7.11.04

Helmingaskipti sannleikans

Sá mæti stjórnmálafræðiprófessor Svanur Kristjánsson var einn gesta Egils Helgasonar í Silfri Egils. Fyrir utan fræðistörf sín má kalla Svan einn af guðfeðrum R-listans, en hann hefur verið ódeigur við að beita sér í stjórnmálum og segja fyrir um þróun og hræringar á þeim vettvangi, þó það væri synd að segja hann sérstaklega forspáan í þeim efnum. Í þættinum fjölluðu þeir nokkuð um Bandaríkjaforseta og þótti Agli eilítið skrýtið að heyra Svan hæla honum fyrir eitthvað. Svanur vildi meina að það væri ekkert skrýtið þó hann gæti fjallað fræðilega um slíkt:
Ég er nú stjórnmálafræðingur, búinn að vinna við það í 30 ár. Ég meina ef ég ætlaði að fara að láta skoðanir einhverra [eða] álit á mönnum...
En seinna í þættinum var haldið á heimavöll og rætt um olíumálið, en það taldi Svanur birtingarmynd íslensks valdakerfis að tjaldabaki og það allt. Sérstaklega nefndi hann til „helmingaskiptakerfið“ og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu verið allt í öllu í þessu. Þessu til „sönnunar“ nefndi hann órökstudd dæmi um Skeljung og Essó, án þess að ég vilji gera lítið úr pólitískum tengslum þeirra fyrirtækja á árum áður. En það er með ólíkindum að hann nefndi gamla BP, sem síðar varð Olís, aldrei til sögunnar. Af hverju ekki? Af því að það hentaði ekki kenningu hans um helmingaskiptin? Ég eftirlæti lesandanum að dæma um vísindamennskuna að baki svona orðræðu. Og gildi helmingaskiptakenningarinnar þegar hún byggist á hálfsannleik.