir sér. En það sýnir kannski fremur en annað hvað persónuverndarlögin eru meingölluð og ég leyfi mér að efast um að þau standist mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eða sáttmála þá sem Íslendingar hafa undirgengist.

Raunar er það þannig að við samningu laganna gerðu menn sér grein fyrir þessu og því er tekið fram í 5. grein að „þegar persónuupplýsingar [séu] einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi“ gildi aðeins sum ákvæði laganna. Hlynur virtist hins vegar ekki telja að bloggsíða Björns væri þess eðlis. Ég tel að það sé fráleitt að tjáningarfrelsið skuli aðeins varið fyrir persónuverndarlögunum ef í húfi eru ofangreind skilyrði og þá því aðeins að efnið sé unnið með sanngjörnum og málefnalegum hætti. Ef það væri nákvæmlega þannig er hætt við að stór hluti nauðsynlegrar, og lýðræðislegrar pólitískrar umræðu bryti í bága við lögin. Mætti ég — ef marka má lögin og þessa túlkun þeirra — birta lista yfir þingmenn ásamt tölfræði um hvernig þeir hafa hagað atkvæðum sínum í tilteknum málum? Skrá yfir rithöfunda ásamt opinberum styrkjum til þeirra og sölutölur? Bestu fótboltamenn landsins að mínu viti, nú eða þá verstu? Sjálfsagt ekki, því listi Björns er aðeins skrá yfir fólk — án nákvæmrar auðkenningar — sem hann telur að stundi ólöglegt eða siðlaust athæfi. Í birtingunni kunna sjálfsagt að felast saknæmar aðdróttanir, en ég fæ á engan hátt séð að hún brjóti í bága við Persónuverndarlög. Hugsanlega mætti segja sem svo að val manna á starfi varði engan annan og ætti að njóta friðhelgi einkalífs, en ávirðingar um brot manna á samfélagssáttmálanum — lögunum — varða ekki þá eina. Lögbrot af því taginu varða almannahagsmuni eins og best sést á því að ákæruvaldinu er gert að sækja slík mál í nafni þjóðarinnar.

En látum það vera að sinni og hugum aftur að Persónuverndarlögunum og hvernig þau kunna að skarast við tjáningarfrelsið. Hvernig má það vera að stjórnarskrárbundið tjáningarfrelsi skal víkja nema þegar það er gert „í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi“? Lögin skulu sumsé gilda nema menn séu blaða- eða listamenn. Hvað með stjórnarskrárgreinina þar sem segir:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Ég á bágt með að trúa því, að það hafi verið ætlan löggjafans að takmarka tjáningarfrelsið nema fyrir tilteknar stéttir, en það kynni nú samt að vera niðurstaðan. Að undanförnu hafa þær raddir gerst háværari, sem segja að blaða- og fréttamennska þurfi að öðlast sérstaka lögvernd sem starfsgrein. Mér finnst það reyndar í meira lagi idíótísk hugmynd, en það er efni í aðrar athugasemdir. En ef menn fara út í eitthvað slíkt, þarf þá ekki að gera einhverjar kröfur til þess að menn komist inn í stéttina? Og er þá langt í að menn þurfi að sækja um leyfi hjá hinu opinbera eða einhvers apparats til þess að njóta sæmilegs tjáningarfrelsis? Ég óttast það.

En síðan má auðvitað halda hinu fram, sem mér sýnist fæstir hafa leitt hugann að, en ég heyrði ekki betur en að Hlynur féllist ekki á: Bloggar eru fjölmiðlar. Vefir eru fjölmiðlar. Vestanhafs hefur átt sér lærð umræða um blogga og hefðbundna fjölmiðla. Hinir hefðbundnu fjölmiðlar hafa haft fremur litið álit á bloggum og ámóta fjölmiðlum og bent á að þeir fylgi engum siðareglum, hafi enga hefð að byggja á, hlutleysi sé sjaldnast gætt og áreiðanleikinn sé afar lítill. Sú gagnrýni á vissulega við um marga blogga, en alls ekki alla og síst hina vinsælustu. Og það er kannski einmitt þess vegna, sem þeir eru vinsælir. En þessi gagnrýni hittir hina hefðbundnu fjölmiðla ekki síður fyrir. Virðulegir fjölmiðlar eins og New York Times hafa orðið uppvisir að ritstuldi og fréttafölsunum, hlutleysi hefðbundinna fjölmiðla er bara svona og svona (eins og menn hafa séð í kosningabaráttunni) og áreiðanleiki blogga rétt eins og annara fjölmiðla er áunninn og það þarf ekki mikið til þess að glata honum.

Bloggar hafa hins vegar margt umfram hefðbundna fjölmiðla. Blaðamenn við hefðbundna fjölmiðla verða að vera dílettantar: þeir þurfa að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar, en á sama tíma eru þeir sjaldnast sérfræðingar í neinu. Og þannig þarf það að vera. En það vill svo til að allir bloggarar eru sérfræðingar í einhverju. Megnið af því er frekar fánýtt flesta daga, smáfróðleikur um Simpsons, merkjafræði eða kúluritvélar. En svo fellur Dan Rather hjá CBS fyrir fölsunum af því hann vill trúa þeim og hvað þá? Hefðbundnu fjölmiðlarnir voru 4-7 daga að komast til botns í málinu og engin lengur en CBS. Á hinn bóginn voru bloggarar og þátttakendur vefspjalla aðeins nokkrar klukkustundir að sjá í gegnum falsanirnar og færa rök fyrir ályktun sinni. Allt í einu varð kúluritvélanördinn annað og meira en náungi með sérkennilegt áhugamál.

Enn sem komið er hafa bloggar ekki velt upp mikið af nýjum fréttum (Mónikuskúbb Matt Drudge er helsta undantekningin), en á hinn bóginn eiga þeir glæsilegan feril við að koma auga á villur, rangfærslur og rugl í hefðbundnu fjölmiðlunum. Það er sagt að fjölmiðlar séu varðmenn lýðræðisins og með bloggunum er þá a.m.k. fundið svar við spurningunni „qui custodiet ipsos custodes?“

En fjölmiðlar þurfa ekki að skúbba stórtíðindum daglega til þess að réttlæta tilveru sína. Víkurfréttir eiga engu minna tilkall til þess að heita fjölmiðill en Morgunblaðið. Eða fréttabréf Myntsafnarafélagsins ef því er að skipta.

Tjáningarfrelsið er varið í stjórnarskrám og mannréttindasáttmálum til þess að veita vondum, röngum og óvinsælum skoðunum skjól. Af því að það eru þær sem þurfa á vernd að halda. Það er nefnilega einskis virði að láta tjáningarfrelsið aðeins ná til góðra, réttra og vinsælla skoðana. Og alveg eins og við eigum að standa dyggan vörð um það að koma megi hvers kyns skoðunum á framfæri, eigum við ekki að fara að flokka þær eftir því hver flytur þær: löggiltur fjölmiðill eða netverji á náttfötunum.