Vakinn upp af værum blundi

Ég veit ekki hvort ég á að láta þessa særingameistara á Orðinu vekja blogginn upp frá dauðum. Einhvernveginn held ég að ég muni ekki hafa þrótt til þess að blogga mikið hér, enda má segja að ég bloggi nægju mína á síðum Blaðsins þar sem ég skrifa jafnan slúður og vangaveltur af vettvangi fjölmiðla og stjórnmála, fyrir nú utan lengri viðhorfsgreinar og leiðara. Þarf ég að tjá mig frekar? Hef ég tíma til þess? Og er eftirspurn eftir frekari yfirlýsingum af hálfu þessa hægri kantmanns, sem ég er?
Sjáum til. Þegar mikið gengur á hef ég kannski eitthvað fram að færa og því er ekki heldur að leyna, að bloggið getur verið í senn öryggisventill og tilfinningalegt skilrúm, svo leitað sé orðfæris í smiðju valdaræningjans. En svo er kannski ástæða til þess að smeygja inn skrifum mínum í Blaðið hér líka. Vefurinn okkar er ekki beinlínis aðgengilegur eða tryggilega uppfærður.
0 Comments:
Ritaðu athugasemd við athugasemdir...
<< Heim