17.7.06

Solla stirða býður uppi dans

Margrét S. Björnsdóttir, ein nánasta samverkakona Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, ritar grein í Morgunblaðið á laugardag, sem fær heiðurssess á miðopnu blaðsins, þrátt fyrir að vera margfalt lengri en reglur þess um aðsent efni segja fyrir um. Þar fjallar Margrét um pólitískt erindi Samfylkingarinnar og samstarfskosti í víðu samhengi, en enginn þarf að efast um að greinin er rituð og birt með samþykki formannsins. Þar eru boðaðar ýmsar stefnubreytingar Samfylkingarinnar, en stórpólitísk tíðindi greinarinnar, sem raunar er klifað á, er að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi fullt eins til greina og hvað annað, en þar er heldur betur sveigt af fyrri leið. Má víst telja að forysta Samfylkingarinnar sé orðin taugaveikluð yfir fylgistapinu fyrst Solla stirða býður upp í dans og stígur í hægri vænginn.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Stolnir kossar

Sú saga var einu sinni sögð af Jóni Sigurðssyni forseta – sem var mikill kvennaljómi – að hann hafi komið í fínt síðdegissamsæti hér í höfuðstaðnum. Þegar hinum siðfágaða forseta Bókmenntafélagsins, sem lengst af hafði dvalið í Kaupmannahöfn, var boðið til stofu, kom á daginn að gestirnir voru allt undurfríðar reykvískar blómarósir. Jón forseti ákvað samstundis að gleyma þeim útlenda sið, að kyssa konurnar á handarbakið, og tilkynnti, að nú myndi hann kyssa að íslenskum sið; gekk svo á röðina og kyssti þær allar rembingskoss á munninn.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las um það í vikunni, að enskur prestur, síra Alan Barrett, hefði sætt svo miklu ámæli fyrir að kyssa 10 ára gamla telpu á kinnina um leið og hann afhenti henni stærðfræðiverðlaun fyrir framan bekkinn hennar, að hann var neyddur til þess að segja af sér sem skólastjórnarmaður. Það gerðist eftir að bæði lögregla og félagsmálayfirvöld höfðu rannsakað málið, yfirheyrt prestinn og aðra hlutaðeigandi til þess eins að komast að því, að ekkert ósiðlegt hefði átt sér stað.

Geistleg yfirvöld létu hafa það eftir sér að kossinn hefði verið óviðeigandi, því það sem eitt sinn hefði þótt sakleysisleg og sjálfsögð hegðan byði nú heim misskilningi og grunsemdum. Má vera, en erum við þá ekki á einhverjum fáránlegum villigötum? Er eitthvað í heiminum meira viðeigandi en að óska 10 ára gömlum telpum til hamingju með kossi á kinn?

Að ætla öðrum illt
Raunar held ég að hér á Íslandi sé púritanisminn og rétttrúnaðurinn ekki búinn að leiða okkur jafnlangt og frændur okkar á Englandi, en það eru ýmsar vísbendingar um að við kunnum að vera á sömu braut.

Undanfarin ár hefur óttinn við það hvernig vondir menn geta unnið börnum mein farið sívaxandi. Ástæðan er tæpast sú að slíkar meingerðir hafi færst í vöxt, en umræðan um slík voðaverk hefur á hinn bóginn komið upp á yfirborðið eftir að hafa nánast legið í þagnargildi alla tíð. Fyrir fórnarlömbin skiptir það vafalaust miklu máli að þagnarhjúpurinn var rofinn og umræðan færir líka skömmina þangað, sem hún á heima. En um leið hefur umræðan einnig reynst skaðleg þjóðfélaginu, því hún hefur alið á tortryggni í garð náungans og aukið á einangrun og ofvernd barna. Nú orðið þykir nánast ástæða til þess að efast fyrirfram um hvers kyns samneyti barna og óskyldra karla og jafnvel þeir skyldu eru ekki hafnir yfir allan vafa. Að lýsa einhverjum sem barnakarli er ekki tækt lengur og vei þeim karli, sem játar að hann hafi gaman að börnum og sæki því í þau.

Fleiri kossa, ekki færri
En þó til séu vondir menn – og konur eru líka menn – er það vondur heimur, þegar gengið er út frá því sem vísu, að hættan búi á hverju horni. Þegar börnum er kennt, að helst beri að sniðganga alla nema nánustu fjölskyldu af ótta við að í hverjum manni bærist fól, er unnið skemmdarverk á æskunni með því að innræta þeim ótta á okkar dásamlegu veröld og samferðamönnunum. Og menn skyldu ekki gleyma því að slíkar spásagnir geta uppfyllt sjálfa sig ef allir trúa þeim og sjá mögulega illvirkja í hverjum öðrum. Má ekki bregðast við ómennunum og illsku heimsins án þess að afneita kærleikanum og þeirri velvild, sem flest fólk ber til annars?

