30.12.06

Fluttur

Eins og sjá má hefur ekki verið bloggað hér um nokkra hríð. Á hinn bóginn hef ég tekið upp þann þráð af auknum krafti á bloggsvæði Morgunblaðsins, nánar tiltekið á andres.blog.is. Þessum bloggi verður hins vegar leyft að lifa enn um sinn, uns Morgunblaðsmenn leyfa mér að bakfæra færslur þar, en ég vil gjarnan koma þar fyrir einu og öðru, sem ég hef verið að skrifa undanfarin 20 ár eða svo.

6.9.06

Bandaríkjastjórn viðurkennir tilvist geimvera í Roswell!

Loks kom að því, að Bandaríkjastjórn viðurkenndi, hvað átt hefur sér stað í Roswell í Nýju Mexíkó. Þar eru hvorki meira né minna en 15 geimverur í haldi yfirvalda. Fréttatilkynningin bendir til þess að von sé á fleiri geimverum.

17.7.06

Solla stirða býður uppi dans

Margrét S. Björnsdóttir, ein nánasta samverkakona Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, ritar grein í Morgunblaðið á laugardag, sem fær heiðurssess á miðopnu blaðsins, þrátt fyrir að vera margfalt lengri en reglur þess um aðsent efni segja fyrir um. Þar fjallar Margrét um pólitískt erindi Samfylkingarinnar og samstarfskosti í víðu samhengi, en enginn þarf að efast um að greinin er rituð og birt með samþykki formannsins. Þar eru boðaðar ýmsar stefnubreytingar Samfylkingarinnar, en stórpólitísk tíðindi greinarinnar, sem raunar er klifað á, er að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi fullt eins til greina og hvað annað, en þar er heldur betur sveigt af fyrri leið. Má víst telja að forysta Samfylkingarinnar sé orðin taugaveikluð yfir fylgistapinu fyrst Solla stirða býður upp í dans og stígur í hægri vænginn.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Stolnir kossar

Sú saga var einu sinni sögð af Jóni Sigurðssyni forseta – sem var mikill kvennaljómi – að hann hafi komið í fínt síðdegissamsæti hér í höfuðstaðnum. Þegar hinum siðfágaða forseta Bókmenntafélagsins, sem lengst af hafði dvalið í Kaupmannahöfn, var boðið til stofu, kom á daginn að gestirnir voru allt undurfríðar reykvískar blómarósir. Jón forseti ákvað samstundis að gleyma þeim útlenda sið, að kyssa konurnar á handarbakið, og tilkynnti, að nú myndi hann kyssa að íslenskum sið; gekk svo á röðina og kyssti þær allar rembingskoss á munninn.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las um það í vikunni, að enskur prestur, síra Alan Barrett, hefði sætt svo miklu ámæli fyrir að kyssa 10 ára gamla telpu á kinnina um leið og hann afhenti henni stærðfræðiverðlaun fyrir framan bekkinn hennar, að hann var neyddur til þess að segja af sér sem skólastjórnarmaður. Það gerðist eftir að bæði lögregla og félagsmálayfirvöld höfðu rannsakað málið, yfirheyrt prestinn og aðra hlutaðeigandi til þess eins að komast að því, að ekkert ósiðlegt hefði átt sér stað.

Geistleg yfirvöld létu hafa það eftir sér að kossinn hefði verið óviðeigandi, því það sem eitt sinn hefði þótt sakleysisleg og sjálfsögð hegðan byði nú heim misskilningi og grunsemdum. Má vera, en erum við þá ekki á einhverjum fáránlegum villigötum? Er eitthvað í heiminum meira viðeigandi en að óska 10 ára gömlum telpum til hamingju með kossi á kinn?

Að ætla öðrum illt
Raunar held ég að hér á Íslandi sé púritanisminn og rétttrúnaðurinn ekki búinn að leiða okkur jafnlangt og frændur okkar á Englandi, en það eru ýmsar vísbendingar um að við kunnum að vera á sömu braut.

Undanfarin ár hefur óttinn við það hvernig vondir menn geta unnið börnum mein farið sívaxandi. Ástæðan er tæpast sú að slíkar meingerðir hafi færst í vöxt, en umræðan um slík voðaverk hefur á hinn bóginn komið upp á yfirborðið eftir að hafa nánast legið í þagnargildi alla tíð. Fyrir fórnarlömbin skiptir það vafalaust miklu máli að þagnarhjúpurinn var rofinn og umræðan færir líka skömmina þangað, sem hún á heima. En um leið hefur umræðan einnig reynst skaðleg þjóðfélaginu, því hún hefur alið á tortryggni í garð náungans og aukið á einangrun og ofvernd barna. Nú orðið þykir nánast ástæða til þess að efast fyrirfram um hvers kyns samneyti barna og óskyldra karla og jafnvel þeir skyldu eru ekki hafnir yfir allan vafa. Að lýsa einhverjum sem barnakarli er ekki tækt lengur og vei þeim karli, sem játar að hann hafi gaman að börnum og sæki því í þau.

Fleiri kossa, ekki færri
En þó til séu vondir menn – og konur eru líka menn – er það vondur heimur, þegar gengið er út frá því sem vísu, að hættan búi á hverju horni. Þegar börnum er kennt, að helst beri að sniðganga alla nema nánustu fjölskyldu af ótta við að í hverjum manni bærist fól, er unnið skemmdarverk á æskunni með því að innræta þeim ótta á okkar dásamlegu veröld og samferðamönnunum. Og menn skyldu ekki gleyma því að slíkar spásagnir geta uppfyllt sjálfa sig ef allir trúa þeim og sjá mögulega illvirkja í hverjum öðrum. Má ekki bregðast við ómennunum og illsku heimsins án þess að afneita kærleikanum og þeirri velvild, sem flest fólk ber til annars?

Frá öndverðu, líkt og í dag, eru kossar fyrst og fremst til merkis um vináttu og ástúð, djúpa sem grunna. Fæstir eru þeir Júdasarkossar þó þeir þekkist auðvitað. Og þó að kossar geti verið ríkur þáttur í kynferðislegum atlotum, ber það vott um sýktan huga að ætla alla kossa vera af slíkum hvötum. Heiminum veitir ekki af fleiri kossum.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Nýir Íslandsvinir

Það bætist alltaf í Íslandsvinasafnið. Nýlega var Tsvetelina Borislavova skipuð heiðurskonsúll Íslands í Búlgaríu, en hún er formaður bankaráðs EIBank í Sófíu, sem Björgólfur Thor Björgólfsson á ráðandi hlut í. Ekki er að efa að hún getur greitt götu Íslendinga þar í borg, því kærastinn hennar er Boyko Borisov, borgarstjóri Sófíu.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Vilja þeir blóð?

„Þarfir Blóðbankans verða uppfylltar“. Svo hljóðaði fyrirsögn í Morgunblaðinu á laugardag. Af hverju var ekki gengið alla leið og tilkynnt að blóði yrði úthellt?

