4.11.04

Hatrið á Bandaríkjunum og Bush

Ég hef furðað mig nokkuð á því hvað andúð á Bandaríkjunum (að maður segi ekki hatur) hefur vaxið í Evrópu undanfarin ár, sem kristallast einna helst í móðursýkislegu hatri á George W. Bush. Sumir vinstrisinnaðir vinir mínir halda því fram að orsökin sé herför Bandaríkjanna og bandamanna þeirra til Afganistan og Íraks, en það er ekki rétt, þessi hneigð var þegar hafin áður en Bush var kjörinn forseti fyrir fjórum árum og raunar má sjálfsagt rekja hana til valdatíðar Ronalds Reagans.

Í kosningabaráttunni 2000 voru annars málsmetandi menn ekki yfir það hafnir að skrifa blaðagreinar þar sem gengið var út frá greindarskorti Bush sem vísum (þó manni skiljist raunar að því sé þveröfugt farið) og eftir að Bush var tekinn við völdum jókst gagnrýnin til muna þar sem hann var sakaður um einfeldni, heimóttarskap, einangrunarhyggju og þessar ávirðingar jafnan heimfærðar upp á Bandaríkjamenn alla, sem áttu sem þjóð að vera svona eða hinsegin. Eftir 11. september sneri Bush raunar blaðinu við gagnvart umheiminum, en þá góluðu þessir sömu menn undan því líka. Það er erfitt að gera þeim til hæfis.

Mig langar að skrifa eilítið um hið nýja Bandaríkjahatur, en það verður að bíða betri tíma. Á hinn bóginn vil ég benda á ágæta grein Janet Daley, sem hún skrifaði í Daily Telegraph í gær. Þar veltir hún vöngum yfir þessu sjúklega hatri margra á Bush og segir m.a.
[George W. Bush] is hated because he is the embodiment of everything that the United States is, and Europe is not: not just enormously powerful, militarily and economically, but brashly confident and fervently patriotic. Where Europe is steeped in historical guilt and self-loathing — so immersed in its own unforgivable past that it is trying to fashion a constitution that actually prohibits national pride — America is profoundly proud of the success of its own miraculous achievement.
Ætli það sé ekki nokkuð til í þessu. Mér hefur a.m.k. fundist margar ákvarðanir „gömlu Evrópu“ upp á síðkastið bera vitni um ríka minnimáttarkennd.