13.7.06

Moggi slakar á klónni

Sú var tíð á Morgunblaðinu, hálfsysturblaði Blaðsins, að þar var allt gert með hófstilltum hætti og efnistök í föstum skorðum. Moggi hefur enda ávallt tekið sjálfan sig hátíðlega og stundum hefur verið sagt að fréttastíllinn einkennist af því að verið sé að skrifa fyrir komandi kynslóðir fremur en fréttaþyrsta lesendur dagsins. Aginn náði þó ekki síður yfir aðsent efni og giltu t.d. afar stífar reglur um minningargreinar þar sem ekki mátti birta frumsaminn kveðskap og ekki ávarpa náinn, enda var viðkvæðið að þrátt fyrir mikla útbreiðslu Morgunblaðsins væri því ekki að treysta að blaðið væri lesið hinum megin, bæði í efra og neðra. Þessar reglur voru þó aflagðar fyrir nokkrum árum og blaðið hefur aflagt alls kyns kennisetningar aðrar á umliðnum árum.

Af aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær má ráða að frjálslyndið í þessum efnum sé orðið meira en nokkur hugði. Þar ritar Hreiðar Þór Sæmundsson opið bréf til Ögmundar Jónassonar vegna bréfaskrifta þingflokks vinstrigrænna til Daliu Itzik, forseta Knesset í Ísrael sem m.a. hefur verið getið í þessum dálki. Hreiðari Þór er nokkuð niðri fyrir í bréfi sínu, enda telur hann að með bréfaskriftunum séu vinstrigrænir að bera blak af hryðjuverkum Hamas. Lýkur hann máli sínu með því að skora á vinstrigræna að fá lánaða eldflaug frá Hamas, troða henni á afvikinn stað og skjóta sér á sporbraut um tunglið! Er það nú ekki til fullmikils mælst?

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.