Frá öndverðu, líkt og í dag, eru kossar fyrst og fremst til merkis um vináttu og ástúð, djúpa sem grunna. Fæstir eru þeir Júdasarkossar þó þeir þekkist auðvitað. Og þó að kossar geti verið ríkur þáttur í kynferðislegum atlotum, ber það vott um sýktan huga að ætla alla kossa vera af slíkum hvötum. Heiminum veitir ekki af fleiri kossum.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Nýir Íslandsvinir

Það bætist alltaf í Íslandsvinasafnið. Nýlega var Tsvetelina Borislavova skipuð heiðurskonsúll Íslands í Búlgaríu, en hún er formaður bankaráðs EIBank í Sófíu, sem Björgólfur Thor Björgólfsson á ráðandi hlut í. Ekki er að efa að hún getur greitt götu Íslendinga þar í borg, því kærastinn hennar er Boyko Borisov, borgarstjóri Sófíu.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Vilja þeir blóð?

„Þarfir Blóðbankans verða uppfylltar“. Svo hljóðaði fyrirsögn í Morgunblaðinu á laugardag. Af hverju var ekki gengið alla leið og tilkynnt að blóði yrði úthellt?

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Klambratún og flatneskjan

Svo les klippari í sunnudagsblaði hálfsysturblaðsins, að Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar, heitir því að „Miklatún gangi í endurnýjumn lífdaga“, en samþykkt hefur verið áætlun þess efnis. Það mætti þá kannski byrja á því að kalla túnið aftur Klambratún og setja flatneskjuna Miklatún á sorphauga sögunnar.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

13.7.06

Árni Páll meldar sig

Framboðsmál flokkanna fyrir þingkosningarnar næsta vor eru mönnum nokkuð hugleikin þessa dagana, eins og stundum er um fjallað hér. Því var til dæmis velt upp að Árni Páll Árnason, lögmaður, íhugaði að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi. Nú heyrist úr fjórðungnum að hann sé búinn að ákveða að fara fram og hafi greint þingmönnum flokksins þar frá því…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Baugsmenn í vesturvíking

Yfirlýsing Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, við blaðamann Wall Street Journal um að hann vilji leita tækifæra í Vesturheimi hefur komið ýmsum á óvart. Væri enda synd að segja að Baugsmenn hafi riðið feitum hesti frá tilraunum sínum á smásölumarkaði í Bandaríkjunum, en sagan af umsvifum þeirra þar hefur enn ekki öll verið sögð. Margir íslenskir fjárfestar með Baug og Kaupþing í broddi fylkingar reyndu fyrir sér með rekstri Bill’s Dollar Stores og Bonus Dollar Stores, en á undraskömmum tíma safnaðist upp milljarðatap og gjaldþrot blasti við. Segja má að þar hafi rætt um stærsta gjaldþrotamál íslenskrar viðskiptasögu og tók Jón Ásgeir síðar svo til orða, að starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum hefði verið dýrt námskeið. Í kjölfarið sigldu heitstrengingar um að Baugur myndi einbeita sér að aukinni sókn inn á Bretlandsmarkað, en nú er greinilega komið að næsta námskeiði…

Sjálfsagt verða áherslurnar hjá Baugsmönnum aðrar að þessu sinni og til marks um það benda menn á að Jón Ásgeir Jóhannesson hyggst hafa aðsetur í New York-borg, en við fyrri tilraunir vestanhafs var áherslan lögð á Suðurríki Bandaríkjanna, þar sem lífsgæði eru með minna móti á bandarískan mælikvarða og lágvöruverðsverslanir vinsælar eftir því. Nú hyggst Jón Ásgeir hins vegar hreiðra um sig í glæsilegri eign við Gramercy Park, þar sem auðkýfingar og listamenn deila kjörum. Garðurinn sjálfur, Gramercy Park, er í eigu sjálfseignarfélags í hverfinu og þykir mikið stöðutákn að hafa lyklavöld að honum…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Stebba i herinn!

