4.11.04

Sigur Bush

Jæja, kosningarnar vestra eru afstaðnar og þær fóru líkt og ég vænti, þó ég hafi raunar gert ráð fyrir að forsetinn myndi hafa fleiri kjörmenn á bak við sig. En það sem eftir situr er að George W. Bush endurnýjaði umboð sitt og gott betur. Þessi kosningasigur hans var afdráttarlaus öfugt við kosningarnar 2000. Hann var kjörinn með meirihluta atkvæða og meirihluta kjörmanna með óyggjandi hætti. (Að því leyti er mér ljúft að hafa haft rangt fyrir mér, John F. Kerry hélt aftur af lögfræðingum demókrata og viðurkenndi ósigur sinn eins og herramanni sæmir.) Kosningaþátttaka var meiri en nokkru sinni og enginn forseti Bandaríkjanna hefur verið kjörinn með jafnmörgum atkvæðum. Repúblikanar héldu svo og styrktu meirihluta sinn í þinginu. Mazel tov! 

Hvað þýðir þetta?

Fyrst og fremst þýðir þetta að Bush hefur fengið umboð þjóðar sinnar og óvinir Bandaríkjanna, rétt eins og vinir og bandamenn, þurfa ekki að velkjast í neinum vafa um einurð þeirra við að ráða niðurlögum hryðjuverkahreyfingar íslamofasista, að áfram verði haldið á braut efnahagsuppbyggingar (sem vísir menn segja mér að sé í þann veginn að leiða til 10-12 ára hagvaxtarskeiðs), og að tekið verði til í skatta- og tryggingakerfi Bandaríkjanna. 

Á hverju vann Bush? 

Eftir á að hyggja skil ég lítið í sjálfum mér og öðrum að hafa nennt að horfa á kappræður forsetaframbjóðendanna, vangaveltum um tekjuskattsþrep, lyfjakostnað, hjónabönd samkynhneigðra og allt það. Á endanum snerist þetta aðeins um baráttuna gegn hryðjuverkum og hæfileikann til þess að leiða hana. Bush tók afstöðu í því máli meðan Kerry lét eins og húsvörðurinn í Hvíta húsinu þyrfti ekki að hafa af því sérstakar áhyggjur umfram annað það, sem miður færi í heiminum og skipti svo um skoðanir í takt við síðustu könnun. Þjóðin vildi fremur leiðtoga en leiðitaman.

Er þá allt fallið í ljúfa löð?

Það var mikið gert úr því í kosningabaráttunni að bandaríska þjóðin væri klofin og þá sérstaklega í afstöðunni til Íraks. Ég held að það sé orðum aukið að þjóðin sé klofin, fyrir þorra hennar er það nú tæpast þannig vaxið. En hitt er rétt að persónuleg andúð hörðustu vinstrimanna í garð forsetans er með þeim hætti að þeir munu ekki láta sér nægja að vera „loyal opposition“. Meintur klofningur er fyrst og fremst klofningur vinstri-elítunnar frá þjóðinni og bræði elítunnar er meiri en nokkru sinni vegna þess að þjóðin vill ekki hlusta á hana og tekur í þokkabót undir málflutnings hins málhalta forseta síns. Bush talaði til stuðningsmanna Kerrys að kosningum loknum og hét því að byggja brýr yfir til þeirra. Þetta á við um hinn almenna stuðningsmann demókrata, en ekki um elítuna enda kærir hún sig ekki um slíkt. Einangrun hennar mun aukast á næstu árum.