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Klambratún og flatneskjan

Svo les klippari í sunnudagsblaði hálfsysturblaðsins, að Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar, heitir því að „Miklatún gangi í endurnýjumn lífdaga“, en samþykkt hefur verið áætlun þess efnis. Það mætti þá kannski byrja á því að kalla túnið aftur Klambratún og setja flatneskjuna Miklatún á sorphauga sögunnar.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

13.7.06

Árni Páll meldar sig

Framboðsmál flokkanna fyrir þingkosningarnar næsta vor eru mönnum nokkuð hugleikin þessa dagana, eins og stundum er um fjallað hér. Því var til dæmis velt upp að Árni Páll Árnason, lögmaður, íhugaði að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi. Nú heyrist úr fjórðungnum að hann sé búinn að ákveða að fara fram og hafi greint þingmönnum flokksins þar frá því…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Baugsmenn í vesturvíking

Yfirlýsing Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, við blaðamann Wall Street Journal um að hann vilji leita tækifæra í Vesturheimi hefur komið ýmsum á óvart. Væri enda synd að segja að Baugsmenn hafi riðið feitum hesti frá tilraunum sínum á smásölumarkaði í Bandaríkjunum, en sagan af umsvifum þeirra þar hefur enn ekki öll verið sögð. Margir íslenskir fjárfestar með Baug og Kaupþing í broddi fylkingar reyndu fyrir sér með rekstri Bill’s Dollar Stores og Bonus Dollar Stores, en á undraskömmum tíma safnaðist upp milljarðatap og gjaldþrot blasti við. Segja má að þar hafi rætt um stærsta gjaldþrotamál íslenskrar viðskiptasögu og tók Jón Ásgeir síðar svo til orða, að starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum hefði verið dýrt námskeið. Í kjölfarið sigldu heitstrengingar um að Baugur myndi einbeita sér að aukinni sókn inn á Bretlandsmarkað, en nú er greinilega komið að næsta námskeiði…

Sjálfsagt verða áherslurnar hjá Baugsmönnum aðrar að þessu sinni og til marks um það benda menn á að Jón Ásgeir Jóhannesson hyggst hafa aðsetur í New York-borg, en við fyrri tilraunir vestanhafs var áherslan lögð á Suðurríki Bandaríkjanna, þar sem lífsgæði eru með minna móti á bandarískan mælikvarða og lágvöruverðsverslanir vinsælar eftir því. Nú hyggst Jón Ásgeir hins vegar hreiðra um sig í glæsilegri eign við Gramercy Park, þar sem auðkýfingar og listamenn deila kjörum. Garðurinn sjálfur, Gramercy Park, er í eigu sjálfseignarfélags í hverfinu og þykir mikið stöðutákn að hafa lyklavöld að honum…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Stebba i herinn!

Með ólíkindum má heita að ekki hafi verið að því hugað fyrr að gæta þess við brottför varnarliðsins að minjar um veru Bandaríkjahers hér á landi séu varðveittar með viðeigandi hætti. Þykir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, hafa tekið þarft frumkvæði í þeirri umræðu. Suður með sjó hefur raunar um nokkurt skeið verið rætt um að koma þyrfti á laggirnar herminjasafni. Þeir Stefán og Friðþór Eydal, sem senn lætur af störfum sem upplýsingafulltrúi varnarliðsins, væru örugglega pottþétt tvíeyki til þess að stýra slíku safni…

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Flugstöð Eiriks Haukssonar

Klippari sér að sumir hafa undrast ummæli hans í gær um Flugstöð Eiríks Haukssonar og jafnvel lesið í þau takmarkalausa aðdáun á Eiríki, sem brotist hafi fram á þessum freudíska náttkjól. Undirritaður hefur vissulega mætur á Eiríki, en með þessum orðum var einungis verið að víkja að nauðsyn þess að Íslendingar styrki tilkall sitt til Eiríks sem Norðmenn hafa á undanförnum árum reynt að eigna sér líkt og Leif forðum.

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

Moggi slakar á klónni

Sú var tíð á Morgunblaðinu, hálfsysturblaði Blaðsins, að þar var allt gert með hófstilltum hætti og efnistök í föstum skorðum. Moggi hefur enda ávallt tekið sjálfan sig hátíðlega og stundum hefur verið sagt að fréttastíllinn einkennist af því að verið sé að skrifa fyrir komandi kynslóðir fremur en fréttaþyrsta lesendur dagsins. Aginn náði þó ekki síður yfir aðsent efni og giltu t.d. afar stífar reglur um minningargreinar þar sem ekki mátti birta frumsaminn kveðskap og ekki ávarpa náinn, enda var viðkvæðið að þrátt fyrir mikla útbreiðslu Morgunblaðsins væri því ekki að treysta að blaðið væri lesið hinum megin, bæði í efra og neðra. Þessar reglur voru þó aflagðar fyrir nokkrum árum og blaðið hefur aflagt alls kyns kennisetningar aðrar á umliðnum árum.

Af aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær má ráða að frjálslyndið í þessum efnum sé orðið meira en nokkur hugði. Þar ritar Hreiðar Þór Sæmundsson opið bréf til Ögmundar Jónassonar vegna bréfaskrifta þingflokks vinstrigrænna til Daliu Itzik, forseta Knesset í Ísrael sem m.a. hefur verið getið í þessum dálki. Hreiðari Þór er nokkuð niðri fyrir í bréfi sínu, enda telur hann að með bréfaskriftunum séu vinstrigrænir að bera blak af hryðjuverkum Hamas. Lýkur hann máli sínu með því að skora á vinstrigræna að fá lánaða eldflaug frá Hamas, troða henni á afvikinn stað og skjóta sér á sporbraut um tunglið! Er það nú ekki til fullmikils mælst?

Þessi athugasemd birtist fyrst í Blaðinu.

8.7.06

Vakinn upp af værum blundi

Ég sé á Orðinu á götunni að einhver hefur fundið þennan blogg einu og hálfu ári eftir að hann sofnaði svefninum langa og gestakomurnar hafa lítillega aukist í samræmi við það. Fyrir kaldhæðni örlaganna er svo síðasti pósturinn um iðni bjóra, en eins og sjá má á bloggnum er ekki iðninni fyrir að fara af hálfu undirritaðs í bloggsskrifum.

Ég veit ekki hvort ég á að láta þessa særingameistara á Orðinu vekja blogginn upp frá dauðum. Einhvernveginn held ég að ég muni ekki hafa þrótt til þess að blogga mikið hér, enda má segja að ég bloggi nægju mína á síðum Blaðsins þar sem ég skrifa jafnan slúður og vangaveltur af vettvangi fjölmiðla og stjórnmála, fyrir nú utan lengri viðhorfsgreinar og leiðara. Þarf ég að tjá mig frekar? Hef ég tíma til þess? Og er eftirspurn eftir frekari yfirlýsingum af hálfu þessa hægri kantmanns, sem ég er?

