2.11.04

Fátt í fréttum?

Athugasemdirnar hafa lítið láta á sér kræla að undanförnu og því mætti ætla að mér fyndist fátt markvert að gerast. Það er öðru nær, en ég hef verið afar upptekinn í vinnu síðustu daga. Þá verður bloggurinn út undan. En svo maður tæpi á því helsta, sem ég hefði hæglega getað skrifað um undanfarna daga í löngu máli:
  • Forsetakosningarnar Ég held að George Bush sigri kosningarnar með nokkrum mun í atkvæðum talið, en það verður mjórra á mununum þegar kemur að kjörmönnum. Sem er slæmt því demókratar munu lögsækja, lögsækja og lögsækja. Endanleg úrslit þurfa því ekki að liggja fyrir nærri því strax.
  • Borgarstjórinn Ég er þeirrar skoðunar nú sem fyrrÞórólfur Árnason eigi að segja af sér þegar í stað. Ekki vegna þess að hann muni sæta nokkurri refsiábyrgð í olíumálinu — enda snúast hans mál ekki um það — heldur siðferðishliðina. En ég held hann segi ekki af sér. Þá ætti R-listinn að segja honum upp, en það gerir hann ekki því þeir eiga engan til vara, sem allir flokkarnir fella sig við. Þórólfur mun því sitja áfram og móralskt gjaldþrot R-listans verður augljósara og dýpra með hverjum mánuðinum fram að kosningum. Verði þeim að góðu. Málið er nefnilega það að Þórólfi sagði okkur borgarbúum ekki allt af létta um þessi mál á sínum tíma, hann er enn ekki búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum og reynir þvert á móti að villa um fyrir fólki þegar hann er spurður um þau. Það er óþolandi. — Og hvað má þá segja um framkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem handvaldi þennan eftirmann sinn? Á sínum tíma ræddu þau þetta saman og varaþingmaðurinn lét hafa það eftir sér að hann hefði fullvissað sig um að hann gæti varist þessum áburði. Á hverju byggði hún það? Og hvaða ályktanir má draga um dómgreind og/eða heiðarleika þeirra af því? Ef það var þá þannig.
  • Osama bin Laden Það var leiðinlegt að sjá þann karl á lífi og leiðinlegra að sjá framlag hans til kosningabaráttu Kerrys. En mér finnst orðræða hans ahyglisverð, þetta er sama þvaðrið og maður má lesa eftir VG-liðið, Michael Moore og verstu þýðendur hans á Málefnunum. Þeir hafa ávallt mikið fyrir því að rekja að þeir séu ekki í liði með honum eða Saddam, en það er merkilegt að hann lítur á sig sem samherja þeirra!
  • Friðargæslan Ég var efins um friðargæsluna á sínum tíma og er það enn. Enn furðulegri er þó afstaða sumra, að friðargæslan eigi að einbeita sér að friðvænlegri stöðum en nú! Hvar þá? Danmörku? Suður-Dakóta? Eða Kárahnúkum þar sem manni skilst að þurfi að ganga á milli innfæddra og Portúgala? Atvikið í Kabúl er grafalvarlegt og ljóst að það þarf að taka vinnubrögðin mjög til endurskoðunar. Málsatvik eru raunar enn ekki ljós, en ég sé ekki betur en að yfirmaður friðargæsluliðanna hafi gerst sekur um saknæmt gáleysi. Sjáum til.
  • Blaðalestur Sumir segja mér að lestrarkönnun Gallup, sem sýnir hvernig Morgunblaðið hefur dalað í samkeppni við Fréttablaðið, endurspegli höfnun þjóðarinnar á afstöðu Mogga til Fjölmiðlalaganna og fréttaflutningi fyrir forsetakosningar hér á landi. Ég held ekki, það var engin veruleg dýfa í sumar. En það er erfitt fyrir vini mína á Morgunblaðinu að keppa við ókeypis keppinaut. Hvert eintak af Mogganum kostar 220 krónur. Það að menn lesi blaðið enn í svo miklum mæli, sem raun ber vitni, hlýtur að gefa til kynna að það sé a.m.k. 220 krónum betra en Fréttablaðið.
  • Ríkisstjórnin Ég á erfitt með að lesa eitthvað úr eilítið dalandi fylgi ríkisstjórnarinnar og flokka hennar. Einhver urgur vegna kennaraverkfallsins bitnar vafalaust á henni, en síðan má líka minna á að í síðustu könnun fékk Sjálfstæðisflokkurinn einhvern byr í seglinn vegna hlýrra hugsana til Davíðs Oddssonar í veikindum hans.
  • Forseti Alþingis Menn rifja það upp vegna olíumálsins að Sólveig Pétursdóttir hafi rýmt ráðherrastól sinn gegn því að verða forseti Alþingis er fram liðu stundir. Ég tel af og frá að unnt sé að efna það heit. Sólveig er lögfræðingur eins og Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og eiginmaður hennar. Maður getur ekki trúað því að þeir lögfræðingarnir hafi aldrei misst eitt orð um viðskiptahætti olíufélaganna yfir koddann eða kornfleksdiskinn. Forseti Alþingis er æðsta ókjörna embætti þjóðarinnar og einn af handhöfum forsetavalds. Slíkan skugga má ekki undir nokkrum kringumstæðum bera á embættið.
  • Olíumálið Ég er enn þeirrar skoðunar að það eigi alls ekki að sekta olíufélögin, því við neytendur munum einir gjalda fyrir það. Á hinn bóginn finnst mér að það eigi að sækja forstjóra/framkvæmdastjóra og stjórnarformenn fyrirtækjanna á þessum tíma til saka og dæma til slíkra fésekta að þeir verði gerðir upp og sitji svo í gapastokk í eins og hálf ár öðrum til viðvörunar.