13.7.06

Baugsmenn í vesturvíking

Yfirlýsing Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, við blaðamann Wall Street Journal um að hann vilji leita tækifæra í Vesturheimi hefur komið ýmsum á óvart. Væri enda synd að segja að Baugsmenn hafi riðið feitum hesti frá tilraunum sínum á smásölumarkaði í Bandaríkjunum, en sagan af umsvifum þeirra þar hefur enn ekki öll verið sögð. Margir íslenskir fjárfestar með Baug og Kaupþing í broddi fylkingar reyndu fyrir sér með rekstri Bill’s Dollar Stores og Bonus Dollar Stores, en á undraskömmum tíma safnaðist upp milljarðatap og gjaldþrot blasti við. Segja má að þar hafi rætt um stærsta gjaldþrotamál íslenskrar viðskiptasögu og tók Jón Ásgeir síðar svo til orða, að starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum hefði verið dýrt námskeið. Í kjölfarið sigldu heitstrengingar um að Baugur myndi einbeita sér að aukinni sókn inn á Bretlandsmarkað, en nú er greinilega komið að næsta námskeiði…

Sjálfsagt verða áherslurnar hjá Baugsmönnum aðrar að þessu sinni og til marks um það benda menn á að Jón Ásgeir Jóhannesson hyggst hafa aðsetur í New York-borg, en við fyrri tilraunir vestanhafs var áherslan lögð á Suðurríki Bandaríkjanna, þar sem lífsgæði eru með minna móti á bandarískan mælikvarða og lágvöruverðsverslanir vinsælar eftir því. Nú hyggst Jón Ásgeir hins vegar hreiðra um sig í glæsilegri eign við Gramercy Park, þar sem auðkýfingar og listamenn deila kjörum. Garðurinn sjálfur, Gramercy Park, er í eigu sjálfseignarfélags í hverfinu og þykir mikið stöðutákn að hafa lyklavöld að honum…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.