Sjáum til. Þegar mikið gengur á hef ég kannski eitthvað fram að færa og því er ekki heldur að leyna, að bloggið getur verið í senn öryggisventill og tilfinningalegt skilrúm, svo leitað sé orðfæris í smiðju valdaræningjans. En svo er kannski ástæða til þess að smeygja inn skrifum mínum í Blaðið hér líka. Vefurinn okkar er ekki beinlínis aðgengilegur eða tryggilega uppfærður.

18.11.04

Iðnir bjórar

Bjórar eru taldir með iðnari skepnum, en verkfræðikunnátta þeirra við stíflugerð er með ólíkindum. Iðni þeirra er slík að í ensku má lýsa kappsömum manni sem „eager beaver“. Ég má til með að minnast á að bjórinn er einkennisdýr míns gamla skóla og skólablaðið heitir The Beaver, sem sumum bandarískum nemendum þótti óstjórnlega fyndið vegna slangurmerkingar orðsins vestanhafs. Tilefni þessarar athugasemdar um bjóra er frétt af bjórum í Louisiana, sem gerðu sér stíflu úr tugþúsundum Bandaríkjadala, en þeim hafði áður verið stolið úr spilavíti skammt frá. Blaðamaður telur að þetta sé óvenjulegasta peningaþvætti, sem um getur.

Áhrif þéttbýlis á stjórnmálaskoðanir

Maður hefur hlustað á allar teoríurnar um það hvers vegna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fóru eins og þær fóru. Megnið er auðvitað tilgangslaust gaspur. Röfl um hvernig kosningarnar eiga að hafa oltið á strangtrúarhópum er bara píp út í loftið. Eða eiga trúaðir ekki að hafa kosningarétt? Sama má segja um það að umræða um hjónabönd samkynhneigðra hafi reynst vatn á myllu forsetans, þar sem svo ægilega margir hafi tilgreint siðferðisleg álitaefni sem helsta kosningamálið í sínum huga. Í síðustu forsetakosningum voru þeir fleiri, sem notuðu það óljósa svar. Og þar fram eftir götum. Margir hafa einnig bent á hvernig forsetakosningar fóru landfræðilega, en þegar horft er á ríkin virtust demókratar vera orðnir einangraðir við strendurnar. En auðvitað er það ekki þannig, þó kosningakerfið ýti undir slíka sýn. Þó repúblikanar hafi tapað Kaliforníu þýðir það ekki að engir slíkir finnist þar. Ekki fremur en að demókratar séu útrýmd tegund í Texas. Þegar dregið er upp kort af Bandaríkjunum, þar sem sýnt er hvernig atkvæði féllu eftir sýslum og litir notaðir til þess að sýna hlutföllin fremur en aðeins hvor sigraði, kemur vitaskuld í ljós mun blandaðra kort. Frekar en að tala um rauð ríki eða blá eru þau flest purpuralit, enda var mjótt á munum. En ekki síður er þó merkilegt að bera þetta saman við tölfræði um hversu þéttbýlar sýslurnar eru. Fylgnin er sláandi, þó auðvitað sé hún ekki einhlít. Er eitthvað við þéttbýli sem fær fólk til þess að hugsa á einhverjum tilteknum nótum? Eða dreifbýli? Við höfum ýmsar tilgátur um það hér á Íslandi, sem þó hafa lítt verið rannsakaðar ef frá er talið hið merka rit Ólafs Ásgeirssonar, Iðnbylting hugarfarsins. En vestra hugsa menn um þetta líka. Bendi á ágæta grein um þetta á Tech Central Station. Í greininni er engin einhlít svör að finna, en það má náttúrlega velta fyrir sér svarinu þegar ég spurði vin minn, sem búsettur er í New York, af hverju í ósköpunum íbúar borgarinnar hölluðu sér svo eindregið að demókrötum (þrátt fyrir 11. september, Ísrael og stöðu NYC sem háborg kapítalismans). Hann hallaði sér aftur, hristi hausinn og sagði: „Ég held það sé eitthvað í vatninu.“

14.11.04

Meira um leyndarhyggjuna

Ég var að hugsa um svör Stefáns Jóns Hafstein í Sunnudagsþættinum á Skjá 1 þegar Illugi Gunnarsson spurði hann út í óskiljanlegan leyndarhjúp Alfreðs Þorsteinssonar yfir bóhaldi dótturfyrirtækja Orkuveitunnar, en Samfylkingarfulltrúar R-listans, þau Stefán Jón og Steinunn V. Óskarsdóttir nýráðinn borgarstjóri, hafa tekið þátt í yfirhylmingunni.

Málið snýst um það að Alfreð hefur meinað réttkjörnum fulltrúum almennings í stjórn Orkuveitunnar að gegna lögbundnum eftirlitsskyldum sínum með að allt sé með felldu í fyrirtækinu, að réttar tölur liggi fyrir, að ákvarðanirnar séu teknar á réttum forsendum o.s.frv. Mér fannst Illugi leyfa Stefáni Jóni að sleppa fullbillega frá þessu.

Setjum nú sem svo — án þess að ég sé á nokkurn hátt að gefa í skyn að þannig sé því farið — að í fyllingu tímans komi í ljós að það séu alls maðkar og risarækjur í mysunni hjá Alfreð þannig að glæpsamlegt teljist. Hver er ábyrgð stjórnarmanna, þessara sömu stjórnarmanna og Alfreð, Steinunn V. og Stefán Jón hafa meinað að sinna eftirlitsskyldu sinni? Hún er tæpast mikil, en þeim mun meiri er ábyrgð meirihlutans, sem hefur knúið minnihlutann til vanrækslu af þessu tagi. Og þá þýðir nú ekki mikið fyrir Steinunni og Stefán Jón að tala um góða trú.

Samráð í stjórnmálum

Ég hef tekið eftir því að margir vilja gagnrýna Samfylkinguna fyrir leyndarhyggju og pukur, að þar séu allar ákvarðanir teknar í reykfylltum bakherbergjum, grasrótin sé skilin eftir út undan og margt sem eigi að vera opinbert sé þvert á móti heimullegt. Ég er nú ekki viss um að það standist um Samfylkinguna alla, en það á vissulega um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og klíku hennar. En þegar menn eru að finna að þessu, líkt og Björn Bjarnason dómsmálráðherra gerir í nýjasta pistli sínum, Steingrímur Ólafsson, fyrrverandi formaður Vinstrigrænna í Reykjavík, gerir í aðsendri grein í þriðjudagsblaði Morgunblaðsins og Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður gerði í Silfri Egils núna áðan, finna þeir einkum að þeirri hræsni að svona skuli þeir haga sér hinir miklu boðberar opinnar stjórnsýslu, þátttökulýðræðis og „samræðustjórnmála“.

