4.11.04

Eru fjölmiðlar vandamálið?

Taugaveiklunin hjá R-listanum er komin út yfir öll mörk. Ekki þar fyrir, R-listafólk hefur fulla ástæðu til þess að vera taugaveiklað. Það er nú ekki beinlínis þekkt fyrir ráðsnilld og vandræðagangurinn virðist engan enda ætla að taka. En ég hugsa ég drepi niður penna um þau mál á öðrum vettvangi.
Maður sér best örvæntinguna hjá þessu liði á einkennilegum viðbrögðum Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, þegar fjölmiðlamenn reyndu að spyrja tíðinda af fundi borgarstjórnarmeirihlutans um forystuvanda R-listans. Spurningarnar einkenndust síður en svo af einhverri aðgangshörku, en þeim var vitaskuld látið ósvarað. Þar til Björk vindur allt í einu upp á sig og hvæsir á Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, fréttakonu Stöðvar 2:
Það er ekki að ástæðulausu sem fjölmiðlar, eru kallaðir hrægammar!
Þetta vakti vitaskuld nokkra undrun viðstaddra, að ekki sé minnst á áhorfendur, en fréttamennirnir höfðu sjálfsagt ekki gert sér grein fyrir því að þeir væru að voka yfir hræi. Og Björk var ekki búin, því eftir nokkur skref frá kastljósi fjölmiðlanna gerði hún aftur stuttan stans og hreytti svo á Evu:
Lausnir finnast ekki í gegnum fjölmiðla.
Eva skildi ekki frekar en aðrir hvað konukindin var að fara og spurði hvort R-listinn hefði einhverja lausn í þessu vandasama máli. Þá gat Björk ekki stillt sig, snerist á hæli og spurði nötrandi röddu:
Haldið þið í alvöru talað að þið [fjölmiðlar] séuð einhver lausn?
Þegar hér var komið við sögu var Stefáni Jóni Hafstein, fylgdarmanni Bjarkar, nóg boðið, hann lagði hramminn utan um Björk og leiddi hana á braut áður en hún skaðaði sig og listann meira en orðið var.

Hvað í ósköpunum olli þessari vanstillingu borgarfulltrúans? Að mínu viti hafa fjölmiðlar farið afskaplega varfærnislega í mál borgarstjóra, alltof varlega jafnvel og einblínt um of á meinta refsiábyrgð hans þegar hér ræðir fyrst og fremst um siðferðisleg álitaefni og pólitíska ábyrgð.

Og hvað í ósköpunum var borgarfulltrúinn að bögglast við að segja? Við náðum því að fjölmiðlar væru ekki lausnin, en hvað þýðir það? Að þeir séu hluti vandamálsins eins og Björk og skoðanasystkin hennar orðuðu það í gamla daga? Ég held það boði ekki gott þegar stjórnmálamenn tala um fjölmiðla almennt á þann hátt. Og enn síður boðar það gott fyrir R-listann, sem hefur reynt að gefa sig út fyrir að vera sérstakur boðberi boðaði breyttra stjórnarhátta, samráðsstjórnmála, starfa fyrir opnum tjöldum og allt það. Auðvitað er það tómt snakk, en hræsnin er pínlegri fyrir vikið.

Ég las það á forsíðu Morgunblaðsins í morgun að R-listinn hefði ályktað það á fundi sínum í gærkveldi að umræðan [hefði] gert stöðu Þórólfs erfiðari. Það var og. Bannsett umræðan! Alltaf er hún söm við sig. Að maður minnist ekki á fjölmiðlana...

Nei, ætli staða hans sé ekki erfið af einhverjum öðrum orsökum. Til dæmis þeim að borgarstjóri hefur ekki verið ærlegur við borgarbúa um þátt sinn í málinu. Hann hefur ekki einu sinni verið ærlegur við borgarfulltrúa meirihlutans um hann. Sá eini, sem eitthvað vissi af þessum málum, var fyrirrennari hans í starfi og henni fannst þetta bara allt í lagi fyrst hann teldi sig geta varið sig. En í stjórnmálum má heiðarleiki ekki bara vera eitthvert æskilegt viðmið, sem hægt er að hliðra til þegar þarf. Undanbrögð Þórólfs vekja efasemdir um að hann sé réttur maður í stóli borgarstjóra, en það eru fyrst og fremst viðbrögð vinnuveitenda hans hjá R-listanum, sem bera vitni um dómgreindarskort, óheilindi og algjört trúnaðarrof við reykvíska borgara.