Með ólíkindum má heita að ekki hafi verið að því hugað fyrr að gæta þess við brottför varnarliðsins að minjar um veru Bandaríkjahers hér á landi séu varðveittar með viðeigandi hætti. Þykir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, hafa tekið þarft frumkvæði í þeirri umræðu. Suður með sjó hefur raunar um nokkurt skeið verið rætt um að koma þyrfti á laggirnar herminjasafni. Þeir Stefán og Friðþór Eydal, sem senn lætur af störfum sem upplýsingafulltrúi varnarliðsins, væru örugglega pottþétt tvíeyki til þess að stýra slíku safni…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Flugstöð Eiriks Haukssonar

Klippari sér að sumir hafa undrast ummæli hans í gær um Flugstöð Eiríks Haukssonar og jafnvel lesið í þau takmarkalausa aðdáun á Eiríki, sem brotist hafi fram á þessum freudíska náttkjól. Undirritaður hefur vissulega mætur á Eiríki, en með þessum orðum var einungis verið að víkja að nauðsyn þess að Íslendingar styrki tilkall sitt til Eiríks sem Norðmenn hafa á undanförnum árum reynt að eigna sér líkt og Leif forðum.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Moggi slakar á klónni

Sú var tíð á Morgunblaðinu, hálfsysturblaði Blaðsins, að þar var allt gert með hófstilltum hætti og efnistök í föstum skorðum. Moggi hefur enda ávallt tekið sjálfan sig hátíðlega og stundum hefur verið sagt að fréttastíllinn einkennist af því að verið sé að skrifa fyrir komandi kynslóðir fremur en fréttaþyrsta lesendur dagsins. Aginn náði þó ekki síður yfir aðsent efni og giltu t.d. afar stífar reglur um minningargreinar þar sem ekki mátti birta frumsaminn kveðskap og ekki ávarpa náinn, enda var viðkvæðið að þrátt fyrir mikla útbreiðslu Morgunblaðsins væri því ekki að treysta að blaðið væri lesið hinum megin, bæði í efra og neðra. Þessar reglur voru þó aflagðar fyrir nokkrum árum og blaðið hefur aflagt alls kyns kennisetningar aðrar á umliðnum árum.

Af aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær má ráða að frjálslyndið í þessum efnum sé orðið meira en nokkur hugði. Þar ritar Hreiðar Þór Sæmundsson opið bréf til Ögmundar Jónassonar vegna bréfaskrifta þingflokks vinstrigrænna til Daliu Itzik, forseta Knesset í Ísrael sem m.a. hefur verið getið í þessum dálki. Hreiðari Þór er nokkuð niðri fyrir í bréfi sínu, enda telur hann að með bréfaskriftunum séu vinstrigrænir að bera blak af hryðjuverkum Hamas. Lýkur hann máli sínu með því að skora á vinstrigræna að fá lánaða eldflaug frá Hamas, troða henni á afvikinn stað og skjóta sér á sporbraut um tunglið! Er það nú ekki til fullmikils mælst?

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

8.7.06

Vakinn upp af værum blundi

Ég sé á Orðinu á götunni að einhver hefur fundið þennan blogg einu og hálfu ári eftir að hann sofnaði svefninum langa og gestakomurnar hafa lítillega aukist í samræmi við það. Fyrir kaldhæðni örlaganna er svo síðasti pósturinn um iðni bjóra, en eins og sjá má á bloggnum er ekki iðninni fyrir að fara af hálfu undirritaðs í bloggsskrifum.

Ég veit ekki hvort ég á að láta þessa særingameistara á Orðinu vekja blogginn upp frá dauðum. Einhvernveginn held ég að ég muni ekki hafa þrótt til þess að blogga mikið hér, enda má segja að ég bloggi nægju mína á síðum Blaðsins þar sem ég skrifa jafnan slúður og vangaveltur af vettvangi fjölmiðla og stjórnmála, fyrir nú utan lengri viðhorfsgreinar og leiðara. Þarf ég að tjá mig frekar? Hef ég tíma til þess? Og er eftirspurn eftir frekari yfirlýsingum af hálfu þessa hægri kantmanns, sem ég er?

Sjáum til. Þegar mikið gengur á hef ég kannski eitthvað fram að færa og því er ekki heldur að leyna, að bloggið getur verið í senn öryggisventill og tilfinningalegt skilrúm, svo leitað sé orðfæris í smiðju valdaræningjans. En svo er kannski ástæða til þess að smeygja inn skrifum mínum í Blaðið hér líka. Vefurinn okkar er ekki beinlínis aðgengilegur eða tryggilega uppfærður.