9.11.04

Þórólfur hættir

Rétt áðan bárust þau gleðitíðindi að Þórólfur Árnason hefði loks orðið við áskorun minni frá því í fyrra og sagt af sér, en hann heldur þó áfram út mánuðinn. Hver tekur við starfi borgarstjóra er enn óljóst, en Vísir, vefmiðill Baugs, kveðst hafa öruggar heimildir fyrir því, að Dagur Bergþóruson Eggertsson verði næsti borgarstjóri. Dagur er ágætur maður, en ég er ekki viss um að hann sé endilega rétti maðurinn í starf borgarstjóra. Og hver sem fyrir valinu verður, aumingja hann. Erindi R-listans er þrotið, borgin er illa stödd og nýr borgarstjóri verður í gíslingu flokkanna þriggja, sem að R-listanum standa. Eina leiðin til þess að bjarga R-listanum væri að fá sterkan leiðtoga, með skýrt pólitískt umboð, sem gæti lamið smákóngana Alfreð, Árna Þór og Stefán Jón niður eftir þörfum. Sá maður er ekki til. Nema náttúrlega Ingibjörg Sólrún Gísladóttir snúi aftur og þá mun þessi marbendill nú hlæja!