10.11.04

Lygar, bölvaðar lygar og tölfræði

Á baksíðu Fréttablaðsins í dag má lesa vikulegan pistil heiðurslaunalistamannsins Þráins Bertelssonar en að þessu sinni beislar hann Pegasus til þess að ítreka andstöðu sína við aðgerðir bandamanna í Írak og stuðning íslenskra stjórnvalda við þær. Þar telur hann sérstaklega til að 100.000 íraskir borgarar hafi látið lífið vegna innrásarinnar og tekur samanburð um hvernig þær tölur ríma við mannfjölda á Íslandi. En hvaðan hefur skáldið þessar tölur? Maður hefur séð ýmsa henda þessi 100.000 á lofti en hvað hafa menn fyrir sér?Jú, hér er byggt á rannsókn, sem birtist fyrir skömmu í hinu virta breska læknariti The Lancet. Og hvað skyldi koma fram þar?
We estimate there were 98,000 extra deaths (95% CI 8000-194 000) during the post-war period
Með „extra deaths“ eiga höfundarnir við að þeir hafi tekið dánartölur í úrtakshópum á tilteknu tímabili fyrir innrás, borið saman við jafnlangt tímabil eftir innrás og framreiknað á Írak allt. Mismuninn hlýtur að mega rekja til innrásarinnar segja þeir. Liggur það þá ekki bara fyrir? 98.000 ≈ 100.000? Nei, því er ekki þannig farið, því tölurnar, sem máli skipta, eru innan svigans. Þær þýða að höfundar skýrslunnar segjast 95% vissir um að mannfallið sé á bilinu 8.000-194.000. Talan 98.000 er bara sirka þar á milli.

Þegar höfundarnir áætla að dauðsföll af völdum innrásarinnar séu á milli 8.000-194.000 sér hver maður að þetta er ekki áætlun, heldur ágiskun. Það þýðir kannski lítið að sakast við höfundana, hvernig er hægt að ætlast til þess að þeir geti framkvæmt tölfræðirannsókn undir núverandi kringumstæðum í Írak? Það er auðvitað ekki hægt. En einmitt þessvegna má áfellast höfundana fyrir að hafa einfaldlega ekki hætt við fremur en að gefa út svona markleysu, sem er til þess eins fallin að rugla menn eins og Þráin frekar í ríminu. Síðan má gera margháttaðar athugasemdir við aðferðafræðina að öðru leyti, en ég nenni því ekki hér.

Vilji menn kynna sér áreiðanlegri tölur um mannfall í Írak er nær að líta á vef Iraq Body Count en þar telja menn líkin, fremur en að framreikna niðurstöður könnunar meðal vafasams úrtaks.