17.7.06

Stolnir kossar

Sú saga var einu sinni sögð af Jóni Sigurðssyni forseta – sem var mikill kvennaljómi – að hann hafi komið í fínt síðdegissamsæti hér í höfuðstaðnum. Þegar hinum siðfágaða forseta Bókmenntafélagsins, sem lengst af hafði dvalið í Kaupmannahöfn, var boðið til stofu, kom á daginn að gestirnir voru allt undurfríðar reykvískar blómarósir. Jón forseti ákvað samstundis að gleyma þeim útlenda sið, að kyssa konurnar á handarbakið, og tilkynnti, að nú myndi hann kyssa að íslenskum sið; gekk svo á röðina og kyssti þær allar rembingskoss á munninn.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las um það í vikunni, að enskur prestur, síra Alan Barrett, hefði sætt svo miklu ámæli fyrir að kyssa 10 ára gamla telpu á kinnina um leið og hann afhenti henni stærðfræðiverðlaun fyrir framan bekkinn hennar, að hann var neyddur til þess að segja af sér sem skólastjórnarmaður. Það gerðist eftir að bæði lögregla og félagsmálayfirvöld höfðu rannsakað málið, yfirheyrt prestinn og aðra hlutaðeigandi til þess eins að komast að því, að ekkert ósiðlegt hefði átt sér stað.

Geistleg yfirvöld létu hafa það eftir sér að kossinn hefði verið óviðeigandi, því það sem eitt sinn hefði þótt sakleysisleg og sjálfsögð hegðan byði nú heim misskilningi og grunsemdum. Má vera, en erum við þá ekki á einhverjum fáránlegum villigötum? Er eitthvað í heiminum meira viðeigandi en að óska 10 ára gömlum telpum til hamingju með kossi á kinn?

Að ætla öðrum illt
Raunar held ég að hér á Íslandi sé púritanisminn og rétttrúnaðurinn ekki búinn að leiða okkur jafnlangt og frændur okkar á Englandi, en það eru ýmsar vísbendingar um að við kunnum að vera á sömu braut.

Undanfarin ár hefur óttinn við það hvernig vondir menn geta unnið börnum mein farið sívaxandi. Ástæðan er tæpast sú að slíkar meingerðir hafi færst í vöxt, en umræðan um slík voðaverk hefur á hinn bóginn komið upp á yfirborðið eftir að hafa nánast legið í þagnargildi alla tíð. Fyrir fórnarlömbin skiptir það vafalaust miklu máli að þagnarhjúpurinn var rofinn og umræðan færir líka skömmina þangað, sem hún á heima. En um leið hefur umræðan einnig reynst skaðleg þjóðfélaginu, því hún hefur alið á tortryggni í garð náungans og aukið á einangrun og ofvernd barna. Nú orðið þykir nánast ástæða til þess að efast fyrirfram um hvers kyns samneyti barna og óskyldra karla og jafnvel þeir skyldu eru ekki hafnir yfir allan vafa. Að lýsa einhverjum sem barnakarli er ekki tækt lengur og vei þeim karli, sem játar að hann hafi gaman að börnum og sæki því í þau.

Fleiri kossa, ekki færri
En þó til séu vondir menn – og konur eru líka menn – er það vondur heimur, þegar gengið er út frá því sem vísu, að hættan búi á hverju horni. Þegar börnum er kennt, að helst beri að sniðganga alla nema nánustu fjölskyldu af ótta við að í hverjum manni bærist fól, er unnið skemmdarverk á æskunni með því að innræta þeim ótta á okkar dásamlegu veröld og samferðamönnunum. Og menn skyldu ekki gleyma því að slíkar spásagnir geta uppfyllt sjálfa sig ef allir trúa þeim og sjá mögulega illvirkja í hverjum öðrum. Má ekki bregðast við ómennunum og illsku heimsins án þess að afneita kærleikanum og þeirri velvild, sem flest fólk ber til annars?

Frá öndverðu, líkt og í dag, eru kossar fyrst og fremst til merkis um vináttu og ástúð, djúpa sem grunna. Fæstir eru þeir Júdasarkossar þó þeir þekkist auðvitað. Og þó að kossar geti verið ríkur þáttur í kynferðislegum atlotum, ber það vott um sýktan huga að ætla alla kossa vera af slíkum hvötum. Heiminum veitir ekki af fleiri kossum.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.