Undir þetta má vel taka, en mér finnst merkilegt að enn skuli það borið á Sólrúnarsamfylkinguna að hún berjist fyrir „samræðustjórnmálum“. Því er nefnilega ekki þannig farið. Forsætisráðherraefnið fyrrverandi notaði nefnilega annað orð þó skylt sé. Hún talaði um „samráðsstjórnmál eins og glögglega má lesa í fyrri Borgarnesræðunni. En manni dettur í hug að nú orðið vilji menn síður stinga upp á samráði sem lausnarorði.

Snýr Arafat aftur?

Furðulegt að fylgjast með Sveini Rúnari Haukssyni í Sunnudagsþættinum á Skjá 1 líkja Jasser Arafat við Jesú frá Nazaret á þeirri forsendu að hann hafi „lagst á hnén og grátbeðið þjóð sína um að sýna Ísraelum ekki ofbeldi“, að hann hafi lagt það fyrir sína útvöldu þjóð að bjóða hinn vangann! (Seinna líkti hann karlinum við Jón Baldvin Hannibalsson og hvað þýðir það?!) En nú bíður Sveinn Rúnar væntanlega spenntur eftir því að steininum sé velt frá grafhýsinu og það allt.

Nú er það svo að Arafat sagði sitt af hverju um dagana, en það var himinn og haf milli þess, sem hann sagði við vestræna fjölmiðla og miðla arabaheimsins. Það er kannski fullseint að benda mönnum á það núna, en á vef Middle East Media Research Institute er að finna fjölmiðlaefni frá arabalöndunum þýtt á ýmis vestræn tungumál. Það, sem e.t.v. kemur mest á óvart er hversu gamaldags gyðingahatur er útbreitt þar eystra enn þann dag í dag, en margt gæti eins hafa verið útgefið í Mið-Evrópu fyrir 60-70 árum.

13.11.04

Lama önd í Ráðhúspollinum

Það voru vitaskuld stórtíðindi eftir allt það, sem á undan var gengið, að R-listanum skyldi takast að finna nýjan borgarstjóra jafnskjótt og áreynslulaust og raun bar vitni. En valið kom enn meira á óvart. Steinunn V. Óskarsdóttir hvað?!

Steinunn hefur fram að þessu ekki þótt neinn leiðtogi og það væri synd að segja að pólitískur vegur hennar væri stráður afrekum. Síður en svo. Einn samflokksmaður hennar var ekki minna hvumsa en ég yfir tíðindunum og missti út úr sér þessa einkunn: „Dökkhærða ljóskan frá helvíti“. Ég get nú ekki tekið undir það, en hitt er rétt að menn hafa engar sérstakar væntingar til hennar. Og út af fyrir sig hlýtur það að vera ömurlegt fyrir hana að verða borgarstjóri undir þessum kringumstæðum. Aðrir voru miklu fremur nefndir til starfans, en gátu ekki hlotið hnossið af því að þeir þóttu of líkleg leiðtogaefni. Þannig að hún varð fyrir valinu af því að það var fullkomin samstaða um það í R-listanum að það væri hún ekki.

En var það allt málið? Að framsóknarmenn gætu ekki hugsað sér að fóstra enn einn framtíðarleiðtoga Samfylkingarinnar? Það er hluti skýringarinnar, en ekki öll sagan. Málið er vitaskuld það að menn vita sem er að R-listinn er dauður, en þarf að halda út kjörtímabilið. Samfylkingin er þegar farin að funda um framboð í eigin nafni næst. En til þess að halda trúverðugleika þurfa R-listaflokkarnir að hanga saman út kjörtimabilið þó með hangandi hendi sé. Þannig að Steinunn er það sem Bandaríkjamenn kalla „lame duck“. Í Reykjavík takast sumsé á bláa höndin og lama öndin.

En fyrst maður er farinn að slá um sig með amerískum frösum er rétt að halda áfram. Ég held nefnilega að Steinunn sé annað og meira en lama önd. Henni er ætlað að vera „fall guy“. Hún er fengin til þess að stýra flakinu af R-listanum upp í fjöru og bera ábyrgð á augljósu afhroði flokkanna að baki honum í kosningunum 2006. Hún er fengin til þess svo að þeir Stefán Jón Hafstein og Dagur B. Eggertsson standi ekki uppi sem ósigurvegararnir. Þeir eru undanskildir af því að þeir kunna að eiga sér pólitíska framtíð en hún er skikkuð í djobbið af því að pólitísk framtíð hennar er álíkaspennandi og fortíðin. Ég er ekki einn um þessa greiningu, vinir mínir í Samfylkingunni samsinna hennir flestir.

10.11.04

Lygar, bölvaðar lygar og tölfræði

Á baksíðu Fréttablaðsins í dag má lesa vikulegan pistil heiðurslaunalistamannsins Þráins Bertelssonar en að þessu sinni beislar hann Pegasus til þess að ítreka andstöðu sína við aðgerðir bandamanna í Írak og stuðning íslenskra stjórnvalda við þær. Þar telur hann sérstaklega til að 100.000 íraskir borgarar hafi látið lífið vegna innrásarinnar og tekur samanburð um hvernig þær tölur ríma við mannfjölda á Íslandi. En hvaðan hefur skáldið þessar tölur? Maður hefur séð ýmsa henda þessi 100.000 á lofti en hvað hafa menn fyrir sér?Jú, hér er byggt á rannsókn, sem birtist fyrir skömmu í hinu virta breska læknariti The Lancet. Og hvað skyldi koma fram þar?
We estimate there were 98,000 extra deaths (95% CI 8000-194 000) during the post-war period
Með „extra deaths“ eiga höfundarnir við að þeir hafi tekið dánartölur í úrtakshópum á tilteknu tímabili fyrir innrás, borið saman við jafnlangt tímabil eftir innrás og framreiknað á Írak allt. Mismuninn hlýtur að mega rekja til innrásarinnar segja þeir. Liggur það þá ekki bara fyrir? 98.000 ≈ 100.000? Nei, því er ekki þannig farið, því tölurnar, sem máli skipta, eru innan svigans. Þær þýða að höfundar skýrslunnar segjast 95% vissir um að mannfallið sé á bilinu 8.000-194.000. Talan 98.000 er bara sirka þar á milli.

Þegar höfundarnir áætla að dauðsföll af völdum innrásarinnar séu á milli 8.000-194.000 sér hver maður að þetta er ekki áætlun, heldur ágiskun. Það þýðir kannski lítið að sakast við höfundana, hvernig er hægt að ætlast til þess að þeir geti framkvæmt tölfræðirannsókn undir núverandi kringumstæðum í Írak? Það er auðvitað ekki hægt. En einmitt þessvegna má áfellast höfundana fyrir að hafa einfaldlega ekki hætt við fremur en að gefa út svona markleysu, sem er til þess eins fallin að rugla menn eins og Þráin frekar í ríminu. Síðan má gera margháttaðar athugasemdir við aðferðafræðina að öðru leyti, en ég nenni því ekki hér.

Vilji menn kynna sér áreiðanlegri tölur um mannfall í Írak er nær að líta á vef Iraq Body Count en þar telja menn líkin, fremur en að framreikna niðurstöður könnunar meðal vafasams úrtaks.

