29.10.04

Þetta grunaði mig

Fyrir nokkrum árum strengdi ég þess heit að drekka meira af góðu rauðvíni en verið hafði. Ég sá ekki eftir því. Síðasta eitt og hálft árið hef ég hins vegar dregið verulega úr áfengisneyslu, en þá sjaldan ég tek glas er það þó einatt rauðvínið, sem fyrir valinu verður. Það sakar ekki heldur að úrval ódýrra en algerlega drykkjarhæfra rauðvína hefur aukist mjög upp á síðkastið. Nú orðið er ég hrifnastur af áströlskum vínum, sérstaklega frá Wolf Blass, en einnig ber veigar frá Chile og Suður-Afríku fyrir varir mínar.

En auðvitað á maður að drekka meira af heilsubótardrykknum rauðvíni. Það er hollt fyrir hjarta og æðakerfi hóflega drukkið og víst getur það glatt mannsins hjarta. Síðan berast manni tíðindi af enn öðrum vígstöðvum. Ég get ekki sagt að þau komi mér öldungis á óvart.