Látum ekki minnihluta þjóðar ráða


Engum blandast hugur um að með ákvörðun sinni hefur herra Ólafur Ragnar gerbreytt eðli forsetaembættisins og aukið völd þess til muna. Og hið merkilega er að það er gert með einni yfirlýsingu á Bessastöðum. Með því að grípafram fyrir hendur á lýðræðislega kjörnu Alþingi, sem tekið hefur ákvarðanir sínar með lögmætum hætti, hefur herra Ólafur Ragnar um leið fórnað öllu starfi fyrirrennara sinna til þess að hefja embættið yfir pólitísk deilumál líðandi stundar. Í þessu viðfangi er einnig rétt að minnast þess að forseti hét því í vor að taka virkari þátt í umræðu um þjóðfélagsmál næði hann endurkjöri hinn 26. júní og mun því að líkindum færast heldur í aukana. Forseti Íslands situr ekki lengur á friðarstóli heldur er hann orðinn beinn þátttakandi í orrahríð stjórnmálabaráttunar.
Það er miður, því það er meira framboð en eftirspurn af stjórnmálamönnum á Íslandi. Á hinn bóginn er verulegur hörgull á mönnum, sem sameinað geta þjóðina alla og eru hafnir yfir hið pólitíska argaþras. Og aldrei sem nú.
Hvernig skal kosið?
En hvernig ber að haga þjóðaratkvæðagreiðslunni svo hún sé gild? Það er grafalvarlegur hlutur að trufla löggjafarvald Alþingis og það er eins gott að þar að baki sé tryggur þjóðarvilji, sem ekki verði efast um.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hreyfði þeirri hugmynd, að rétt væri að kveða á um að ¾ atkvæðisbærra manna skuli taka þátt í atkvæðagreiðslunni, til þess að lögunum verði hnekkt. Sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa mótmælt þessu harðlega og sagt að með því gæti fjórðungur kjósenda tryggt lögunum framgang með því að sitja heima. Að mínu viti er sú hætta nánast hverfandi, en eins og sjá má á meðfylgjandi töflu hefur það aðeins einu sinni gerst í almennum kosningum á Íslandi að kosningaþátttaka hafi verið minni en 75% (þegar frú Vigdís Finnbogadóttir fékk máttlaust mótframboð á miðjum forsetaferli sínum). En það má líka spyrja sem svo hvort að ástæða sé til þess að hunsa réttkjörinn meirihluta Alþingis ef meira en fjórðungur kjósenda sýnir málinu ekki áhuga. Teldi meirihluti þjóðarinnar á sig hallað gæti hann rétt hlut sinn í næstu þingkosningum. Svo má ekki gleyma hinu, að mál, sem eiga erindi til þjóðarinnar með þessum hætti, eiga að vera þess eðlis að þau gangi þvert á hinar hefðbundu pólitísku línur: að þau höfði til réttlætiskenndar manna fremur en flokkspólitískra sjónarmiða.
En þó rök stjórnarandstæðinganna kunni að vera léttvæg, er þessi hugmynd um 75% kjörsókn engan veginn viðunandi. Sem fyrr segir má það ekki gerast fyrr en í lengstu lög að vilji meirihluta Alþingis sé brotinn á bak aftur, en 75% reglan býður heim hættunni á að 37,6% borgara landsins geti hnekkt lögmætri meirihlutasamþykkt löggjafans. Það má ekki gerast.
En einhvern þröskuld þarf að hafa þannig að þjóðin eigi ekki á hættu að lenda í herkví sérhagsmunahópa eða einbeittra minnihlutahópa vegna andvaraleysis þorra kjósenda. Þetta er enn mikilvægara en ella í ljósi fyrrgreindrar yfirlýsingar forsetans um að hann hyggist taka aukinn þátt í opinberri umræðu á komandi kjörtímabili og hinnar nýju pólitísku víddar embættisins. Þá má ekki líta framhjá því fordæmi, sem herra Ólafur Ragnar hefur gefið eftirmönnum sínum, og verður með tímanum vafalaust túlkað víðara en þrengra.
Aðeins meirihluti ógildi lög
Hinn eðlilegi þröskuldur hlýtur að vera vilji meirihluta borgara landsins. Við kjósum til þings svo að þar megi fjalla um landsins gagn og nauðsynjar án þess að stundarhagsmunir ráði. Þetta fyrirkomulag er af sömu rót runnið og réttarríkið, dómar skulu vera að lögum en ekki skoðanakönnunum. Því jafnkært og okkur er lýðræðið verðum við að forðast múgræðið. Verði þinginu það á að samþykkja lög sem meirihluti þjóðarinnar telur engan veginn samrýmast samfélagssáttmálanum á hann vitaskuld að geta hrundið þeim. Helst í þingkosningum, en ef í nauðirnar rekur með þjóðaratkvæðagreiðslu.
En þá verður niðurstaðan líka að vera óyggjandi. Það má ekki fara milli mála að það er öruggur meirihluti þjóðarinnar, sem hefur lögmæta samþykkt Alþingis að engu. Það verður aðeins gert með þeim hætti að meirihluti atkvæðisbærra manna ónýti lögin. Að óháð kjörsókn þurfi helmingur manna á kjörskrá og einum betur að ógilda þau.
Íslenska lýðræðið er eldra en lýðveldið og réttarríkið enn eldra. Það er enda leitun að þjóð, sem býr að viðlíka frelsi, réttaröryggi, jöfnuði og velmegun. En það er mikil jafnvægislist að láta þetta allt haldast í hendur og þegar menn telja þörf á afbrigðum frá hefðbundnum leikreglum lýðræðisins, sem reynst hafa okkur svo fjarskavel, þarf að sýna ýtrustu aðgæslu. Þá ríður á að menn horfi fram á veginn og búi svo um hnútana að minnihluti geti ekki tekið völdin af fulltrúum meirihlutans á Alþingi.
Birt í Morgunblaðinu 10. VI. 2004.