9.11.04

Hver tekur við?

Milljón dollara spurningin er auðvitað hver taki við starfi borgarstjóra að Þórólfi Árnasyni gengnum. Ef R-listinn væri flokkur væri þetta ekki ýkja erfitt, en af því að þrír flokkar og „óháðir“ standa að þvi er um flókið tafl að ræða og engan veginn víst hvaða peð verða drottningar áður en yfir lýkur. Ég hef hitt Samfylkingarfólk, sem er þess fullvíst að Alfreð muni nota tækifærið til þess að ganga til liðs við sjálfstæðismenn, Vinstri grænir eru vænisjúkari en nokkru sinni og allir á nálum, en framsóknarmenn notuðu tækifærið til þess að samþykkja ályktun um val nýs borgarstjóra þvert á yfirlýsingar Ingibjargar S. Gísladóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Það er stormasamt á hamingjuheimilinu.

Svona fyrirfram hefði maður gefið sér að Dagur B. Eggertsson væri líklegasti kandídatinn. Hann er ungur, vel menntaður, býður af sér góðan þokka og er með óvenjuóflekkaðar hendur af borgarfulltrúa R-listans að vera. Mér segir hins vegar svo hugur um að Vinstri grænir muni ekki samþykkja hann. En framsóknarmenn eru sjálfsagt bara að prútta, Alfreð er slétt sama hver er borgarstjóri svo framarlega, sem hann fær það sem hann vill, og hann gæti fengið eitthvað auka út á það að veita Degi blessun sína.

Menn hafa gasprað eitthvað um fólk utan listans, en flest af því er vafalaust nákvæmlega það: gaspur. En svo eru fleiri kostir í stöðunni.

Við afsagnartilkynninguna tók ég eftir því að Þórólfur kvaðst hlakka til þess að vinna með nýjum borgarstjóra. Hvað átti hann við? Er hann e.t.v. aðeins að skipta um skrifstofu í Ráðhúsinu? Um þessar mundir standa yfir allmiklar stjórnkerfisbreytingar í borgarkerfinu, sem taka eiga gildi um áramót, og þar er vissulega rými fyrir mann eins og Þórólf, t.d. sem sviðsstjóri Fjármálasviðs, Framkvæmdasviðs, Menningar- og ferðamálasviðs eða Þjónustu- og rekstrarsviðs. En í þessari skák er ein hrókering ótalin enn: Ef Helga Jónsdóttir borgarritari verður ráðin borgarstjóri losnar hennar stóll, en um áramót átti hún að verða sviðsstjóri Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs og staðgengill borgarstjóra. Væri R-listinn yfir það hafinn að koma Þórólfi fyrir þar? Hann myndi svo stjórna borginni eftir sem áður, en eftirláta Helgu borðaklippingar og snittukúrinn. Þegar þar að kæmi færi hann svo bara í prófkjör og myndi vafalaust ná ágætum árangri þar. Panem et circenses.

Þórólfur hættir

Rétt áðan bárust þau gleðitíðindi að Þórólfur Árnason hefði loks orðið við áskorun minni frá því í fyrra og sagt af sér, en hann heldur þó áfram út mánuðinn. Hver tekur við starfi borgarstjóra er enn óljóst, en Vísir, vefmiðill Baugs, kveðst hafa öruggar heimildir fyrir því, að Dagur Bergþóruson Eggertsson verði næsti borgarstjóri. Dagur er ágætur maður, en ég er ekki viss um að hann sé endilega rétti maðurinn í starf borgarstjóra. Og hver sem fyrir valinu verður, aumingja hann. Erindi R-listans er þrotið, borgin er illa stödd og nýr borgarstjóri verður í gíslingu flokkanna þriggja, sem að R-listanum standa. Eina leiðin til þess að bjarga R-listanum væri að fá sterkan leiðtoga, með skýrt pólitískt umboð, sem gæti lamið smákóngana Alfreð, Árna Þór og Stefán Jón niður eftir þörfum. Sá maður er ekki til. Nema náttúrlega Ingibjörg Sólrún Gísladóttir snúi aftur og þá mun þessi marbendill nú hlæja!

8.11.04

Glundroðakenningin góð og gild!

Það er nýjast af óendanlegum forystuvanda R-listans, að nú hugleiða vitringarnir í reykmettuðum bakherbergjum Ráðhússins það, að losa sig við Þórólf Árnason og láta þrjá menn deila með sér störfum og skyldum borgarstjóra! Ég vissi að það væri ekki í lagi með þetta lið, en mig óraði ekki fyrir því að það væri svona firrt. Var ekki helsta raison d’être R-listans einmitt það, að boðinn væri fram skýr kostur gegn Sjálfstæðisflokknum, með einn verkstjóra og klára stefnu? Var ekki punkturinn sá að svara glundroðakenningunni og afsanna hana? Og nú á að færa hana í fullt gildi á ný.

Af þessu tilefni hef ég hannað bolinn, sem sjá má til hliðar, og hann má fá fyrir aðeins tæpa $20 í þar til gerðri búð, sem ég hef opnað á CaféPress. Smelltu á bolinn til þess að tryggja þér eintak áður en R-listinn liðast í sundur!

Diplómatían fullreynd á Fílabeinsströndinni?

Maður fær fregnir um að Frakkar hafi eytt flugher Fílabeinsstrandarinnar, náð valdi á fluvellinum í Abidjan (aðalborg landsins þó Yamoussoukro sé höfuðborg), franskir skriðdrekar séu að umkringja forsetahöllina og stutt kunni að vera í að Laurent Gbagbo verði steypt. Frakkar eru hluti friðargæsluliðs, sem þangað var sent fyrir um ári til þess að verja vopnahlé milli stjórnarinnar og uppreisnarmanna í landinu. Á laugardag ítrekaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna heimild til þess að beita öllum tiltækum til þess að framfylgja ályktun sinni um vopnahléð. Og jæja. En það er skrýtið að maður heyrir ekki orð um að það verði í lengstu lög að láta reyna á diplómatískar lausnir í málinu. Af hverju ætli það sé? Af því að þetta varðar franska hagsmuni? Af því að þetta eru bara negrar? Eða gæti verið að vörnin fyrir Saddam hafi byggst á einhverju allt öðru?

Arafat má ekki deyja

Dauðastríð Jassers Arafats ætlar að verða langt og strangt. Enginn virðist vita nákvæmlega hvað að honum gengur og fregnir af líðan hans eru afar misvísandi. Nú þegar eru sprottnar deilur um hvar eigi að dysja karlinn og ekkja hans in spe sakar helstu samstarfsmenn hans um að reyna að kviksetja hann.

Þessar ásakanir þurfa þó ekki að vera réttar, því aðrar fregnir herma að palestínsku heimastjórninni sé mikið kappsmál að halda karlinum á lífi, a.m.k þar til hann er búinn að gefa upp upplýsingar um leynilega bankareikninga sína.

