18.11.04

Áhrif þéttbýlis á stjórnmálaskoðanir

Maður hefur hlustað á allar teoríurnar um það hvers vegna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fóru eins og þær fóru. Megnið er auðvitað tilgangslaust gaspur. Röfl um hvernig kosningarnar eiga að hafa oltið á strangtrúarhópum er bara píp út í loftið. Eða eiga trúaðir ekki að hafa kosningarétt? Sama má segja um það að umræða um hjónabönd samkynhneigðra hafi reynst vatn á myllu forsetans, þar sem svo ægilega margir hafi tilgreint siðferðisleg álitaefni sem helsta kosningamálið í sínum huga. Í síðustu forsetakosningum voru þeir fleiri, sem notuðu það óljósa svar. Og þar fram eftir götum. Margir hafa einnig bent á hvernig forsetakosningar fóru landfræðilega, en þegar horft er á ríkin virtust demókratar vera orðnir einangraðir við strendurnar. En auðvitað er það ekki þannig, þó kosningakerfið ýti undir slíka sýn. Þó repúblikanar hafi tapað Kaliforníu þýðir það ekki að engir slíkir finnist þar. Ekki fremur en að demókratar séu útrýmd tegund í Texas. Þegar dregið er upp kort af Bandaríkjunum, þar sem sýnt er hvernig atkvæði féllu eftir sýslum og litir notaðir til þess að sýna hlutföllin fremur en aðeins hvor sigraði, kemur vitaskuld í ljós mun blandaðra kort. Frekar en að tala um rauð ríki eða blá eru þau flest purpuralit, enda var mjótt á munum. En ekki síður er þó merkilegt að bera þetta saman við tölfræði um hversu þéttbýlar sýslurnar eru. Fylgnin er sláandi, þó auðvitað sé hún ekki einhlít. Er eitthvað við þéttbýli sem fær fólk til þess að hugsa á einhverjum tilteknum nótum? Eða dreifbýli? Við höfum ýmsar tilgátur um það hér á Íslandi, sem þó hafa lítt verið rannsakaðar ef frá er talið hið merka rit Ólafs Ásgeirssonar, Iðnbylting hugarfarsins. En vestra hugsa menn um þetta líka. Bendi á ágæta grein um þetta á Tech Central Station. Í greininni er engin einhlít svör að finna, en það má náttúrlega velta fyrir sér svarinu þegar ég spurði vin minn, sem búsettur er í New York, af hverju í ósköpunum íbúar borgarinnar hölluðu sér svo eindregið að demókrötum (þrátt fyrir 11. september, Ísrael og stöðu NYC sem háborg kapítalismans). Hann hallaði sér aftur, hristi hausinn og sagði: „Ég held það sé eitthvað í vatninu.“