14.11.04

Meira um leyndarhyggjuna

Ég var að hugsa um svör Stefáns Jóns Hafstein í Sunnudagsþættinum á Skjá 1 þegar Illugi Gunnarsson spurði hann út í óskiljanlegan leyndarhjúp Alfreðs Þorsteinssonar yfir bóhaldi dótturfyrirtækja Orkuveitunnar, en Samfylkingarfulltrúar R-listans, þau Stefán Jón og Steinunn V. Óskarsdóttir nýráðinn borgarstjóri, hafa tekið þátt í yfirhylmingunni.

Málið snýst um það að Alfreð hefur meinað réttkjörnum fulltrúum almennings í stjórn Orkuveitunnar að gegna lögbundnum eftirlitsskyldum sínum með að allt sé með felldu í fyrirtækinu, að réttar tölur liggi fyrir, að ákvarðanirnar séu teknar á réttum forsendum o.s.frv. Mér fannst Illugi leyfa Stefáni Jóni að sleppa fullbillega frá þessu.

Setjum nú sem svo — án þess að ég sé á nokkurn hátt að gefa í skyn að þannig sé því farið — að í fyllingu tímans komi í ljós að það séu alls maðkar og risarækjur í mysunni hjá Alfreð þannig að glæpsamlegt teljist. Hver er ábyrgð stjórnarmanna, þessara sömu stjórnarmanna og Alfreð, Steinunn V. og Stefán Jón hafa meinað að sinna eftirlitsskyldu sinni? Hún er tæpast mikil, en þeim mun meiri er ábyrgð meirihlutans, sem hefur knúið minnihlutann til vanrækslu af þessu tagi. Og þá þýðir nú ekki mikið fyrir Steinunni og Stefán Jón að tala um góða trú.