Talið er að Arafat hafi a.m.k. milljarð Bandaríkjadala á leynireikningum í Sviss, Ísrael, Karíbahafi og víðar. Vitað er að Arafat hefur alla tíð umgengist peninga PLO afar frjálslega og haldið uppteknum hætti eftir að heimastjórninni var komið á laggirnar. Peningana hefur hann bæði notað í eigin þágu og sem stjórntæki, því með því að halda sjálfur um budduna hefur hann getað keypt sér hollustu og svelt keppinauta til hlýðni. Að því leyti hefur hann fremur líkst lénsherra en forseta. Palestínska heimastjórnin er rekin fyrir styrktarfé frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum, Ísrael og Noregi, en hefðbundnar skatttekjur hennar eru nánast engar.

7.11.04

Helmingaskipti sannleikans

Sá mæti stjórnmálafræðiprófessor Svanur Kristjánsson var einn gesta Egils Helgasonar í Silfri Egils. Fyrir utan fræðistörf sín má kalla Svan einn af guðfeðrum R-listans, en hann hefur verið ódeigur við að beita sér í stjórnmálum og segja fyrir um þróun og hræringar á þeim vettvangi, þó það væri synd að segja hann sérstaklega forspáan í þeim efnum. Í þættinum fjölluðu þeir nokkuð um Bandaríkjaforseta og þótti Agli eilítið skrýtið að heyra Svan hæla honum fyrir eitthvað. Svanur vildi meina að það væri ekkert skrýtið þó hann gæti fjallað fræðilega um slíkt:
Ég er nú stjórnmálafræðingur, búinn að vinna við það í 30 ár. Ég meina ef ég ætlaði að fara að láta skoðanir einhverra [eða] álit á mönnum...
En seinna í þættinum var haldið á heimavöll og rætt um olíumálið, en það taldi Svanur birtingarmynd íslensks valdakerfis að tjaldabaki og það allt. Sérstaklega nefndi hann til „helmingaskiptakerfið“ og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu verið allt í öllu í þessu. Þessu til „sönnunar“ nefndi hann órökstudd dæmi um Skeljung og Essó, án þess að ég vilji gera lítið úr pólitískum tengslum þeirra fyrirtækja á árum áður. En það er með ólíkindum að hann nefndi gamla BP, sem síðar varð Olís, aldrei til sögunnar. Af hverju ekki? Af því að það hentaði ekki kenningu hans um helmingaskiptin? Ég eftirlæti lesandanum að dæma um vísindamennskuna að baki svona orðræðu. Og gildi helmingaskiptakenningarinnar þegar hún byggist á hálfsannleik.

4.11.04

Fjölmiðlavandinn II.

Furðuleg framkoma R-listans við fjölmiðla og almenning er orðin hlægileg framhaldssaga. Í fréttum Stöðvar 2 núna áðan tók Róbert Marshall við kyndlinum (hljóðnemanum) af Evu Bergþóru Guðbergsdóttur og dirfðist að spyrja þessa fulltrúa reykvísks almennings um það hvað sé á seyði. Hann uppskar lítið nema þögnina og hið litla, sem þó var umlað, var ekkert nema hroki. Þessi viðbrögð borgarfulltrúanna eru skammarleg. Þeir láta eins og fjölmiðlum komi þetta ekki við, að hér sé um fjölskyldumál að ræða, mannlegur harmleikur eða ámóta. Skæla svo undan því að fréttamenn spyrji fregna og líkja þeim við hrægamma! Gerir þetta fólk sér ekki grein fyrir því að það situr í Ráðhúsinu í umboði almennings? Að það er trúnaðarfólk borgaranna? Að svona framkoma er óboðleg? Svei þeim!

Safari-viðbót

Af því að ég nota Mac OS X er vefglugginn Safari eitt helsta vinnutækið. Ég hef líka notað OmniWeb og Firefox svolítið og er ánægður með bæði forritin, en Safari er það, sem ég nota að öllu jöfnu. Ég hygg að svo sé um flesta makkanotendur. En það er eitt og annað, sem betur mætti fara í Safari og við eigum ekki von á neinni alvöruuppfærslu fyrr en næsta sumar. Þess vegna vil ég endilega benda mönnum á Safari-viðbótina Saft, sem bætir úr ýmsum minniháttar vanköntum og bætir við margvíslegum fídusum, sem mér finnast núna öldungis ómissandi. Sem dæmi má nefna: RSS-lestur, leit í history-skrá, vistun vefsíðna, betra viðmót og margt fleira. Það, sem mér finnst þó svalast er skilgreining á skyndileit. Þannig get ég skrifað
mbl leitarorð
í slóðarreitinn, slegið á vendihnappinn og það næsta sem ég sé er leitarniðurstöðusíða frá Gagnasafni Morgunblaðsins. Það er vitaskuld hægt að skilgreina alls kyns flýtiskipanir aðrar og það er ekki bundið við leitarvélar þó brillíansinn sé mestur þar. Skora á menn að ná sér í Saft og borga $10 fyrir. Það er gjafverð.

Hatrið á Bandaríkjunum og Bush

Ég hef furðað mig nokkuð á því hvað andúð á Bandaríkjunum (að maður segi ekki hatur) hefur vaxið í Evrópu undanfarin ár, sem kristallast einna helst í móðursýkislegu hatri á George W. Bush. Sumir vinstrisinnaðir vinir mínir halda því fram að orsökin sé herför Bandaríkjanna og bandamanna þeirra til Afganistan og Íraks, en það er ekki rétt, þessi hneigð var þegar hafin áður en Bush var kjörinn forseti fyrir fjórum árum og raunar má sjálfsagt rekja hana til valdatíðar Ronalds Reagans.

Í kosningabaráttunni 2000 voru annars málsmetandi menn ekki yfir það hafnir að skrifa blaðagreinar þar sem gengið var út frá greindarskorti Bush sem vísum (þó manni skiljist raunar að því sé þveröfugt farið) og eftir að Bush var tekinn við völdum jókst gagnrýnin til muna þar sem hann var sakaður um einfeldni, heimóttarskap, einangrunarhyggju og þessar ávirðingar jafnan heimfærðar upp á Bandaríkjamenn alla, sem áttu sem þjóð að vera svona eða hinsegin. Eftir 11. september sneri Bush raunar blaðinu við gagnvart umheiminum, en þá góluðu þessir sömu menn undan því líka. Það er erfitt að gera þeim til hæfis.

Mig langar að skrifa eilítið um hið nýja Bandaríkjahatur, en það verður að bíða betri tíma. Á hinn bóginn vil ég benda á ágæta grein Janet Daley, sem hún skrifaði í Daily Telegraph í gær. Þar veltir hún vöngum yfir þessu sjúklega hatri margra á Bush og segir m.a.
[George W. Bush] is hated because he is the embodiment of everything that the United States is, and Europe is not: not just enormously powerful, militarily and economically, but brashly confident and fervently patriotic. Where Europe is steeped in historical guilt and self-loathing — so immersed in its own unforgivable past that it is trying to fashion a constitution that actually prohibits national pride — America is profoundly proud of the success of its own miraculous achievement.
Ætli það sé ekki nokkuð til í þessu. Mér hefur a.m.k. fundist margar ákvarðanir „gömlu Evrópu“ upp á síðkastið bera vitni um ríka minnimáttarkennd.

