
Ég hef tekið eftir því að margir vilja gagnrýna Samfylkinguna fyrir leyndarhyggju og pukur, að þar séu allar ákvarðanir teknar í reykfylltum bakherbergjum, grasrótin sé skilin eftir út undan og margt sem eigi að vera opinbert sé þvert á móti heimullegt. Ég er nú ekki viss um að það standist um Samfylkinguna alla, en það á vissulega um
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og klíku hennar. En þegar menn eru að finna að þessu, líkt og
Björn Bjarnason dómsmálráðherra gerir í
nýjasta pistli sínum,
Steingrímur Ólafsson, fyrrverandi formaður Vinstrigrænna í Reykjavík, gerir í
aðsendri grein í þriðjudagsblaði
Morgunblaðsins og
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður gerði í
Silfri Egils núna áðan, finna þeir einkum að þeirri hræsni að svona skuli þeir haga sér hinir miklu boðberar opinnar stjórnsýslu, þátttökulýðræðis og „samræðustjórnmála“.
Undir þetta má vel taka, en mér finnst merkilegt að enn skuli það borið á Sólrúnarsamfylkinguna að hún berjist fyrir „samræðustjórnmálum“. Því er nefnilega ekki þannig farið. Forsætisráðherraefnið fyrrverandi notaði nefnilega annað orð þó skylt sé. Hún talaði um
„samráðsstjórnmál eins og glögglega má lesa í
fyrri Borgarnesræðunni. En manni dettur í hug að nú orðið vilji menn síður stinga upp á samráði sem lausnarorði.
0 Comments:
Ritaðu athugasemd við athugasemdir...
<< Heim