8.11.04

Arafat má ekki deyja

Dauðastríð Jassers Arafats ætlar að verða langt og strangt. Enginn virðist vita nákvæmlega hvað að honum gengur og fregnir af líðan hans eru afar misvísandi. Nú þegar eru sprottnar deilur um hvar eigi að dysja karlinn og ekkja hans in spe sakar helstu samstarfsmenn hans um að reyna að kviksetja hann.

Þessar ásakanir þurfa þó ekki að vera réttar, því aðrar fregnir herma að palestínsku heimastjórninni sé mikið kappsmál að halda karlinum á lífi, a.m.k þar til hann er búinn að gefa upp upplýsingar um leynilega bankareikninga sína.

Talið er að Arafat hafi a.m.k. milljarð Bandaríkjadala á leynireikningum í Sviss, Ísrael, Karíbahafi og víðar. Vitað er að Arafat hefur alla tíð umgengist peninga PLO afar frjálslega og haldið uppteknum hætti eftir að heimastjórninni var komið á laggirnar. Peningana hefur hann bæði notað í eigin þágu og sem stjórntæki, því með því að halda sjálfur um budduna hefur hann getað keypt sér hollustu og svelt keppinauta til hlýðni. Að því leyti hefur hann fremur líkst lénsherra en forseta. Palestínska heimastjórnin er rekin fyrir styrktarfé frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Ísrael og Noregi, en hefðbundnar skatttekjur hennar eru nánast engar.