Eru fjölmiðlar vandamálið?

Taugaveiklunin hjá R-listanum er komin út yfir öll mörk. Ekki þar fyrir, R-listafólk hefur fulla ástæðu til þess að vera taugaveiklað. Það er nú ekki beinlínis þekkt fyrir ráðsnilld og vandræðagangurinn virðist engan enda ætla að taka. En ég hugsa ég drepi niður penna um þau mál á öðrum vettvangi.
Maður sér best örvæntinguna hjá þessu liði á einkennilegum viðbrögðum Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, þegar fjölmiðlamenn reyndu að spyrja tíðinda af fundi borgarstjórnarmeirihlutans um forystuvanda R-listans. Spurningarnar einkenndust síður en svo af einhverri aðgangshörku, en þeim var vitaskuld látið ósvarað. Þar til Björk vindur allt í einu upp á sig og hvæsir á Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, fréttakonu Stöðvar 2:
Það er ekki að ástæðulausu sem fjölmiðlar, eru kallaðir hrægammar!
Þetta vakti vitaskuld nokkra undrun viðstaddra, að ekki sé minnst á áhorfendur, en fréttamennirnir höfðu sjálfsagt ekki gert sér grein fyrir því að þeir væru að voka yfir hræi. Og Björk var ekki búin, því eftir nokkur skref frá kastljósi fjölmiðlanna gerði hún aftur stuttan stans og hreytti svo á Evu:
Lausnir finnast ekki í gegnum fjölmiðla.
Eva skildi ekki frekar en aðrir hvað konukindin var að fara og spurði hvort R-listinn hefði einhverja lausn í þessu vandasama máli. Þá gat Björk ekki stillt sig, snerist á hæli og spurði nötrandi röddu:
Haldið þið í alvöru talað að þið [fjölmiðlar] séuð einhver lausn?
Þegar hér var komið við sögu var Stefáni Jóni Hafstein, fylgdarmanni Bjarkar, nóg boðið, hann lagði hramminn utan um Björk og leiddi hana á braut áður en hún skaðaði sig og listann meira en orðið var.

Hvað í ósköpunum olli þessari vanstillingu borgarfulltrúans? Að mínu viti hafa fjölmiðlar farið afskaplega varfærnislega í mál borgarstjóra, alltof varlega jafnvel og einblínt um of á meinta refsiábyrgð hans þegar hér ræðir fyrst og fremst um siðferðisleg álitaefni og pólitíska ábyrgð.

Og hvað í ósköpunum var borgarfulltrúinn að bögglast við að segja? Við náðum því að fjölmiðlar væru ekki lausnin, en hvað þýðir það? Að þeir séu hluti vandamálsins eins og Björk og skoðanasystkin hennar orðuðu það í gamla daga? Ég held það boði ekki gott þegar stjórnmálamenn tala um fjölmiðla almennt á þann hátt. Og enn síður boðar það gott fyrir R-listann, sem hefur reynt að gefa sig út fyrir að vera sérstakur boðberi boðaði breyttra stjórnarhátta, samráðsstjórnmála, starfa fyrir opnum tjöldum og allt það. Auðvitað er það tómt snakk, en hræsnin er pínlegri fyrir vikið.

Ég las það á forsíðu Morgunblaðsins í morgun að R-listinn hefði ályktað það á fundi sínum í gærkveldi að umræðan [hefði] gert stöðu Þórólfs erfiðari. Það var og. Bannsett umræðan! Alltaf er hún söm við sig. Að maður minnist ekki á fjölmiðlana...

Nei, ætli staða hans sé ekki erfið af einhverjum öðrum orsökum. Til dæmis þeim að borgarstjóri hefur ekki verið ærlegur við borgarbúa um þátt sinn í málinu. Hann hefur ekki einu sinni verið ærlegur við borgarfulltrúa meirihlutans um hann. Sá eini, sem eitthvað vissi af þessum málum, var fyrirrennari hans í starfi og henni fannst þetta bara allt í lagi fyrst hann teldi sig geta varið sig. En í stjórnmálum má heiðarleiki ekki bara vera eitthvert æskilegt viðmið, sem hægt er að hliðra til þegar þarf. Undanbrögð Þórólfs vekja efasemdir um að hann sé réttur maður í stóli borgarstjóra, en það eru fyrst og fremst viðbrögð vinnuveitenda hans hjá R-listanum, sem bera vitni um dómgreindarskort, óheilindi og algjört trúnaðarrof við reykvíska borgara.

Sigur Bush

Jæja, kosningarnar vestra eru afstaðnar og þær fóru líkt og ég vænti, þó ég hafi raunar gert ráð fyrir að forsetinn myndi hafa fleiri kjörmenn á bak við sig. En það sem eftir situr er að George W. Bush endurnýjaði umboð sitt og gott betur. Þessi kosningasigur hans var afdráttarlaus öfugt við kosningarnar 2000. Hann var kjörinn með meirihluta atkvæða og meirihluta kjörmanna með óyggjandi hætti. (Að því leyti er mér ljúft að hafa haft rangt fyrir mér, John F. Kerry hélt aftur af lögfræðingum demókrata og viðurkenndi ósigur sinn eins og herramanni sæmir.) Kosningaþátttaka var meiri en nokkru sinni og enginn forseti Bandaríkjanna hefur verið kjörinn með jafnmörgum atkvæðum. Repúblikanar héldu svo og styrktu meirihluta sinn í þinginu. Mazel tov! 

Hvað þýðir þetta?

Fyrst og fremst þýðir þetta að Bush hefur fengið umboð þjóðar sinnar og óvinir Bandaríkjanna, rétt eins og vinir og bandamenn, þurfa ekki að velkjast í neinum vafa um einurð þeirra við að ráða niðurlögum hryðjuverkahreyfingar íslamofasista, að áfram verði haldið á braut efnahagsuppbyggingar (sem vísir menn segja mér að sé í þann veginn að leiða til 10-12 ára hagvaxtarskeiðs), og að tekið verði til í skatta- og tryggingakerfi Bandaríkjanna. 

Á hverju vann Bush? 

Eftir á að hyggja skil ég lítið í sjálfum mér og öðrum að hafa nennt að horfa á kappræður forsetaframbjóðendanna, vangaveltum um tekjuskattsþrep, lyfjakostnað, hjónabönd samkynhneigðra og allt það. Á endanum snerist þetta aðeins um baráttuna gegn hryðjuverkum og hæfileikann til þess að leiða hana. Bush tók afstöðu í því máli meðan Kerry lét eins og húsvörðurinn í Hvíta húsinu þyrfti ekki að hafa af því sérstakar áhyggjur umfram annað það, sem miður færi í heiminum og skipti svo um skoðanir í takt við síðustu könnun. Þjóðin vildi fremur leiðtoga en leiðitaman.

