13.11.04

Lama önd í Ráðhúspollinum

Það voru vitaskuld stórtíðindi eftir allt það, sem á undan var gengið, að R-listanum skyldi takast að finna nýjan borgarstjóra jafnskjótt og áreynslulaust og raun bar vitni. En valið kom enn meira á óvart. Steinunn V. Óskarsdóttir hvað?!

Steinunn hefur fram að þessu ekki þótt neinn leiðtogi og það væri synd að segja að pólitískur vegur hennar væri stráður afrekum. Síður en svo. Einn samflokksmaður hennar var ekki minna hvumsa en ég yfir tíðindunum og missti út úr sér þessa einkunn: „Dökkhærða ljóskan frá helvíti“. Ég get nú ekki tekið undir það, en hitt er rétt að menn hafa engar sérstakar væntingar til hennar. Og út af fyrir sig hlýtur það að vera ömurlegt fyrir hana að verða borgarstjóri undir þessum kringumstæðum. Aðrir voru miklu fremur nefndir til starfans, en gátu ekki hlotið hnossið af því að þeir þóttu of líkleg leiðtogaefni. Þannig að hún varð fyrir valinu af því að það var fullkomin samstaða um það í R-listanum að það væri hún ekki.

En var það allt málið? Að framsóknarmenn gætu ekki hugsað sér að fóstra enn einn framtíðarleiðtoga Samfylkingarinnar? Það er hluti skýringarinnar, en ekki öll sagan. Málið er vitaskuld það að menn vita sem er að R-listinn er dauður, en þarf að halda út kjörtímabilið. Samfylkingin er þegar farin að funda um framboð í eigin nafni næst. En til þess að halda trúverðugleika þurfa R-listaflokkarnir að hanga saman út kjörtimabilið þó með hangandi hendi sé. Þannig að Steinunn er það sem Bandaríkjamenn kalla „lame duck“. Í Reykjavík takast sumsé á bláa höndin og lama öndin.

En fyrst maður er farinn að slá um sig með amerískum frösum er rétt að halda áfram. Ég held nefnilega að Steinunn sé annað og meira en lama önd. Henni er ætlað að vera „fall guy“. Hún er fengin til þess að stýra flakinu af R-listanum upp í fjöru og bera ábyrgð á augljósu afhroði flokkanna að baki honum í kosningunum 2006. Hún er fengin til þess svo að þeir Stefán Jón Hafstein og Dagur B. Eggertsson standi ekki uppi sem ósigurvegararnir. Þeir eru undanskildir af því að þeir kunna að eiga sér pólitíska framtíð en hún er skikkuð í djobbið af því að pólitísk framtíð hennar er álíkaspennandi og fortíðin. Ég er ekki einn um þessa greiningu, vinir mínir í Samfylkingunni samsinna hennir flestir.