Er þá allt fallið í ljúfa löð?

Það var mikið gert úr því í kosningabaráttunni að bandaríska þjóðin væri klofin og þá sérstaklega í afstöðunni til Íraks. Ég held að það sé orðum aukið að þjóðin sé klofin, fyrir þorra hennar er það nú tæpast þannig vaxið. En hitt er rétt að persónuleg andúð hörðustu vinstrimanna í garð forsetans er með þeim hætti að þeir munu ekki láta sér nægja að vera „loyal opposition“. Meintur klofningur er fyrst og fremst klofningur vinstri-elítunnar frá þjóðinni og bræði elítunnar er meiri en nokkru sinni vegna þess að þjóðin vill ekki hlusta á hana og tekur í þokkabót undir málflutnings hins málhalta forseta síns. Bush talaði til stuðningsmanna Kerrys að kosningum loknum og hét því að byggja brýr yfir til þeirra. Þetta á við um hinn almenna stuðningsmann demókrata, en ekki um elítuna enda kærir hún sig ekki um slíkt. Einangrun hennar mun aukast á næstu árum.

2.11.04

Fátt í fréttum?

Athugasemdirnar hafa lítið láta á sér kræla að undanförnu og því mætti ætla að mér fyndist fátt markvert að gerast. Það er öðru nær, en ég hef verið afar upptekinn í vinnu síðustu daga. Þá verður bloggurinn út undan. En svo maður tæpi á því helsta, sem ég hefði hæglega getað skrifað um undanfarna daga í löngu máli:
  • Forsetakosningarnar Ég held að George Bush sigri kosningarnar með nokkrum mun í atkvæðum talið, en það verður mjórra á mununum þegar kemur að kjörmönnum. Sem er slæmt því demókratar munu lögsækja, lögsækja og lögsækja. Endanleg úrslit þurfa því ekki að liggja fyrir nærri því strax.
  • Borgarstjórinn Ég er þeirrar skoðunar nú sem fyrrÞórólfur Árnason eigi að segja af sér þegar í stað. Ekki vegna þess að hann muni sæta nokkurri refsiábyrgð í olíumálinu — enda snúast hans mál ekki um það — heldur siðferðishliðina. En ég held hann segi ekki af sér. Þá ætti R-listinn að segja honum upp, en það gerir hann ekki því þeir eiga engan til vara, sem allir flokkarnir fella sig við. Þórólfur mun því sitja áfram og móralskt gjaldþrot R-listans verður augljósara og dýpra með hverjum mánuðinum fram að kosningum. Verði þeim að góðu. Málið er nefnilega það að Þórólfi sagði okkur borgarbúum ekki allt af létta um þessi mál á sínum tíma, hann er enn ekki búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum og reynir þvert á móti að villa um fyrir fólki þegar hann er spurður um þau. Það er óþolandi. — Og hvað má þá segja um framkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem handvaldi þennan eftirmann sinn? Á sínum tíma ræddu þau þetta saman og varaþingmaðurinn lét hafa það eftir sér að hann hefði fullvissað sig um að hann gæti varist þessum áburði. Á hverju byggði hún það? Og hvaða ályktanir má draga um dómgreind og/eða heiðarleika þeirra af því? Ef það var þá þannig.
  • Osama bin Laden Það var leiðinlegt að sjá þann karl á lífi og leiðinlegra að sjá framlag hans til kosningabaráttu Kerrys. En mér finnst orðræða hans ahyglisverð, þetta er sama þvaðrið og maður má lesa eftir VG-liðið, Michael Moore og verstu þýðendur hans á Málefnunum. Þeir hafa ávallt mikið fyrir því að rekja að þeir séu ekki í liði með honum eða Saddam, en það er merkilegt að hann lítur á sig sem samherja þeirra!
  • Friðargæslan Ég var efins um friðargæsluna á sínum tíma og er það enn. Enn furðulegri er þó afstaða sumra, að friðargæslan eigi að einbeita sér að friðvænlegri stöðum en nú! Hvar þá? Danmörku? Suður-Dakóta? Eða Kárahnúkum þar sem manni skilst að þurfi að ganga á milli innfæddra og Portúgala? Atvikið í Kabúl er grafalvarlegt og ljóst að það þarf að taka vinnubrögðin mjög til endurskoðunar. Málsatvik eru raunar enn ekki ljós, en ég sé ekki betur en að yfirmaður friðargæsluliðanna hafi gerst sekur um saknæmt gáleysi. Sjáum til.
  • Blaðalestur Sumir segja mér að lestrarkönnun Gallup, sem sýnir hvernig Morgunblaðið hefur dalað í samkeppni við Fréttablaðið, endurspegli höfnun þjóðarinnar á afstöðu Mogga til Fjölmiðlalaganna og fréttaflutningi fyrir forsetakosningar hér á landi. Ég held ekki, það var engin veruleg dýfa í sumar. En það er erfitt fyrir vini mína á Morgunblaðinu að keppa við ókeypis keppinaut. Hvert eintak af Mogganum kostar 220 krónur. Það að menn lesi blaðið enn í svo miklum mæli, sem raun ber vitni, hlýtur að gefa til kynna að það sé a.m.k. 220 krónum betra en Fréttablaðið.
  • Ríkisstjórnin Ég á erfitt með að lesa eitthvað úr eilítið dalandi fylgi ríkisstjórnarinnar og flokka hennar. Einhver urgur vegna kennaraverkfallsins bitnar vafalaust á henni, en síðan má líka minna á að í síðustu könnun fékk Sjálfstæðisflokkurinn einhvern byr í seglinn vegna hlýrra hugsana til Davíðs Oddssonar í veikindum hans.
  • Forseti Alþingis Menn rifja það upp vegna olíumálsins að Sólveig Pétursdóttir hafi rýmt ráðherrastól sinn gegn því að verða forseti Alþingis er fram liðu stundir. Ég tel af og frá að unnt sé að efna það heit. Sólveig er lögfræðingur eins og Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og eiginmaður hennar. Maður getur ekki trúað því að þeir lögfræðingarnir hafi aldrei misst eitt orð um viðskiptahætti olíufélaganna yfir koddann eða kornfleksdiskinn. Forseti Alþingis er æðsta ókjörna embætti þjóðarinnar og einn af handhöfum forsetavalds. Slíkan skugga má ekki undir nokkrum kringumstæðum bera á embættið.
  • Olíumálið Ég er enn þeirrar skoðunar að það eigi alls ekki að sekta olíufélögin, því við neytendur munum einir gjalda fyrir það. Á hinn bóginn finnst mér að það eigi að sækja forstjóra/framkvæmdastjóra og stjórnarformenn fyrirtækjanna á þessum tíma til saka og dæma til slíkra fésekta að þeir verði gerðir upp og sitji svo í gapastokk í eins og hálf ár öðrum til viðvörunar.